Skoðun

Leyfum kennurum að blómstra!

Það er að skapast neyðarástand í menntamálum þjóðarinnar. Kennaraskortur er yfirvofandi og við sem þjóð þurfum að spyrja okkur að því hversu mikils virði menntun barnanna okkar sé okkur?

Ef við lítum á grunnskólann sem geymslustað til að hafa ofan af fyrir börnum á meðan mamma og pabbi eru í vinnunni þurfum við ekki að hafa stórar áhyggjur, það er þangað sem hann stefnir verði ekkert að gert.

Ef við hins vegar viljum að þar fái börnin okkar menntun sem býr þau undir líf í nútíma þjóðfélagi, þá verðum við að grípa í taumana áður en ástandið versnar enn frekar.

Það er ekki langt síðan þessi umræða varð opinber í samfélaginu og gott ef hún varð ekki fyrst áberandi haustið 2016 þegar grasrót kennara reis upp og vakti athygli á hversu alvarlegur og víðtækur vandinn er.

En hvers vegna er staðan jafn slæm og raun ber vitni?

Áherslur stjórnvalda í menntamálum

Ísland kemur ekki vel út í alþjóðlegum samanburði OECD ríkja. Löndin sem þar koma langbest út eru Kanada, Finnland, Japan og Eistland, auk þess sem Suður Kórea kemst mjög nálægt þessum hópi.

Það eru nokkrir megin þættir sem öll þessi lönd eiga sameiginleg en lykilatriðið er frelsi og vald kennarans. Í öllum þessum löndun hefur kennarastarfið verið hafið upp þannig að það sé meðal eftirsóttustu starfa þjóðfélagsins. Kennaranum er gefið frelsi til að blómstra og honum er treyst sem fagmanni. Segja má að menntastefna þessar landa kristallist í þremur þáttum; samvinnu kennara, sköpun kennarans og hann geti blómstrað í starfi, og fagmennsku þannig að enginn sem ekki hefur tilskylda menntun fái að sinna kennslu.

Ísland, með Reykjavíkurborg í fararbroddi, hefur farið í þveröfuga átt. Hér er kennsla láglaunastarf og allt gert til að halda kennurum niðri í launum. Það er talað niður til kennara við hvert tækifæri og gert lítið úr fagmennsku þeirra. Í stað samvinnu, sköpunar og fagmennsku kristallast menntastefna undanfarinna ára í samkeppni, stöðlun/miðstýringu og því að redda málum með ófaglærðu fólki.

Afleiðingin af stefnu borgarinnar undanfarin ár er sú að í stað þess að sinna því faglega starfi sem þeir vilja sinna, fer öll orka kennaranna í að „slökkva elda“ sem alltaf eru að koma upp í of fjölmennum bekkjum og sinna alls kyns störfum sem ekki koma nemendum þeirra til góða á nokkurn hátt.

Hvað þarf að gera?

Svörin eru ekki einhlít og engin ein lausn leysir allan vandann en sé litið til fyrrnefndra „fyrirmyndarlanda“, er algjörlega ljóst hver fyrstu skrefin þurfa að vera ef við eigum að eiga möguleika á að koma okkur á réttan kjöl:

1. Hækka verður laun kennara verulega

2. Viðurkenna þarf kennarann sem sérfræðing, „valdefla“ hann og leyfa honum að blómstra

3. Hætta þarf og/eða draga til baka misgáfuleg valdboð„að ofan“

4. Bæta þarf aðbúnað kennara og draga úr álagi

1. Hækka verður laun kennara verulega

Launin eru bleiki fíllinn í stofunni. Hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hefur bent á að ýmis konar lausnir, sem aðallega felast í að fegra starfið fyrir ungu fólki, svo það drífi sig í kennaranámið.

Skortur á fólki í kennaranám er ekki vandinn sjálfur, heldur eitt af einkennum og afleiðingum vandans. Það er bara alls ekki heillandi tilhugsun fyrir ungt fólk að fara í 5 ára krefjandi háskólanám og vera svo tugum prósenta undir meðallaunum í landinu við útskirft og alla tíð eftir það.

Það þarf að hækka kennaralaun þannig að þau nái meðallaunum í landinu STRAX án þess að krefja kennara um eitthvað á móti. Verði þetta ekki gert sem allra fyrst mun stéttin halda áfram að eldast þar til hún að lokum „deyr út“ því það er það sem gerist þar sem eðlileg endurnýjun á sér ekki stað.

2. Viðurkenna þarf kennarann sem sérfræðing, valdefla hann og leyfa honum að blómstra

Kennarar eru sérfræðingar. Þeir eru sérfræðingar í menntun og þeir eru sérfræðingar í sínum nemendahópum. Það eru kennarar sem eiga að hafa úrslitavaldið þegar kemur að málefnum nemenda þeirra.

Kennarar hafa reyndar sjálfir kallað eftir aðstoð sérfræðinga, en það er fyrst og fremst af tvennum ástæðum.

1. Vegna þess að til að börn fái þá auknu aðstoð sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum, verður „sérfræðingur“ að vera búin að „stimpla“ þau. Greining sérfræðinga á börnum kemur kennurum þeirra sjaldan eða aldrei á óvart, það vantaði bara „stimpilinn“ til að lögbundin aðstoð fengist.

2. Með skóla fyrir alla fylgir það að í flestum bekkjum eru nokkur börn sem þurfa e.k. séraðstoð eða úrræði. Kennarinn er í sjálfu sér alveg fær um að veita nemendum sínum úrræðin og hjálpina, en vegna allra hinna barnanna og aðstæðna í skólanum, er það honum ekki mögulegt.

