Nú standa yfir borgarstjórnarkosningar og ég ásamt föngulegu föruneyti er að bjóða fram krafta okkar í Reykjavík undir nafni Höfuðborgarlistans.  Sjálf verð ég með mínar áherslur á heilbrigðismál og lýðheilsu borgarbúa og vil valdefla borgara Reykjavíkur. Ég vil að öryrkjar geti unnið tímavinnu án þess að bætur skerðist, ég vil að þeir sem vilja vinna eftir að þeir eru komnir á eftirlaun fái að gera það. 

Það er augljóst mál að við þurfum fleiri hjúkrunarrými og það þarf að hugsa mun betur um bæði börnin okkar og eldri borgara. Það að eldri borgarar líði við næringarskort er til skammar og ég vil að foreldrar geti verið lengur heima með börnin sín gegn greiðslum ef vilji er fyrir hendi. Nú eru hátt í sex hundruð manns að bíða eftir innlögn á Vog.  Þetta eru samfélagsþegnar sem vilja bæta lífsgæðin sín og fjölskyldu sinnar sem eru tilbúnir til þess, en komast ekki að, það er óásættanlegt. 

Það er einnig óskiljanlegt að það eigi að leggja niður starfsemi Hugarafls og Geðheilsu- og eftirfylgdarteymi (GET) og mun ég vinna markvisst að því að fá þessu fyrirkomulagi breytt. Eins og áður sagði viljum við valdefla borgara Reykjavíkur og er það gert með því að veita fleiri valkosti og veita aðgang að upplýsingum og úrræðum og gefa fólki vald til að taka ákvarðanir. Ég vil jafnframt halda í þá starfsmenn sem við höfum í mennta- og heilbrigðiskerfinu sem dæmi og að við verðlaunum þá með einingum upp í háskólanám.

Við erum nýr listi en það eru einmitt breytingar eins og þessar sem við þurfum á að halda. Við Reykvíkingar þurfum að fá fólk inn í borgarstjórn sem kann að forgangsraða og vinnur verkefnin í þágu íbúa Reykjavíkur. Dugnaðinn vantar ekki og heldur ekki fjölbreytileikann en það sem við eigum sameiginlegt er að standa við okkar skuldbindingar og við klárum dagsverkið. Við erum nefnilega alveg eins og ég og þú.  Hægt er að lesa um stefnumál Höfuðborgarlistans inn á hofudborgarlistinn.is

Helga María Guðmundsdóttir
Hjúkrunarfræðingur, fjölmiðlamaður og í 4 sæti Höfuðborgarlistans.