Ég er ekki faraldsfræðingur og hef heldur engar lausnir varðandi efnahagsleg áhrif veirunnar. Tilefni þessara skrifa er að í umræðu síðustu daga um aðgerðir á landamærum Íslands vegna COVID-19 kom fram að lífið gangi nú að mestu sinn vanagang í Boston á austurströnd Bandaríkjanna. Ég hef enga reynslu af því að búa í Boston en ég hef reynslu af því að búa í annarri borg á austurströnd Bandaríkjanna á tímum COVID-19, sem valdið hefur dauða tæplega 200.000 Bandaríkjamanna.

Ég og fjölskylda mín búum í Silver Spring í Montgomery-sýslu í Maryland, sem er í næsta nágrenni við Washington DC. Hér hefur margt verið gert til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19. Almennir skólar hafa verið lokaðir frá því 16. mars og verða lokaðir áfram a.m.k. þar til í janúar 2021. Þetta er gríðarleg frelsisskerðing fyrir börnin og hefur áhrif á möguleika margra foreldra til að stunda vinnu. Það er ekki í boði að borða inni á veitingastöðum. Kvikmyndahús, bingó og önnur afþreying innanhúss er lokuð en líkamsræktarstöðvar geta nú hleypt inn takmörkuðum fjölda gesta – 1 á hverja 20 fermetra og eru þeir þá með grímur við æfingar. Það er reyndar ólöglegt að vera án grímu utan heimilisins nema utandyra þar sem hægt er að halda 2 metra fjarlægð við annað fólk eða þegar því er ekki viðkomið innanhúss eins og hjá tannlækni.

Við hjónin vorum heima mánuðum saman en fáum nú takmarkaðan tíma á vinnustaðnum til að sinna tilraunavinnu og skiptumst þá á við annað starfsfólk. Skrifstofufólk á okkar vinnustöðum hefur unnið heima frá því um miðjan mars og svo verður áfram ótímabundið. Við munum seint kalla þetta vanagang á lífinu.

Montgomery-sýsla telur rétt rúmlega 1 milljón íbúa, sem sé tæplega 3 sinnum íbúafjöldi Íslands. Alls eru 20.766 staðfest tilfelli af COVID-19 í sýslunni frá 17. mars og af þeim hafa 789 manns látist (3,8%). Fólk sem var einhverjum kært. 12,6% jákvæðra hafa verið 70 ára og eldri og í þeim hópi er dánarhlutfallið 22,4%. Aðgerðirnar hafa klárlega skilað árangri en þrátt fyrir alla þessa röskun á daglegu lífi er meðaltal smita fyrir júlí og ágúst, eftir að náðist að fletja hæsta kúfinn, um 81 smit á dag. Dánarhlutfallið er lægra en í vor en það er samt sem áður 1,7%. Það þýðir að við höfum enn ekki náð að klára fyrstu bylgju faraldursins. Nýjustu tölur sýna að í gær greindust 140 ný tilfelli í sýslunni (myndi samsvara 48 miðað við höfðatölu á Íslandi), 62 eru á spítala vegna sjúkdómsins þar af 19 á gjörgæslu og 2 létust. Allan þennan tíma, í 26 vikur samfleytt, hafa nýgreind tilfelli aðeins 4 sinnum verið færri en 50 á sólarhring. Það mun svo koma í ljós hvað gerist ef slakað verður á sóttvörnum of snemma.

Árangur af tvöföldu skimuninni á landamærum Íslands er ótvíræður. Það er ljóst að Montgomery-sýsla er ekki eyja og það gengur ekki að láta alla sem koma inn í sýsluna fara í próf, í sóttkví í 5 daga og fara svo aftur í próf. Það er ekkert annað í boði en að íbúar sýslunnar fari áfram eftir þessum stífu reglum og það gengur misvel. Einstaklingar í áhættuhópum lokast æ meira af eftir því sem fleiri haga sér eins og faraldurinn sé yfirstaðinn. Sumir kjósa sem sé að vera partur af vandanum en ekki lausninni. Snör og vel ígrunduð viðbrögð íslenskra sérfræðinga og yfirvalda og það frelsi sem aðgerðirnar á landamærunum hafa leitt til, standa okkur ekki til boða. Leiðið kannski hugann til okkar í Montgomery-sýslu ef þið getið farið á tónleika (eða getið haldið tónleika), næst þegar þið setjist inn á veitingastað, eða það sem mikilvægast er, næst þegar barnið ykkar kemst í skólann og þið farið til vinnu. Mynduð þið vilja skipta?