Af og til ratar í fjölmiðla hérlendis umræða um dánaraðstoð. Slík aðstoð er möguleg í nokkrum ríkjum heims en er ekki hér á landi. Alla vega ekki fyrir opnum tjöldum.

Gerðar hafa verið atlögur að því að fá Alþingi til að afgreiða þingsályktunartillögu um dánaraðstoð, þar sem heilbrigðisráðherra væri falið að draga saman gögn um dánaraðstoð og lagaramma um hana í löndum þar sem hún er leyfð, ástæður og skilyrði aðstoðarinnar.

Tekið er fram í tillögunni að hún feli ekki í sér álit á hvort ástæða sé til að breyta lögum hér á landi, heldur sé markmið flutningsmanna tillögunnar að styrkja grundvöll umræðu um viðkvæmt mál.

Í rökræðu um dánaraðstoð er stutt í tilfinningar og þegar svo er, víkja rökin oft.

Til er félagsskapur fólks hér á landi, Lífsvirðing, um dánaraðstoð, sem hefur að markmiði að stuðla að uppbyggilegri umræðu, vinna að því að sett verði lög um dánaraðstoð að tilgreindum skilyrðum uppfylltum og fræða og upplýsa um efnið.

Á vef félagsins kemur fram að dánaraðstoð sé þegar veitt hér á landi. Það sé þó sjaldan viðurkennt. Vísað er til erlendra rannsókna í löndum sem banna dánaraðstoð og fullyrt að niðurstöður sýni að læknar veiti aðstoðina með of stórum lyfjaskömmtum, í því skyni að lina þjáningar sjúklinga sinna. Þetta geri þeir þó fyrir liggi að skammturinn muni leiða til dauða. Öllum þeim sem hafa leyfi til að ávísa og gefa lyf ætti því að vera hugarhægð í því að dánaraðstoð verði leyfð, hvort sem þeir veita hana eða ekki.

Umræða um dánaraðstoð er komin stutt á veg hér á landi og hún er tilviljanakennd. Meðal helstu andstæðinga dánaraðstoðar eru heilbrigðisstarfsmenn. Þeir benda á að hún sé andstæð siðferðis- og faglegum skyldum þeirra. Öll menntun þeirra og þjálfun miði að áframhaldandi lífi sjúklings, en ekki dauða. Hlutverk þeirra sé því lækning en ekki dauði.

En það eru aðrar siðferðilegar og trúarlegar hliðar á málinu. Lífið er heilagt og sjónarmiðið um að rangt sé að taka líf, í hvaða skilningi sem er, vegur þungt í málflutningi þeirra sem mótfallnir eru dánaraðstoð.

Ekki má þó mikla málið um of fyrir sér. Verði dánaraðstoð leyfð, yrði hún að sjálfsögðu valkvæð og þeir sem eiga erfitt siðferðislega með að þiggja hana, gera það þá ekki. Og þeir sem ekki vilja veita hana, gera það heldur ekki.

Það er auðvelt að skilja lækna sem vilja ekki þurfa að standa frammi fyrir sjúklingi sínum og ræða við hann möguleikann á að bundinn verði endi á líf hans. Það er þá líklega betri staða að sú leið sé ekki fær.

En það er líka erfið staða fyrir sjúkling sem á enga batavon og býr við þjáningar, takmörkuð lífsgæði og á hraðri afturför, að hafa enga leið út úr þeim aðstæðum nema bíða síns náttúrulega dauðdaga.

Umræðan um dánaraðstoð þarf að fara fram og þroskast. Fyrsta skrefið í því er að safna upplýsingum um reynslu þeirra þjóða sem hana leyfa.