Samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum stuðla matvælakerfi alls heimsins að um fjórðungi losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Við þurfum öll að borða til að lifa. Þess vegna er mikilvægt að matvælakerfi okkar þjóni hlutverki sínu á sjálfbæran hátt. Sjálfbærni nær frá frumframleiðslu hráefnis sem fer á matardiskinn og alla leið í endurvinnslu á allt frá lífrænum úrgangi til umbúða. Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs verða í ár veitt framtaki sem styður við sjálfbær matvælakerfi. Hver sem er getur sent inn tillögu og verðlaunaféð nemur 300.000 dönskum krónum.

Þegar matvælaframleiðsla er sjálfbær er maturinn framleiddur staðbundið og eftir vistfræðilega sjálfbærum leiðum að því marki sem hægt er. Í landbúnaði er áhersla lögð á hringrás næringarefna plantna og umhverfisvænar landbúnaðaraðferðir þar sem horft er til losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar, líffræðilegrar fjölbreytni og góðrar nýtingar á vatni. Í dýrahaldi og fiskeldi er tekin ábyrgð á umhverfinu og ströngum gildum um dýravelferð fylgt. Náttúruauðlindir sem nýttar eru til matar, svo sem villibráð, villtur fiskur og aðrar náttúruafurðir eru nýttar á skynsamlegan hátt.

Sjálfbærni í framleiðslu og neyslu matvæla felur einnig í sér að þegar hráefnum er breytt í matvæli er næringargildi þeirra varðveitt eins vel og kostur er. Ekki er farið illa með auðlindir í matvælaiðnaði, farið er vel með orku við pökkun vöru og vistspor við dreifingu hennar lágmarkað. Fyrirtæki og verslanir bjóða viðskiptavinum sínum sjálfbæra valkosti auk þess að vera með eigin úrræði til að draga úr matarúrgangi. Mataræði neytenda byggist á vistfræðilega sjálfbærum valkostum, til dæmis árstíðarbundnum mat og grænmetisfæðu. Við borðum eins margar hitaeiningar og við þurfum, enginn matur fer til spillis og lífrænn úrgangur er endurunninn.

Mörg heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun snúa að matvælakerfinu og umbreyting er nauðsynleg til þess að maturinn sem við borðum verði bæði framleiddur og hans neytt á sjálfbæran hátt.

Frá upphafi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs hefur verið lögð áhersla á aðkallandi áskoranir tengdar umhverfismálum. Nú standa vonir til að geta varpað ljósi á fyrirmyndir sem stuðla að hinni mikilvægu þróun í átt til sjálfbærari matvælakerfa. Tilkynnt verður um sigurvegara verðlaunanna samhliða þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 2. nóvember í ár. Tekið er á móti tillögum til verðlaunanna í síðasta lagi 12. maí næstkomandi á vef Norðurlandaráðs, norden.org. Hægt er að benda á aðila á borð við fyrirtæki, samtök og einstaklinga á Norðurlöndunum. Hver verðskuldar verðlaunin að þínu mati?

Höfundar eru fulltrúar Íslands í dómnefnd umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.