Ég heiti Kristín Auðbjörns og er stofnandi síðunnar Lífið og líðan á Instagram.

Upphaflega byrjaði þessi vakning í veikindaleyfinu mínu, þegar ég lá fyrir örmagna í líkamanum en gat ekki sofið. Þetta er semsagt vakning um andlega og líkamlega líðan. Hvernig það hefur áhrif á okkur og okkar daglega líf, allt frá baráttum og bjargráðum til bata.

Ég hef frá unglingsaldri verið að kljást við andleg veikindi og mikla þreytu - sem hefur tekið mörg mörg ár að fá rétt nafn á.

Þó vitundarvakningin sé almennt orðin meiri í samfélaginu, fannst mér vanta fastan stað fyrir almenna umræðu tengt þessu öllu. Þar sem vangaveltur, frásagnir og fræðsla um hin ýmsu málefni væru fjölbreyttari - heyra frá fólki, geta speglað sig og vita að þú ert ekki ein/einn/eitt.

Að skilja rót vandans skiptir líka bara svo miklu máli. Ég hef líka sjálf lært mikið af þessu, t.d. að fylgni er á milli ómeðhöndlaðs ADHD og vefjagigtar, meðalgreiningartími fyrir geðhvörf II eru plús mínus 10 ár og að taugakerfið spilar stórt hlutverk þegar kemur að allskyns ósýnilegum kvillum.

Við erum komin með yfir 100 reynslusögur nú þegar undir myllumerkinu #lífiðoglíðan. Langar að nýta tækifærið og vitna aðeins upp úr þessum frásögnum, til að vekja enn frekari athygli á þessu öllu. Líðan er bara svo mikilvægur partur af lífinu.

