Ég væri að ljúga ef ég segði áfengið hafa bjargað mér ungum frá íþróttum þar sem eðlislæg leti, metnaðarleysi og fullkominn skortur á keppnisskapi voru búin að því löngu áður en ég byrjaði seint, og sem síðar reyndist illa, að drekka.

Sennilega eru leti og heimspekileg meðvitund um tilgangsleysi allra hluta þroskamerki og ég þá bara býsna góður að vera kominn þó þetta langt á andans blindgötu á rétt innan við hálfri öld.

Og aldrei sit ég betur í mínum bísamrottufeldi en þegar landslið íslenskra A-karla etja kappi með boltum á fjölþjóðlegum stórmótum. Yfirleitt ganga helstu ósköpin yfir áður en ég verð þeirra var. Þannig frétti ég til dæmis af sögulegum leik við Dani á laugardaginn þegar honum var lokið og ég var að vaska upp með Vikulokin hans Bergsteins frá því um morguninn í eyrunum. Þar sagðist fólk ætla að horfa á einmitt þennan æsispennandi leik sem þá tilheyrði fortíðinni.

Sigurgleðin keyrði ekki upp blóðþrýstinginn hjá mér þann daginn frekar en nokkrum dögum seinna þegar gleðin varð að beiskri gúllassúpu. Sjálfsagt á ég alveg inni að úða í mig kílói af Appollo-lakkrís til þess að þjóðrembujafna handboltaáhugaleysi mitt?

Þau ykkar sem eruð enn í sárum eftir Ungverjaleikinn get ég þó glatt með því að völva Fréttablaðsins sá glitta í brons í áramótaspá sinni og að vandlega athugðu máli sé ég ekki enn ástæðu til að rengja þann spádóm.