Fullyrðingin kemur fæstum sem nota samfélagsmiðla á óvart. Engu að síður var málið stórfrétt í vikunni: Instagram veldur óhamingju.

Leynilegri rannsókn Facebook, eiganda Instagram, á áhrifum samfélagsmiðilsins á notendur var nýverið lekið til fjölmiðla. Niðurstöðurnar sýndu svo ekki var um villst að notkun miðilsins olli fólki skaða, sér í lagi unglingsstúlkum.

Upphófst leit að ástæðunni: Filterar, Phótósjopp, FOMO, varafyllingar, neysluhyggja. Svo kann hins vegar að vera að orsakar óhamingjunnar sé þvert á móti að leita á hversdagslegri slóðum hinna filters-lausu raunheima.

Hinir sætu og sólbrúnu

Árið 1984 stofnuðu vinirnir Adrian Fewings og Martin Poulter fyrirtæki sem selur jarðefni til lóðagerðar. Í fyrstu var fyrirtækið rekið úr verkfæraskúr föður Martins. Velgengnin knúði hins vegar dyra og fyrirtækið flutti úr garðskúrnum í atvinnuhúsnæði í þorpinu Youlgreave í Englandi. Næstu þrjátíu og fimm ár seldu félagarnir varning sinn ánægðum viðskiptavinum.

Árið 2018 átti sér stað atburður sem olli afrakstri áratuga eljusemi ómældum skaða. Adrian var veitt heiðursorða breska heimsveldisins.

Martin var ekki ánægður. Honum fannst Adrian ekki eiga skilið orðuna, fálkaorðu þeirra Breta. Martin krafðist þess að Adrian skilaði orðunni ellegar hefði hann samband við skattayfirvöld og greindi þeim frá peningum sem þeir starfsfélagarnir höfðu fengið greitt undir borðið. Adrian hrökklaðist úr stöðu sinni við fyrirtækið.

Rifrildi mannanna rataði á borð hæstaréttar Bretlands í vikunni. Komst dómari að þeirri niðurstöðu að Adrian hefði verið bolað ólöglega út úr fyrirtækinu með fjárkúgun og hótun um mannorðsmorð. Martin var gert að greiða Adrian rúm 20 milljón pund fyrir hlut sinn í fyrirtækinu.

Við fyrstu sýn virðist frétt um ósætti tveggja 63 ára sölumanna iðnaðarvarnings eiga lítið skylt við frétt um þjáðar unglingsstúlkur á Instagram. Ný bók sýnir hins vegar að málin eiga sér sömu rætur.

Í bókinni The Status Game færir breski blaðamaðurinn Will Storr rök fyrir því að það sé óþrjótandi þörf okkar fyrir metorð sem stýri allri mannlegri hegðun. Mannkynið lifði af með því að vinna saman í hópum. Þeir einstaklingar sem tókst „að ávinna sér virðingu hópsins“ nutu mestrar velgengni. Þeir lifðu lengur „því metorðum fylgir meiri matur, stærri landsvæði og betri heilsa.“

Samkvæmt Storr er lífið kappleikur. Við veljum okkur deild til að spila í (pólitík, viðskipti, íþróttir, listir, samfélagsmiðla) og berjumst um virðingu innan hópsins sem mæld er í peningum, verðlaunum eða lækum á Facebook. Að auki keppum við með hópnum okkar við aðra hópa (um málstað, trúarbrögð, samsæriskenningar) og ef liðið okkar vinnur eykst virðing okkar; ef það tapar minnkar hún.

Þannig er staða okkar afstæð. Fáum dytti í hug að bera sig saman við Bill Gates eða Englandsdrottningu. Við berum okkur saman við hópinn okkar; jafnaldra, nágranna, vini, kollega.

Adrian Fewings fékk orðu. Við það varð Martin vinur hans ekki af nokkrum áþreifanlegum lífsgæðum. En tap hans hefði ekki getað verið meira. Þegar Adrian tók fram úr honum í virðingu veiktist staða Martins innan hópsins. Samkvæmt Storr veldur fátt meiri sálfræðilegum skaða en að færast niður metorðastigann. Könnun sýndi að 70% Bandaríkjamanna myndu heldur láta taka af sér annan handlegginn en húðflúra hakakross á ennið á sér.

Instagram sýnir okkur hina ríku, grönnu, sólbrúnu og sætu í sjúklega miklu stuði. Þegar við opnum Instagram og aðra samfélagsmiðla færumst við niður metorðastigann með einum smelli. Gott er að hafa það hugfast næst þegar við teygjum okkur í snjallsímann.