Rannsóknir Davids Attenborough á hegðun, atferli og framkomu fjölmargra dýrategunda hafa veitt sófadýrum ómælda ánægju í gegnum tíðina. Þó er ein dýrategund sem ég sakna úr umfangsmiklu safni náttúrufræðingsins og fjölmiðlamannsins. Það er manndýrið. Ef Attenborough hefði lagt sig eftir því að rannsaka manninn er ég viss um að hann hefði annars vegar litið til hegðunar tegundarinnar í kringum fengitíma, þá á lendum öldurhúsa, hins vegar til atferlis og framkomu tegundarinnar að loknum mökunartíma, þegar afkvæmi hennar eru farin að berjast upp á líf og dauða á sléttum gervigrassins.

Þar skiptast afkvæmin í tvær hjarðir sem eru sundurgreindar með litum og mynstri. Mín uppáhaldshjörð klæðist til að mynda hvítum og rauðum rákum fyrir baráttu sléttunnar. Þrátt fyrir að úrslit baráttunnar fari eingöngu fram fyrir tilstilli tæknilegrar færni, líkamlegs styrks og andlegs úthalds afkvæmanna, hafa foreldrar flestra afkvæmanna ekki sleppt af þeim hendinni. Foreldrarnir standa þannig til hliðar við sléttuna, oft nokkuð hátt og hafa þannig góða yfirsýn yfir baráttuna, og gefa frá sér sérkennileg hljóð sem oft minna á hávært gagg stærri fuglategunda. Gagginu er oftast ætlað að blása hjörð afkvæmisins baráttuanda í brjóst, trufla óvinahjörðina eða leiðbeina hvort tveggja hjörðinni og dómaranum.

Ef við leggjum eyrun við og hlustum eftir gagginu á hliðarlínunni virðist barátta afkvæmanna vera upp á líf og dauða. Oft þannig að hjarðir manndýranna á hliðarlínunni fara að berjast innbyrðis. Afkvæmi tegundarinnar eru sem betur fer, þrátt fyrir einstaka skriðtæklingu, skynsamari.