Ný rannsókn á vegum Háskóla Íslands sýnir að börn af annarri kynslóð innflytjenda ná mun verri tökum á íslensku en áður var talið. Vísindamennirnir segja stöðuna grafalvarlega og kalla eftir betri íslenskukennslu í leikskólum.

Þó að tekið sé fram að niðurstöðurnar komi á óvart þá hafa rannsóknir síðasta áratug leitt sama í ljós: Börn í íslenskum leikskólum, sem nota annað tungumál en íslensku með fjölskyldu sinni, ná litlum framförum í íslensku þrátt fyrir langan skóladag frá ungum aldri. Í grunnskóla hefur síðan komið fram vaxandi munur á íslenskufærni þessa nemendahóps og jafnaldra sem eiga íslensku að móðurmáli.

En hvernig má það vera að börn sem dvelja í íslensku leikskólastarfi átta klukkustundir á dag, fimm daga vikunnar í þrjú til fimm ár, ná svo lítilli færni í íslensku? Í íslenskum rannsóknum hefur verið leitað svara við því. Í ljós hefur komið að þegar lesið er fyrir stóran hóp barna hættir börnum með litla íslenskufærni til að hverfa inn í eiginn hugarheim og ná ekki að taka þátt í umræðum sem fylgja lestrinum. Þannig missa þau af dýrmætum tækifærum til að efla skilning sinn og tjáningarfærni í íslensku. Í frjálsum tíma leikskólans velja þau gjarnan leiki sem krefjast ekki málnotkunar, eins og að lita og púsla. Mörg þeirra forðast hlutverkaleiki eða ná ekki að ganga inn í slíka leiki.

Í einni könnun voru tekin upp samtöl starfsfólks við börn í þrjú skipti á meðan á frjálsum leik barnanna stóð. Í ljós kom að leikskólastarfsfólkið beindi tali sínu í minna mæli að börnum með annað móðurmál en íslensku en börnum með íslensku að móðurmáli. Fyrrnefndi hópurinn fékk helmingi færri orð á mínútu og mun algengari orð, og engar orðainnlagnir eða opnar spurningar sem aftur á móti hin börnin fengu á meðan á upptöku stóð.

Erlendar rannsóknir sýna að því fleiri og fjölbreytilegri orð sem leikskólakennarar nota í samskiptum við börn þeim mun meiri orðaforða hafa börnin. Sérstaklega eru áhrifin mikil hjá börnum sem nota ekki tungumál skólans með fjölskyldu sinni. Þá hefur komið í ljós að notkun leikskólakennara á sjaldgæfum orðum í samtölum í frjálsum leik við börn spáir fyrir um lesskilning barnanna þegar þau eru komin í fjórða bekk grunnskóla.

Það eru einmitt gagnkvæm tjáskipti, þegar börn og fullorðnir skiptast á að tala, sem gefa einna bestu og árangursríkustu málörvunina. Gagnvirkum samræðum við börn má ná með því að spyrja þau opinna spurninga. Með þeim hætti gefast börnum tækifæri til að útskýra og ræða nánar, í stað þess að svara aðeins með einu orði.

Allir foreldrar hafa væntingar um velferð barna sinna. Foreldrar óska þess að börnin nái góðum árangri í námi og geti síðar lokið framhaldsnámi, þannig að þeirra bíði farsælt líf sem virkir þjóðfélagsþegnar. Foreldrar barna af erlendum uppruna kalla eftir meiri stuðningi og íslenskukennslu fyrir börnin sín.

Ábyrgð leik- og grunnskólans er mikil. Foreldrar treysta skólunum fyrir velferð barna sinna. Við þurfum að koma til móts við óskir foreldra með því að gefa öllum börnum markvisst og máleflandi skólastarfi, strax í leikskóla.

Höfundur er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.