Á tímum Covid-heimsfaraldurs berast fréttir af því að aldrei hafi fleiri látist í Bandaríkjunum af völdum of stórra skammta af vímuefnum en í ár. Sérfræðingar telja að helstu ástæður séu vaxandi notkun á ópíóíðum og sú staða að vegna áhrifa Covid fái vímuefnanotendur minni þjónustu og stuðning frá ofhlöðnu heilbrigðiskerfi.

Dauðsföll vegna ofskömmtunar í Bandaríkjunum hafa aukist um 30% á milli ára og sér enn ekki fyrir endann á þeirri þróun. Ungt fólk á aldrinum 25-55 ára deyr í blóma lífsins og skilur eftir sig fjölskyldur og börn. Afleiddur vandi er mikill og dýr fyrir samfélagið allt.

Hér á Íslandi sjáum við líka vaxandi vanda vegna notkunar á ópíóíðum og nú reynast um 25% þeirra sem leggjast inn á Vog hafa notað ópíóíða. Hluti þeirra (10%) er með alvarlega fíkn og sprauta þessum morfínskyldu lyfjum í æð, sem auk þess að hafa í för með sér aukna hættu á ofskömmtun og dauða hefur líka aukna áhættu á að smitast af HIV eða lifrarbólgu C.

Mynd/Fréttablaðið

Á sjúkrahúsinu Vogi hefur frá 1999 verið veitt gagnreynd lyfjameðferð við ópíóíðafíkn (LOF) með buprenorphine og methadone. Hún fækkar dauðsföllum, minnkar skaða og leiðir til bata vegna alvarlegrar fíknar.

Dauðsföll vegna ofskömmtunar hafa blessunarlega ekki aukist í sama hlutfalli við aukningu á neyslu á Íslandi og í Bandaríkjunum.

SÁÁ hefur tryggt gott aðgengi að LOF og áframhaldandi þjónustu og stuðningi við vímuefnanotendur, þrátt fyrir áhrif yfirstandandi Covid-faraldurs. Samkvæmt Dánarmeinaskrá Embættis landlæknis hafa frá 2015 verið skráð á bilinu 4-13 dauðsföll á ári vegna eitrunar af ópíumefnum en síðasta ár voru 8 dauðsföll og stóð í stað milli ára. Á sama tíma jókst hlutfall sjúklinga sem nota ópíóíða og leggjast inn á Vog um 34%.

Önnur skaðaminnkandi áhrif lyfjameðferðar við ópíóíðafíkn má sjá í tölum um algengi smitsjúkdóma sem smitast á milli einstaklinga í virkri vímuefnaneyslu um æð.

Mynd/Fréttablaðið

Á sjúkrahúsinu Vogi hefur farið fram skimun og meðferð við lifrarbólgu C í samstarfi við Landspítala. Einstaklingar sem fá lyfjameðferð við ópíóíðafíkn ná betri árangri í meðferð við lifrarbólgu C og hefur algengi lifrarbólgu C meðal einstaklinga sem hafa sögu um vímuefnaneyslu í æð, lækkað um 75% , árangur sem vakið hefur heimsathygli.

Þrátt fyrir vitneskju um þörf og augljósan árangur af lyfjameðferð við ópíóíðafíkn hefur framlag ríkisins til þessarar lífsbjargandi meðferðar staðið í stað síðan 2014. Einungis eru greiddar 25 milljónir króna á ári fyrir þessa þjónustu samkvæmt núgildandi samningum.

SÁÁ hefur brúað bilið með sjálfsaflafé og þannig tryggt lífsnauðsynlega þjónustu fyrir sívaxandi hóp, en ljóst er að heilbrigðisyfirvöld þurfa að stíga inn með afgerandi hætti og leggja til meira fjármagn í samningum við SÁÁ. Þetta er dauðans alvara.

Mynd/Fréttablaðið