Leikskólamál eru mikið í umræðunni þessa dagana og það er gott enda er leikskólinn fyrsta skólastigið þar sem grunnur er lagður að menntun og alhliða þroska barna. Í leikskólum í Reykjavík starfar fjölbreyttur hópur fólks með menntun, reynslu og ástríðu fyrir þessu mikilvæga starfi, leikskólakennarar og leikskólastjórar, háskólamenntað fólk með uppeldismenntun, ófagmenntað starfsfólk oft með mikla reynslu og kunnáttu á sínu sviði og ungt fólk sem í mörgum tilvikum er að afla sér dýrmætrar reynslu í starfi sem er í senn gefandi og krefjandi.
Í Reykjavík höfum við lagt okkur fram um að hlusta eftir röddum starfsfólksins um mikilvægi þess að bæta starfsumhverfi leikskólanna og höfum gripið til fjölmargra aðgerða í því sambandi. Þær snúa m.a. að fjölgun starfsfólks á elstu deildum, fækkun barna í rými til að minnka álag, fjölgun undirbúningstíma, auknu fjármagni til faglegs starfs, fjölgun námsleyfa o.s.frv. Alls hefur borgin lagt fram 4,2 milljarðar í þessar aðgerðir til að bæta starfsumhverfi leikskólanna auk þess að hækka laun og auka verulega fjármagn í viðhald leikskólahúsnæðis.
Bætt starfsumhverfi er ekki tjald til einnar nætur – við í Samfylkingunni lítum áfram á það sem forgangsverkefni og viljum að það verði eitt af fyrstu verkum okkar í nýrri borgarstjórn að kalla saman fulltrúa starfsfólks leikskóla og grunnskóla til að leggja línur fyrir næstu fjögur ár um hvernig við bætum enn frekar vinnuumhverfi kennara og starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundastarfsins í borginni.
Lausnir sem virka?
Í kosningabaráttu hafa flokkar kynnt ýmsar hugmyndir sem lausnir á leikskólavandanum. Meðal þeirra er að stytta leikskólann um eitt ár, útrýma biðlistum eftir leikskólaplássi, stofna fyrirtækjaleikskóla og taka upp fjölskyldugreiðslur. Stytting leikskólans um eitt ár er undarleg kveðja til leikskólastarfsfólks sem af metnaði heldur uppi starfi sem yfir 90% foreldra lýsa mikilli ánægju með og grunnstefna leikskólanna að mennta börn í gegnum leik ætti frekar að fá meira rými í menntakerfinu en minna, ekki síst á yngsta stigi grunnskólans.
Hugmyndir um að eyða biðlistum eftir leikskólaplássi eru í besta falli óraunsæjar, því nýjar umsóknir berast í hverri viku og munu gera það áfram meðan börn fæðast eða flytjast til borgarinnar. Fyrirtækjaleikskólar geta átt rétt á sér en þá þarf að manna eins og aðra leikskóla og mikilvægt er að þeir auki ekki á ójöfnuð varðandi inntöku barna. Fjölskyldugreiðslur geta svo aldrei komið í staðinn fyrir leikskólapláss fyrir foreldra á vinnumarkaði og á það hefur verið bent að slíkar heimgreiðslur séu í raun atlaga að kynjajafnrétti á vinnumarkaði.
Hver er vandinn?
Vandi leikskólanna á Íslandi kristallast í raun í því að skortur hefur verið um margra ára skeið á fagfólki, þ.e. leikskólakennurum. Nærtækasta skýringin á því er að aðsókn í kennaranám hrundi á árunum eftir að kennaranámið var lengt úr 3 árum í 5 og hefur ekki náð fyrri hæðum síðan. Enn vantar um helmingi fleiri kennaranema til að mæta þörfinni og nýleg lagabreyting um eitt leyfisbréf kennara hefur haft þau óheppilegu áhrif að leikskólakennarar hafa í hundraða tali flutt sig um set úr leikskólum í grunnskólakennslu. Þessar tvær ákvarðanir Alþingis voru teknar að frumkvæði menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokks og síðar Framsóknarflokks og ábyrgð þessara flokka er því mikil á leikskólavandanum sem þessir flokkar vilja nú leysa strax með fyrrnefndum hugmyndum sem í fyrsta lagi munu ekki virka og í öðru lagi ætti því alls ekki að ráðast í strax.
Samfylkingin mun áfram leggja sig fram um að bæta kjör og starfsumhverfi í leikskólum, auka þverfaglega samvinnu fagstétta og tryggja rík tækifæri til starfsþróunar m.a. til að gera leikskólana að eftirsóknarverðari vinnustöðum. Við viljum vinna með ríki, háskólum og fagfélögum að fjölgun kennara og aukinni virðingu fyrir kennarastarfinu. Í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfinu er grunnur lagður að gæðamenntun og alhliða þroska barna og það er einfaldlega eitt mikilvægasta verkefni okkar í borginni að vanda þar til verka og hlúa að börnum sem best við getum.