 • ,,Eftir ár af starfsendurhæfingu var ég metin óvinnufær með öllu. Lífið snýst núna mikið um að halda áreiti í lágmarki og velja verkefnin vel. Legg mig 1-3x á dag vegna síþreytu og á erfitt með að gefa af mér og sinna fjölskyldunni.”
 • ,,Mér gekk mjög vel í náminu, enda með mikla fullkomnunaráráttu og hoppaði um bekk þess vegna. 10. bekkur gerði útaf við mig og ég byrjaði að fá flogaköst (talin vera útaf kvíða) í hálft ár á eftir.”
 • ,,Ég greindist fyrst með ADHD þegar ég var á milli 13-14 ára gömul. Hafði alltaf verið með mikinn kvíða og verið mikill ofhugsari. Ég fékk lyf sem virkuðu glimrandi vel en vegna fordóma manneskju sem var nákomin mér, sem vildi ekki að ég væri á lyfjum, hætti ég á þeim.”
 • ,,Seinna sama ár lendi ég í stóru áfalli og taugaáfalli upp úr því, sem ég áttaði mig samt ekki á. Þarna urðu kvíðaköstin verri og stærri og andlega hliðin í rúst.”
 • ,,Ég hef verið með slitgigt síðan ég var 20 ára gömul en ég lendi svo í veikindum vegna læknamistaka þegar ég fékk gallsteinakast 32 ára.”
 • ,,Ég hágrét í bílnum. Loksins eitthvað annað en að ég væri bara of feit.”
 • ,,Á mínum 37 árum hef ég grátið meira en brosið og hlegið.”
 • ,,Fór aftur til læknis og ekkert að - “bara”vefjagigtin. Þar sem þetta stendur ekki utaná manni finnst manni þetta ekki vera nógu alvarlegt. Mér líður eins og fólk hugsi að þetta sé bara í hausnum á mér…”
 • ,,Ég er 59 ára gamall og langar að deila sögu minni nafnlaust, bæði vegna fordómanna og þess að þeir sem ekki skilja svona líðan líta stundum á þetta sem væl.”
 • ,,Það var mikið drukkið á heimilinu og þar upplifði ég hluti sem barn á ekki að þurfa að upplifa.”
 • ,,Ég fékk ADHD greininguna ekki fyrr en ég er orðinn 33 ára og pabbi 70. Fram að því töldum við okkur fyrst og fremst glíma við þunglyndi.”
 • ,,Það tók okkur 3 ár að eignast barn og meðgangan var skelfileg. Fæðingin var líka erfið og það þurfti að hnoða drenginn í gang.”
 • ,,Ég á fleiri betri daga andlega eftir að ég greindist því nú get ég lært á sjúkdóminn og sjálfa mig. Sett mér mörk og sýnt mér mildi.”
 • ,,Eftir að ég klára dagdeildarmeðferð fyrir fólk með átröskun á Hvítabandinu er ákveðið að sækja um fyrir mig á endurhæfingadeild á Klepp.”
 • ,,Blóðprufur komu vel út þannig að læknirinn yppti bara öxlum…”
 • ,,Ég greinist með millirifjagigt 14 ára, vefjagigt 18 ára og hrygggigt 26 ára.”
 • ,,Kvöldvaktir hentuðu mér best því ég vissi aldrei hvernig ég var þegar ég vaknaði - þurfti að ganga mig til.”
 • ,,Ég er þunglynd, síþreytt og áhugalaus þó ég hafi það ótrúlega gott. Á þrjú börn og bý í drauma húsinu.”
 • ,,Eftir nokkra daga svona, ósjálfbjarga í rúminu og nokkrar heimsóknir vaktlæknis heim, var ég lögð inn á sjúkrahús til að útiloka heilablóðfall.”
 • ,,Ég er enn oft að berjast við sjálfa mig í megrunarmenningunni og gömul hegðunarmynstur garga oft að ég þurfi bara að svelta mig og þá verði allt miklu betra.”
 • ,,Ofsakvíðaköst hef ég fengið og þau koma oftar þegar ég er undir álagi.”
 • ,,Fyrst fannst mér sagan mín ekki nógu merkileg en eftir að hafa skrifað hana niður sé ég að það er bara ekki rétt. Auk þess eru allar sögur merkilegar.”
 • ,,Gríman var orðin svo inngróin að ég áttaði mig ekki einu sinni á því lengur að þetta væri gríma.”
 • ,,5 ár af þeim vorum við í Miðjarðarhafinu að bjarga flóttafólki og ég fékk PTSD upp úr því.”
 • ,,Eins sárt og það var að missa mömmu sína svona skyndilega og síðar eina fólkið sem stóð við bakið á þér, var það algjörlega óbærilegt að vera hent aftur inn í daglegt líf þar sem enginn skildi hvað þú varst að ganga í gegnum.”
 • ,,Í rúm fimm ár burðaðist ég með þetta á bakinu, var farinn að drekka og deyfa mig því hvergi fann ég frið í höfðinu á mér nema deyfður.”
 • ,,Sumarið 2010 var ég komin uppá bryggjukant og ætlaði að stökkva þegar vinkona mín kom óvænt og kallaði á mig.”
 • ,,Lokaorð: Það má finna til, það má líða allskonar og þú þarft ekki að vera ofurkona/maður.”
