Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem fyrir fram var jafnvel kölluð mikilvægasta ráðstefna mannkyns, hefur að mörgu leyti ekki staðist væntingar en það er eitt öðru fremur sem vekur fjölmörgum undrun: Af öllum þeim mikilvægu málefnum sem fengu pláss á þéttskipaðri dagskránni hefur matvælaframleiðsla og -sóun fengið lítið sem ekkert vægi. Við upphaf ráðstefnunnar kepptist efasemda- og úrtölufólkið við að benda á það hvers lags samgöngur fundargestir nýttu sér til að mæta á svæðið. Margir hverjir, og þar með talin íslenska sendinefndin, ferðuðust með flugvél (enda ferjusamgöngur milli Reykjavíkur og Glasgow löngum verið stopular) og þótti einhverjum það orka tvímælis.

Þó svo að slíkar athugasemdir séu í besta falli yfirklór og í versta falli tilraun til að afvegaleiða umræðuna er vert að benda á að flugsamgöngur eru taldar ábyrgar fyrir um fimm prósentum hnattrænnar hlýnunar. Erfitt er að fullyrða um nákvæmar tölur en ljóst er að matvælaframleiðsla ber þar mun meiri ábyrgð. Matarsóun ein og sér veldur meiri gróðurhúsaáhrifum en öll einstök lönd heims að Kína og Bandaríkjunum undanskildum. En þriðjungur þeirra matvæla sem framleidd eru í heiminum með tilheyrandi umhverfisáhrifum endar sem úrgangur.

Við þurfum að breyta venjum okkar og við þurfum að gera það á víðu sviði. Hvernig við verslum í matinn og hvað við setjum ofan í okkur er þar veigamikið atriði. Sífellt aukin þörf á nýju ræktunarlandi til að mæta þeirri miklu aukningu sem orðið hefur undanfarna áratugi á kjöt- og mjólkurneyslu jarðarbúa er aðkallandi vandi enda þriðjungur ræktunarlands í heiminum nýttur til ræktunar dýrafóðurs.

Nýjar kynslóðir neytenda eru sem betur fer meðvitaðar um áhrif kjötneyslu á umhverfið og velja í stórum stíl að sleppa henni alfarið eða að hluta. Úrval vörutegunda í verslunum sem veitingastöðum er jafnframt orðið það mikið að litlu er fórnað með því að sleppa kjöti, eða skera niður neyslu á því. Stærsta áskorunin við að hætta að borða dýraafurðir reynist mörgum, þó undarlega megi hljóma, að hlusta á síendurteknar misgáfulegar athugasemdir afturhaldsseggjanna sem halda að lífið sé litlaust án blóðugrar steikar. Það er í raun verðugt rannsóknarefni að kanna hversu miklar áhyggjur hinar svokölluðu alætur hafa af meintu næringargildi og fjölbreytileika fæðu þeirra sem valið hafa að skaða jörðina og aðrar lifandi verur sem minnst með fæðuvali sínu.

Hvert og eitt okkar getur haft áhrif með minnkandi neyslu dýraafurða – bragðið og gæðin gætu jafnvel komið einhverjum á óvart því gagnstætt sannfæringu margra, þá borða grænkerar ekki bara gras!