Þær mega muna sinn fífil fegri verslunarmannahelgarnar. Árans veiran hefur svipt landsmenn þeirri hefð að safnast saman og fagna. Sumum er líklega sama en hátíðahöld víða um land á verslunarmannahelgi hafa haft mikla þýðingu fyrir tekjuöflun hvort tveggja fyrirtækja og félagasamtaka.

Líklega fara Vestmannaeyingar verst út úr messufallinu nú. Þar snýst allt sumarið um eins konar lokapunkt á sumarvertíðinni, Þjóðhátíð í Herjólfsdal.En það verður ekki á þessa veiru logið að lævís er hún og lipur og virðist ekki kunna að skammast sín og hunskast brott þrátt fyrir allar bólusetningarnar.

Í viðtali hér í Fréttablaðinu á mánudag sagði Kári Stefánsson að Íslendingar stæðu frammi fyrir skrýtnu vandamáli.„Ég held að næsta vika eða svo komi til með að vera mjög þrungin af upp­lýsingum fyrir okkur. Vegna þess að ansi margir af þeim sem hafa smitast hafa verið bólu­settir og við vitum raun­veru­lega ekki hversu stór hundraðs­hluti af þeim verður raun­veru­lega lasinn.“Og hann bætir við: „Ef sá hundraðs­hluti er lítill þá held ég að við verðum að breyta nálgun okkar á þessari til­raun til að lifa með þessari veiru.

Til dæmis með því að beita ekki sams ­konar sótt­varna­að­gerðum eins og við höfum gert. Leyfa fólki meira frelsi. Leggja okkur fram við að verja elli­heimili og þá staði þar sem fólk með undir­liggjandi sjúk­dóma er og svo framvegis. Því að það er ó­mögu­legt að segja hversu lengi við þurfum að standa í þessu og við megum ekki beita þeim að­ferðum sem endanlega koma okkur öllum í gröfina. Við verðum að geta haldið á­fram að lifa í þessu landi.“

Þetta er rétt athugað hjá Kára. Við getum ekki búið við linnulitlar takmarkanir – hænuskref áfram og hænuskref aftur á bak og ýmist sett allt í gang eða slökkt á öllu. Nokkrir dagar eru nú liðnir frá því þessi orð féllu og þrátt fyrir mikinn fjölda greindra smita hefur sjúkrahúsinnlögnum í reynd fjölgað sáralítið.

Ekki skal þó gert lítið úr veikindum þeirra sem þar liggja.Baráttan við faraldurinn hefur breyst og þurft hefur að taka hann breyttum tökum eftir því sem baráttunni hefur undið fram. Það er magnað vísindaafrek að hafa náð að koma bóluefnum í almenna dreifingu á innan við þremur misserum.

Það voru vissulega sár vonbrigði að bólusetningin skyldi ekki veita traustari vörn, en samt breyta þau gangi leiksins að mun.Um það segir Kári í áðurnefndu viðtali að markmiðið með bólu­setningum hafi í raun verið þrí­þætt.

„Þegar menn réðust í það að búa til bólu­efni gegn þessari veiru þá var ljóst að mark­miðið væri að gera annað af tvennu eða hvort tveggja. Sem er að búa til það bólu­efni sem kæmi í veg fyrir að menn smituðust, bólu­efni sem kæmi í veg fyrir að menn sýktust eða hvort tveggja.“Í annað árið í röð verður fámenni á tjaldsvæðum landsins um verslunarmannahelgi. Látum þessa veiru ekki eyðileggja fleiri verslunarmannahelgar. Þetta verður í síðara og lokasinnið.