Það er fagnaðarefni að ný ríkisstjórn horfi til þess að lífeyrissjóðir – og vonandi aðrir fagfjárfestar – eigi þess kost að taka þátt í innviðafjárfestingum. Það er skynsamlegt skref til að fá fleiri að borði til að fjármagna þá uppbyggingu. Tækifærin eru víða enda er uppsöfnuð viðhaldsþörf 420 milljarðar, samkvæmt úttekt Samtaka iðnaðarins, og þar er ekki horft til nýrra verkefna.

Öflugir innviðir leggja grunn að samkeppnishæfni þjóða. Fjárfesting í innviðum styður við hagvöxt, fjölgar störfum, bætir lífskjör og eykur framleiðni hins opinbera og einkageirans, samkvæmt skýrslu OECD. Það er því þarft að huga vel að innviðum. Í samanburði við flest ríki stendur Ísland þar vel að vígi en hægt er að gera betur.

Samstarf við einkaaðila gerir það að verkum að hægt er að flýta uppbyggingu og leiðir til þess að stjórnvöld geti veitt minni fjármunum í hana. Við það skapast svigrúm til að bæta grunnþjónustu og draga úr halla ríkissjóðs – sem er ærinn.

Því miður hafa ýmsir lagt sig í líma við að halda á lofti póli­tískum kreddum sem nágrannaþjóðir okkar hafa sett til hliðar um að hið opinbera annist alla þessa uppbyggingu. Það yrði okkur dýrkeypt; farið yrði hægar í uppbyggingu og ríkissjóður yrði skuldsettari sem gæti leitt til skattahækkana þegar fram í sækir. Rannsóknir sýna jafnframt að þegar skuldsetning stærri ríkja fer yfir 60-70 prósent af landsframleiðslu byrjar það að hamla hagvexti. Lítið hagkerfi eins og Ísland verður að standa betur að vígi en þau stóru til að laða að erlenda fjárfesta og halda fjármagni í hagkerfinu.

Þekkt er að ýmiss konar vegagerð hentar vel sem framkvæmdir á vegum einkaaðila. Á meðal kosta þeirra er að líklegt er að kostnaðaraðhald verði meira. Það ætti einnig að vinna að því að selja hluta af Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsneti og skrá á hlutabréfamarkað. Við það er hægt að innleysa háar fjárhæðir sem nýtast í þarfari verkefni og reksturinn myndi njóta góðs af eftirliti frá einkafjárfestum. Þetta er þekkt leið.