 • ,,Við bjuggum fyrir austan en fluttum norður til að geta verið nær þjónustu sem var við hæfi fyrir dóttur okkar.”
 • ,,Er slæm og stundum verri en hef lítinn annan kost en að díla bara við það. Engin lyf virðast virka vel á verkina.”
 • ,,Árið 2017 fór ég að veikjast mun meira, var orðin örmagna alla daga, mjög verkjuð, óglatt og kastaði orðið upp nánast daglega - stundum oft á dag.”
 • ,,Ég var alla tíð mjög þreytt og þoldi illa áreiti í skóla og lífinu.”
 • ,,Eftir mikla andlega vinnu verð ég aftur ófrísk og fæðingin var í einu orði sagt hræðileg.”
 • ,,Vá hvað lífið getur verið ósanngjarnt en upp upp með hausinn og áfram gakk eða virkar þetta ekki þannig?”
 • ,,Það sem ég hef lært af þessari reynslu er að ég má vera eins og ég er. Ég hef rétt á því að hafa mínar skrítnu og öðruvísi skoðanir.”
 • ,,Í enda ársins 2020 fæ ég svo vinabeiðni frá manninum sem misnotaði mig. Tilfinningarnar flæddu yfir mig að nýju og líkaminn brást mér gjörsamlega, annað eins hef ég ekki upplifað.”
 • ,,24. júní jörðuðum við síðan fullkomna drenginn okkar.”
 • ,,Í dag er ég 64 ára og hefur líf mitt alltaf einkennst af stoðkerfisverkjum og kvíða.”
 • ,,Ég fór þrisvar sinnum á bráðamóttökuna því ég hélt að ég væri að fá hjartaáfall - ekkert óeðlilegt kom út.”
 • ,,Ég var svo ákveðin í því að nú ætlaði ég að byrja nýtt líf með jákvæðni og bjartsýni en því miður voru ekki allir sáttir við ráðningu mannsins míns og sýndu mér það óspart.”
 • ,,Það var nánast ógerlegt fyrir mig að mæta í skólann og ég fór varla út úr húsi í 2 ár.”
 • ,,Mögulega þessvegna sit ég uppi með fullt af sjúkdómum sem sjást hvorki utan á mér né í rannsóknum.”
 • ,,Þróaði með mér sjúklega meðvirkni og höfnunarótta.”
 • ,,Síðan þá hefur vinnan verið virkilega krefjandi - og nú er ég líka greind með geðhvörf og þráhyggjuröskun.”
 • ,,Ég fór að finna fyrir vanlíðan um 8 ára aldur. Ég leitaði mikið í tónlist til að róa hugann og svo síðar áfengi.”
 • ,,Það fer bara eftir dögum en á heildina litið þá líður mér ekki nógu vel. Píeta samtökin hafa aftur á móti hjálpað mér mikið hvað það varðar og er ég þeim þakklátur fyrir það.”
 • ,,Ég er hjá 2 þýskum endómetríósu skurðlæknum í dag sem hafa bjargað lífi mínu. Ég fór í legnám hjá þeim í fyrra sumar sem mér var neitað um á Íslandi.”
 • ,,Ég hef þann kost að geta hyperfókusað, það hefur verið minn styrkleiki þegar ég nota það rétt.”
 • ,,Ég var ranglega greind með jaðarpersónuleikaröskun.”
 • ,,Ég er í endurhæfingu eftir að risastórt æxli var fjarlægt úr bakinu á mér, ásamt parti af hryggnum sjálfum.”
 • ,,Þarna var nú ekkert verið að velta því fyrir sér hvort menn væru með einhverjar greiningar. Þessi hegðun var oftar en ekki bara tengd við óþekkt.”
 • ,,Ég lamaðist vinstra megin í andliti og líkama.”
 • ,,Ég var fyrir kynferðisofbendi tvisvar sinnum á unglingsaldri. Ég var atvinnudansari og góður í því.”
 • ,,9 ára var ég komin með sjálfsvígshugsanir.”
 • ,,Það er mikið litið niður á vefjagigt og hún er illa skilin meðal fólks og jafnvel lækna. Bara það að vera stimplaður með þetta myndi minnka framtíðar möguleika mína atvinnulega séð helling.”
 • ,,Ég hef helst lært af þessari reynslu að allir eru að díla við ákveðna hluti, en að þú getur fengið stuðning ef þú sækist eftir því.”
 • ,,Yngsta barnið var mjög veikt nokkra mánaða og ég var með það á spítala þegar skilnaður var yfirvofandi. Maðurinn minn var mjög erfiður og algjörlega skilningslaus.“
 • ,,Mikil sorg og reiði sótti á mig og ég gat ekki fengið svar við því af hverju ég hafði fengið það verkefni að fæða fatlaðan son minn í heiminn og svo var hann tekinn frá mér.”
 • ,,Bjargráðin mín eru svo bara að muna að hlúa að sjálfum mér, sýna mér skilning og vera opin. Ekki hika við að leita þér aðstoðar.”
 • ,,Þegar ég var 13 ára var mér nauðgað af 18 ára stelpu.”
 • Hvernig svarar maður svona spurningum? “Mamma hvað er að afa?”, “Afhverju líður honum svona illa?“, “Hvað getum við gert gert?” Þann 6 júní 2016 tók pabbi minn sitt eigið líf.
 • ,,Mín helstu einkenni eru sjálfsmyndartruflanir og lágt sjálfsálit.
