Íslenska vinnulöggjöfin er í grunninn frá árinu 1938. Breytingar hafa verið gerðar á henni í gegnum tíðina, en í grunninn er þetta 85 ára gömul löggjöf og að mörgu leyti barn síns tíma.
Því miður skortir á að þessi gömlu lög séu fullnægjandi rammi utan um íslenskan vinnumarkað árið 2023. Henni þarf að breyta á þann veg að íslenskur vinnumarkaður starfi á grunni sem er sambærilegur við það sem tíðkast til dæmis á hinum Norðurlöndunum, þar sem stöðugleiki á vinnumarkaði er ólíkt meiri en hér á landi.
Vitanlega er ekki hægt að skipa öllum málum varðandi vinnumarkað og kjarasamninga með lögum, en við blasir að hvorki er eðlilegt né heilbrigt að hér á landi séu gerðir hátt í 300 kjarasamningar í hverri samningalotu. Þetta eru fleiri samningar en gerðir eru í Svíþjóð þar sem búa 30 sinnum fleiri en á Íslandi.
Innan við eitt prósent kjarasamninga hér á landi er endurnýjað áður en eldri samningur rennur út, en á hinum Norðurlöndunum er almenna reglan sú að gengið er frá nýjum kjarasamningi áður en sá gamli rennur út.
Vinnulöggjöfina þarf að útbúa svo hún hvetji hið minnsta til þess að kjarasamningum fækki, auk þess sem mikilvægt er að girða fyrir notkun verkfallsvopnsins í pólitískum tilgangi, eins og nú gerist. Með öllu er galið að hægt sé að nota verkfallsvopnið og hótanir um verkföll í pólitík. Ósmekklegt er að sjá launafólk notað sem fótgönguliða í pólitískri herferð forystu verkalýðsfélags.
Þá þarf að taka á því að hægt sé að stöðva starfsemi einstakra fyrirtækja og atvinnugreina með fámennum skæruverkföllum. Ein leið til þess er að tryggja að til að boða verkfall þurfi tiltekið hlutfall allra félagsmanna verkalýðsfélags að samþykkja verkfallsboðun.
Í lögunum í dag er heimild til að láta einungis þá félagsmenn, sem ætlunin er að fari í verkfall, kjósa um verkfallsboðun. Þetta ákvæði tekur ekki tillit til þess að verkfall getur haft miklar og alvarlegar afleiðingar fyrir heilar atvinnugreinar og þjóðarbúið sjálft og að sjálfsögðu alla félagsmenn viðkomandi verkalýðsfélags, ekki bara viðkomandi fyrirtæki. Þetta er sú leið sem farin er í dag til að beita skæruverkföllum til að lama íslenskt atvinnulíf og valda tjóni fyrir viðkvæmar atvinnugreinar sem standa höllum fæti eftir Covid.
Þá er mikilvægt að skerpa á þeim tækjum og tólum sem ríkissáttasemjari býr yfir. Raunar er mikilvægt að dómstólar staðfesti að sáttasemjari sé í fullum rétti með sína miðlunartillögu og tryggi jafnframt að Eflingu verði gert að afhenda félagatal sitt til að hægt sé að ganga til atkvæða um tillöguna.
Ásmundur Stefánsson, fyrrverandi forseti ASÍ og ríkissáttasemjari, hefur tekið af öll tvímæli um að miðlunartillaga Aðalsteins Leifssonar er fyllilega lögmæt. Þá hefur Lára V. Júlíusdóttir, mesti sérfræðingur landsins í vinnurétti, tekið í sama streng og lýst miklum efasemdum um lögmæti þeirra skæruverkfalla sem fámenn klíka beitir í pólitískri herferð sinni.