Á laugardaginn átti ég stórkostlegan dag með flestum af mínum nánustu konum þegar ég var gæsuð.

Dagurinn var eftirminnilegur og uppfullur af skemmtun þar sem hver uppákoman tók við af annarri. Heill dagur sem snerist um að njóta lífsins með mörgum af þeim sem mér þykir vænst um.

Gæsunin var góð áminning um að lífið er núna! Það er enginn dagur betri til að vera á lífi en einmitt dagurinn í dag. Lífið sjálft er hálfgerð óvissuferð. Það er okkar val að velja gleðina. Við höfðum ekki stjórn á því að fæðast í þennan heim og vitum ekki hvernig ferðalaginu er háttað eða hversu lengi það varir.

Við höfum hins vegar val á hverju einasta augnabliki um hvernig við tökum lífinu og hvernig við tökumst á við það sem það færir okkur. Stundum einskæra gleði en stundum erfiðleika og áskoranir.

Lífið mótar okkur frá fyrsta degi eins og leirklump eða flókna tölvu en sem betur fer er oft hægt að staldra við og uppfæra stýriforrit sem eru úr sér gengin og eiga ekki lengur við. Fortíðin er liðin, framtíðin ókomin en við eigum þennan dag í dag fullan af lífi, tækifærum til gleði og þakklæti.

Um daginn fékk ég fallegt armband að gjöf frá tvíburasystur minni sem minnir einmitt á að lífið er núna. Kraftur – stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein, selur þessi armbönd og hvet ég alla til að fá sér armband og lifa eftir þessari lífsáminningu. Takk, elsku konur, sem glödduð gæsina á laugardaginn.