Guðni forseti. Alma landlæknir. Kári Stefánsson. Þau hafa verið mörg „Kódak mómentin“ í Laugardalshöll undanfarnar vikur þar sem myndum er smellt af þjóðþekktum einstaklingum í bólusetningu gegn Covid-19

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þakkaði nýverið „græðgi“ fyrir tilvist bóluefnanna. Borubrattur lýsti Johnson því yfir að þau hefðu orðið til vegna þess að „stórfyrirtæki vildu tryggja hluthöfum sínum myndarlegar arðgreiðslur.“

Fljótt á litið virðist Boris hafa rétt fyrir sér. Við nánari athugun blasir hins vegar önnur mynd við.

Tveggja milljarða tekjutap

Í síðasta mánuði voru samþykkt lög á Alþingi um almannaheillasamtök. Gjafir til líknarmála má nú í auknum mæli nota til skattfrádráttar. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði margs konar þjónustu eiga betur heima hjá „þriðja geiranum“ en hinu opinbera og hann vill að „sem flestir séu meðvitaðir um“ að nú sé hægt að „styrkja góð málefni og minnka skattgreiðslurnar um leið“.

Árið 2000 unnu alþjóðlegu góðgerðarsamtökin PlayPump „uppbyggingarverðlaun“ Alþjóðabankans fyrir að setja upp vatnsdælur í þorpum í Afríku. Dælurnar voru þó engar venjulegar dælur. Um var að ræða hringekjur fyrir börn sem dældu vatni upp úr brunnum í nærliggjandi vatnstank þegar þeim var snúið. Myndir af brosandi krökkum í hringekjum að leysa vatnsskortinn í þorpinu sínu fóru sem eldur um sinu. Mektarfólk og stórstjörnur kepptust við að leggja samtökunum lið – George og Laura Bush, rapparinn Jay-Z – og styrkirnir flæddu inn.

Þeir flæddu þó hraðar en vatnið sem pumpurnar dældu. Við athugun kom í ljós að dælurnar voru sex sinnum afkastaminni en hefðbundnar handdælur. Þegar Owen Scott, kanadískur verkfræðingur, fór til Afríku til að gera úttekt á dælunum sá hann engin börn, aðeins uppgefnar þorpskonur snúa leiktækjum löngum stundum. En hvers vegna höfðu svona margir fallið fyrir hringekjunum?

Owen Scott sagði ástæðuna „Kódak mómentið“. „Um leið og útlendingur með myndavél birtist við hringekjuna … urðu krakkarnir spenntir. Og þegar krakkar eru spenntir fara þeir að leika sér.“

Talið er að breytingar á lögum um almannaheillasamtök hér á landi hafi neikvæð áhrif á skatttekjur ríkissjóðs sem nemur tveimur milljörðum króna á ári. „Ég held að þessu tekjutapi ríkissjóðs sé mjög vel varið …“ sagði Bjarni Benediktsson í viðtali.

En er það víst?

Boris Johnson þakkar „stóru lyfjafyrirtækjunum“ og „kapítalismanum“ fyrir að hafa orðið mannkyninu til bjargar. Jafnkampakátur segist Bjarni Benediktsson hafa „mikla trú á einkaframtakinu“. En hætt er við að þeir Bjarni og Boris sjái aðeins „Kódak mómentið“.

Þó að á bólusetninga-ljósmyndum í fjölmiðlum blasi við fólki með einkaframtakið í handleggnum hvílir það framtak á herðum heilu kynslóðanna af skattgreiðendum. Á sama tíma og menn þakka Pfizer, Moderna og AstraZeneca lífgjöfina bendir hagfræðingurinn Mariana Mazzucato á að allar helstu tækni- og vísindaframfarir síðustu áratuga – Google, iPhone-inn, framfarir í læknis- og lyfjafræði – byggja á afrakstri rannsókna sem fjármagnaðar hafa verið með skattfé. Athugun leiðir í ljós að 97% af kostnaði við þróun bóluefnis AstraZeneca kom úr vösum almennings.

Gjafir til almannaheillasamtaka endurspegla áhugasvið og reynsluheim þess sem gefur, ekki hvar þörfin er mest. Í Bandaríkjunum enda aðeins 12% styrkja til góðgerðarmála hjá samtökum sem vinna að því að bæta kjör fólks; meirihlutinn fer til lista- og menntastofnana. Lýðræðislega kjörin stjórnvöld þurfa hins vegar að rökstyðja áherslur sínar og tryggja samfélagslega gagnsemi fjárútláta.

Það er ekkert að því að fólk láti fé af hendi rakna til „Kódak mómenta“ að eigin vali. En hvers vegna á það að teljast til skattfrádráttar?