Kennarinn þarf hins vegar ekki sérfræðinga til að segja sér hvað þarf að gera, hann gerir sér yfirleitt góða grein fyrir því, og þó hann sé fær um að veita hjálpina er honum ekki gert fært að veita hana. Kennarinn er sérfræðingurinn en í stað þess að það sé viðurkennt er núna gert ráð fyrir að aðrar sérfræðimenntaðar stéttir komi inn í skólana, meti börnin, segi kennaranum það sem hann væntanlega veit nú þegar, og segi honum hvað hann á að gera, sem kennarinn veit líka nú þegar, og snúi sér svo að næsta barni.

Auk þess sem sérfræðingarnir auka vinnu kennarans töluvert væri kostnaðinum við þá betur varið í fleiri kennara í hvern bekk.

Treystum kennurunum, þeir vita hvað þarf og hvar skóinn kreppir, þeir þurfa bara að hafa möguleika á því að framkvæma það sem þeir vita að þarf til.

3. Hætta þarf með og/eða draga til baka misgáfuleg valdboð„að ofan“

Á undanförnum árum hafa kennarar mátt búa við að alls konar kerfisbreytingar komi „að ofan“ oft í óþökk þeirra sjálfra og í sumum tilfellum hefur þær aukið mjög á vinnu kennara og álag, án þess að nokkuð komi í staðinn. Nærtækt dæmi er nýja námsmatið.

Margar aðgerðir borgarinnar, eins og t.d. viðveruskyldan, benda bæði til vantrausts á því að kennarar séu í raun og veru að sinna störfum sínum af trúmennsku og sýna fram á lítinn skilning á eðli starfsins og álagi.

Það eru fáar stéttir undir jafn miklu „eftirliti“ og kennarar. Kennarar í dag myndu ekki komast upp með það lengi að slá slöku við í starfi sínu. Með því fylgjast 20 – 25 manns í hverri einustu kennslustund og ef kennari þeirra kæmi endurtekið óundirbúin myndi það fljótlega fréttast heim og þaðan til skólayfirvalda.

Hvað varðar eðli starfsins þá er kennsla ekki eins og forritun á litlum tölvum. Kennsla er meira eins og listgrein þar sem reynir á marga og ólíka þætti hjá kennaranum á hverjum tíma. Stundum, þegar kennslu lýkur er hvorki meira að hafa né meira að gefa. Þá daga þarf kennarinn að geta endurhlaðið sig fyrir næsta dag og taka þá lengri tíma í undirbúning og aðra vinnu.

Vinnan er nefnilega alltaf unninn – það er aldrei hjá því komist í kennslu, en það er ekki víst að hún sé unninn á fyrir fram ákveðnum tíma.

Afnám viðveru mun ekki kosta sveitarfélögin neitt – en ágóðin yrði mjög mikill í ánægðari kennurum og þar með betri skólum.

4. Bæta þarf aðbúnað kennara og draga úr álagi

Aðbúnaður kennara er mjög mismunandi eftir skólum. Í nýrri skólabyggingum er hann oft fínn en í þeim eldri er hann oft með þeim hætti að fáir létu bjóða sér hann.

Þetta þarf að laga!

Hvað álag varðar er klárt mál að það þarf að minnka. Skilgreina þarf hver forgangsatriði kennarans eiga að vera og gefa honum tíma til að vinna það. Það sem fellur þar fyrir utan þarf að greiða sérstaklega fyrir.  En ekki verður farið nánar í þá umræðu hér.

Til umhugsunar

Allir vilja góðan kennara fyrir sitt barn. Verði ekkert að gert verður bráðum ekki úr góðum kennurum að velja. Þegar þar að kemur munu skólarnir vera e.k. geymslustaðir fyrir vinnandi foreldra í stað þess að vera menntastofnanir sem búa börn fyrir lífið í síbreytilegu þjóðfélagi.

Við stefnum hraðbyri í það fyrra verði ekkert að gert.

Hafi sveitarfélögin ekki efni á að reka góða skóla þarf ríkið að koma inn í dæmið og sjá til þess að hér sé boðið upp á menntun í heimsmælikvarða.

Reykjavík á að vera í forystu í skólaþróun og á aldrei að leyfa sér að gefa nokkurn afslátt þegar hagsmunir barna eru undir.

Það er löngu orðið ljóst að miðstýring að ofan og það að halda þessari stóru kvennastétt í láglaunagildru er ekki að virka og hefur valdið stórfelldum skaða.

Leyfum kennurum að blómstra og sjáum hvað gerist!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir

Höfundur er kennari og skipar 3. sætið á lista Framsóknarmanna í Reykjavík

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fastir pennar

Tvísýn staða
Hörður Ægisson

Skoðun

Norðurlöndin
Sigurður Ingi Jóhannsson

Skoðun

Það eru ekki allir sveppir hollir
Kári Stefánsson

Auglýsing

Nýjast

Vonandi var hann ekki sannkristinn
Þórlindur Kjartansson

Flóttafólk
María Rún Bjarnadóttir

Lokum skólum en leyfum sjúkrahús
Ebba Margrét Magnúsdóttir

Aðför að tjáningarfrelsi
Hanna Katrín Friðriksson og Ragnhildur Sverrisdóttir

Vor í Reykjavík
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Fyrri dómar MDE
Jón Steinar Gunnlaugsson

Auglýsing