 • ,,Reynslan sem ég hef lært í gegnum þetta ferli er að hlusta alltaf á líkamann sinn og ekki gera lítið úr hugsunum sínum!”
 • ,,Ég var erfiður unglingur, mikil þrjóska og reiði innra með mér.”
 • ,,Þegar ég kom þangað var ég með uppblásna fingur og þrefalda þind. Hún var þreföld vegna vatns inná henni og gollurhúsi hjartans.”
 • ,,Ég átti frekar erfiða æsku og var lögð í gróft einelti í grunnskóla.”
 • ,,Sem barn var ég hraust og sterk en ég fór að finna fyrir einkennum þegar ég var 10-13 ára.”
 • ,,Fyrsta myndin er tekin í desember 2019, ég er á dimmum, ljótum stað í lífinu og vildi helst bara að jörðin gleypti mig.”
 • ,,Mig grunaði aldrei að ég gæti verið með ADHD, þar sem ég er skipulögð og hef enga þörf fyrir að hlaupa upp um öll fjöll.”
 • ,,Þessir verkir trufla mitt daglega líf mikið og hafa reynt mjög mikið á sálina.”
 • ,,Sama ár greindist ég með Lupus eftir ítrekuð hjartastopp og langvarandi óútskýrt veikindi.”
 • ,,Það var svo þegar ég er 21 árs að ég var alltaf þreytt og slöpp, sofnaði oft í vinnunni og oftast eftir vinnu líka.
 • ,,Ég var og er ennþá mjög feimin og líður ekki vel í margmenni.”
 • ,,Ég var alltaf mjög rólegt barn, gerði aldrei kröfur og aldrei með neitt "vesen". Þegar ég var milli 9 og 10 ára varð ég hinsvegar fyrir misnotkun af kennara.”
 • ,,Ég hef verið undir miklu álagi síðustu ár bæði vegna minna veikinda og maka míns og það hefur tekið sinn toll.”
 • ,,En í kringum tíðarhringinn dett ég niður á dimma staði og það eru ca. 7-10 dagar þar til fer að birta aftur.”
 • ,,Sem útskýrði heldur betur upplifun mína af samfélaginu síðan ég var barn. Afhverju ég sá hlutina öðruvísi en önnur, afhverju ég lokaði mig af, afhverju ég brotnaði niður eftir búðarferðir eða samkomur o.s.frv.”
 • ,,Ég sem var svo opin. Úr því að vera alltaf í fjörinu yfir í að vilja bara vera ein. Að elta upp tónlistina en vilja svo bara vera í þögninni.”
 • ,,Ég trúi því að ég hafi fæðst með ákveðna tendensa fyrir geðrænum áskorunum.”
 • ,,Hef alltaf verið mjög skipulögð og eiginlega um of þar sem ég er alltaf með trilljón bolta á lofti í einu.”
 • ,,Hann taldi mig vera með geðhvörf 1, vegna þess að ég var oftast ör og hástemmd og fór reglulega í geðrof þar sem ég vissi hreinlega ekki hvað var raunverulegt og hvað ekki.”
 • ,,Ég var mikið ein og því einmanna.”
 • ,,Það var svo vont að geta ekki sofið. Það var svo vont að gráta alla morgna því mér leið svo illa. Það var svo vont að geta ekki farið á körfuboltaæfingu.”
 • ,,Það var ansi mikið bjargreipi fyrir dömu sem hafði allt sitt líf barist með kjafti og klóm við hausinn á sér, sem sagði henni í sífellu að hún væri bara glötuð týpa og vonlaus manneskja.”
 • ,,Ég áttaði mig ekki á því að það væri eitthvað að fyrr en það var gengið alltof langt, sama þótt fjölskyldan mín væri farin að hafa áhyggjur.”
 • ,,Sú uppgvötum kom mér virkilega á óvart því að ég hafði ekki minnstu hugmynd um ég gæti verið þundlyndur.”
 • ,,Óöryggið í kringum þyngdina mína byrjaði síðan í kringum 9 ár aldurinn og hefur fylgt mér alla tíð.”
 • ,,Það hjálpar að tala um það hvernig manni líður, því maður er ekki einn og það er virkilega gott að upplifa sig ekki eina/einn/eitt.”
 • ,,Ég hleyp mikið og nýti hlaupin og hreyfinguna sem einskonar lyf. Ég kalla það hreyfilyf.”
 • ,,Ég tel að eineltið hafi haft þessar afleiðingar. Að þurfa að berjast fyrir tilverurétt sínum alla daga.”
 • ,,Mér líður skringilega. Eins og staðan er í dag á ég erfitt með að skilgreina tilfinningarnar mínar.”
 • ,,Ég var alltaf duglegur og peppaður en var svo bara sultumanískur.”
 • ,,Ég átti nú nýlega 1 árs ADHD-lyfja afmæli og ég get ekki líst þessu öðruvísi en að lífið hafi farið úr svarthvítu í lit.”
 • ,,Ég er þessi starfsmaður sem allir tala við en er samt aldrei boðið með þegar einhverjir nokkrir hittast saman utan vinnu. Ég tek samt alveg eftir því að annað starfsfólk sem hefur byrjað að vinna á eftir mér er boðið.”

Lífið er allskonar, líðan er allskonar, við erum allskonar.