Í vikunni steig ég inn í fataverslun í fyrsta sinn í heilt ár. Ég hafði lengi séð andartakið fyrir mér; litskrúðugar spjarir eins og regnbogi möguleikanna á glampandi slám, brosandi starfsfólk með ævintýralega hvítar tennur, tónlist sem fékk hjartað til að dilla sér, lykt af ilmvatni og fersku pólýester, viðskiptavinir á harðaspretti milli rekkanna eins og kýr sem hleypt er út að vori.

Í lok mars 2020 var öllum verslunum hér í Bretlandi, þar sem ég bý, skellt í lás að undanskildum þeim sem seldu nauðsynjar á borð við mat og lyf. Vegna kórónaveirunnar hafa þær verið meira og minna lokaðar síðan. Í vikunni var varfærið skref stigið í átt að enduropnun bresks samfélags. Frelsið leit hins vegar öðruvísi út en ég hafði ímyndað mér. Á hillum verslana lá rykfallinn lager síðasta árs á afslætti. Starfsfólk með grímur bauð góðan daginn af manískri gleði í nöturlegri mótsögn við skelkað augnaráðið eins og fórnarlömb gíslatöku. Loftið angaði af sótthreinsandi. Viðskiptavinir merktu sér sína tvo metra og hvæstu á þá sem virtu ekki svæðið þeirra.

Að bana fiðrildi

Hver er tilgangur lífsins? Samkvæmt rithöfundinum Douglas Adams sem skrifaði hina sívinsælu skáldsögu „The Hitchhiker’s Guide to the Galaxy“ er það 42. Adams, sem lést fyrir aldur fram árið 2001, var einn hugmyndaríkasti rithöfundur Breta. En þrátt fyrir það þótti honum ritstörfin oft þjáningarfull. Á minnismiða sem fannst í fórum Adams brýndi hann fyrir sjálfum sér að þótt ferlið væri kvöl fengi hann jú stundum ánægju út úr baslinu: „Það að skrifa þarf ekki að vera svo slæmt ... Maður þarf bara að gleyma áhyggjunum, þjösnast áfram og ekki fara hjá sér yfir því slaka.“

Mörg bíðum við þess með eftirvæntingu að hlutirnir færist aftur í fyrra horf eftir kóvid. En ekki öll. Könnun sýnir að 16% Breta kunnu vel við sig í lokuðu samfélaginu. Margir kvíða því að þurfa að stíga aftur út í lífið.

Douglas Adams er ekki eini rithöfundurinn sem taldi iðn sína kvalafulla. Bandaríski rithöfundurinn Ann Patchett skrifaði í æviminningum sínum að hamingjuríkasti tími lífs hennar sem rithöfundur væri hugmyndastigið. Á því stigi er bókin sem velkist um í huganum „stórkostlegasta skáldsaga bókmenntasögunnar,“ skrifar hún. „Það eina sem eftir er að gera er að koma henni niður á blað svo að allir megi sjá fegurðina sem ég sé.“

En það er þá sem babb kemur í bátinn: „Ég teygi upp handlegginn og gríp fiðrildið þar sem það flýgur um. Ég tek það úr höfðinu, þrýsti því niður á skrifborðið mitt, krem það með lófanum og bana því. Auðvitað langar mig ekki til að bana því. En þetta er eina leiðin til að koma einhverju svo þrívíðu á flata blaðsíðu. ... Þetta er eins og að keyra yfir fiðrildi á jeppa. Öll fegurðin sem bjó í þessari lifandi veru – litirnir, ljósið, hreyfingin – er farin. Aðeins þurr skel vinar stendur eftir, afskræmdur líkami, rifinn og tættur sem ég púsla saman – illa.“

Við lifum nú öll á hugmyndastiginu. Við dveljum í möguleikanum, biðsal milli þess sem var og þess sem koma skal. Rétt eins og þegar kemur að skáldskap er ólíklegt að draumurinn um komandi ævintýri líkist því sem blómstrar í hugum okkar.

Ann Patchett segist ekki enn hafa lært að koma fiðrildinu á blað án þess að finnast hún hafa banað því. „Ég hef hins vegar lært að standa dauðsfallið af mér og fyrirgefa sjálfri mér.“ Orð Ann eru handhægt veganesti til vegferðarinnar sem bíður, ferðalags sem – eins og verslunarleiðangurinn minn – mun vafalítið verða uppfullt af vonbrigðum og vandræðalegum augnablikum. Er þá gott að hafa hugfasta áminningu Douglas Adams um að „ekki fara hjá sér yfir því slaka“ og „þjösnast einfaldlega áfram“. Því aðeins þannig römbum við á eitt og eitt andartak af hamingju.