Líðan íslenskra stjórnmálaflokka er með öllu móti, allt frá því að vera bærileg til þess að vera átakanlega þungbær – og á það síðastnefnda ekki síst við um Miðflokkinn, sem virðist bíða sömu örlaga og hefðbundinna klofningsframboða á Íslandi sem hafa komið og farið.

En heilsufarið á elstu flokkum landsins og þeim sem haldið hafa á lofti sígildum stefnum stjórnmálanna til hægri og vinstri virðist líka vera bágborið – og nægir þar að nefna Sjálfstæðisflokkinn. Ótvírætt forystuhlutverk hans í íslenskum stjórnmálum er að baki. Fall hans í Reykjavík er auðvitað sögulegt, en þar má hann heita sáttur við tvöfalt minna fylgi en hann naut á velmektarárum sínum fyrir þrjátíu árum – og raunar lengst af síðustu aldar þegar flokkurinn átti borgina með húð og hári.

Á landsvísu er Sjálfstæðisflokkurinn líka í kreppu og kemst ekki í stjórn nema með endurteknu fulltingi vinstrimanna og getur ekki lengur gert tilkall til forsætisráðuneytisins, svo lágt er á honum risið í seinni tíð. Og það er náttúrlega til marks um örvæntingu flokksmanna að flestir ef ekki allir eru þeir einstaklega sáttir við það að sósíalisti fari fyrir fána þeirra.

Sjálfstæðisflokkurinn er lentur í málefnalegum þrengslum. Sú var tíðin að aðrir flokkshestar öfunduðu þennan farsæla hægriflokk fyrir breiðan stuðning landsmanna, enda var kjörorðið löngum nokkuð þekkilegt, stétt með stétt – og gott ef það var ekki innistæða fyrir því.

Núna er Sjálfstæðisflokkurinn orðinn afturhald. Að baki er frjálslyndi og alþjóðasinnaði flokkurinn sem jafnvel verkafólk var tilbúið að styðja, enda var hann trúverðugur vettvangur fólks sem vildi lítil ríkisafskipti og trúði á frelsi einstaklingsins. Núna trúir sami flokkur á ríkisafskipti og treystir ekki frjálsum viðskiptum til sjávar og sveita.

Að því sögðu verður ekki annað sagt en hefðbundnu flokkarnir á vinstri vængnum búi líka við krankleika. Samfylkingin hefur tapað vægi sínu sem breiðfylking jafnaðarmanna af því hún afréð upp á eigið eindæmi að tapa miðjufylgi sínu. Vinstri græn eru orðin átakalaus kerfisflokkur sem sér ekki lengur ástæðu til að breyta samfélaginu. Og einhvers staðar þarna í námunda er Framsóknarflokkurinn sem er hvorki landsbyggðaflokkur lengur né lyftistöng fyrir landbúnaðinn.

Það er til marks um kreppu gamla fjórflokksins að einn helsti sigurvegari síðustu alþingiskosninga á Íslandi er næsta nýr og nokkuð snúinn flokkur sem kennir sig við fólk. Og í því felst einmitt sigur hans. Hann hugsar um fólk.