Við risum öll úr sætum þegar dómararnir gengu inn. Salurinn var fullskipaður og andrúmsloftið dálítið sérstakt og hátíðlegt. Að hlusta á málflutning í Grand Chamber Mannréttindadómstóls Evrópu er mikil upplifun og ekki alveg óskyld þeirri upplifun að horfa á leiksýningu. Lögfræðin auðvitað í aðalhlutverki en um hana gildir eins og um áhrifamiklar leiksýningar að eftir sitja vangaveltur og pælingar. Og í þessu máli glímdu málflytjendur við miserfið hlutverk en skiluðu allir sínu vel.

Selahattin Demirtaş gegn Tyrklandi

Málið sem var á dagskrá þennan dag var mál Selahattin Demirtaş gegn Tyrklandi. Það mál er ekki bara þýðingarmikið fyrir Selahattin Demirtaş og fyrir Tyrkland heldur fyrir Evrópu alla. Selahattin Demirtaş er stjórnmálamaður fæddur árið 1973. Haustið 2015 fékk HDP flokkur hans, People’s Democratic Party eða Lýðræðisflokkurinn, 13% fylgi í kosningum til þingsins. Flokkurinn er skilgreindur til vinstri og sem Kúrdaflokkur. Demirtaş var sömuleiðis forsetaframbjóðandi flokksins í kosningum árið 2014 og fékk þá tæp 10% atkvæða. Dómsmálið er til komið vegna þess að 4. nóvember 2016 rúmu ári eftir að Demirtaş var kosinn á þing var hann handtekinn á heimili sínu og færður í gæsluvarðhald. Hann hefur haldið því fram að handtakan og gæsluvarðhaldið sé á grundvelli pólitískra skoðana hans og gjörða. Gæsluvarðhald hans var óhemju langt og stóð í næstum þrjú ár. Tyrknesk stjórnvöld slepptu honum úr gæsluvarðhaldi fyrr í þessum mánuði 16 dögum áður málflutningurinn fór fram í Grand Chamber um gæsluvarðhald hans. Um þetta gæsluvarðhald var sem sagt tekist á núna í vikunni. Var tilefni til þess að handtaka hann? Var tilefni til að úrskurða hann í gæsluvarðhald? Og var lengd gæsluvarðhaldsins réttlætanleg?

17 skikkjuklæddir dómarar

Andrúmsloftið í salnum litaðist dálítið af því að töluverð öryggisgæsla var í húsinu og áður en gestum var hleypt inn. Raðað var í sæti salarins sem var fullur löngu áður en 17 skikkjuklæddir dómarar, frá 17 löndum, gengu inn. Og eins og í leikhúsi mátti finna að þangað voru komnir áhorfendur sem þekktu vel þá sögu sem þarna yrði sögð og höfðu á henni sterka skoðun. Áður en forseti réttarins hóf að ávarpa lögmenn voru gestir beðnir um að slökkva á símum. Málflutningsræða fyrir dómi er dálítið sérstök stund því hún er lokahnykkurinn á vinnu lögmanns við málið og þjónar auðvitað þeim tilgangi að sannfæra dóminn og eyða þeim efasemdum sem geta verið uppi. Í þessu máli opnaði lögmaður Selahattin Demirtaş sem ávarpaði fyrst forseta réttarins og svo dóminn í heild sinni áður en málflutningur hennar hófst. Hún rammaði sterkt inn um hvað málið snerist og hvað það væri sem dómurinn ætti að horfa til. Hún talaði til dómsins í stað þessa að lesa ræðuna og leyfði sér að flytja málið hægt og rólega og um leið af þunga. Hún kunni sömuleiðis þá list að beita þögn eftir að hafa sett fram lykilpunktana. Mjög sterkur og sannfærandi málflytjandi fannst gestum salarins. Kjarninn málsins samkvæmt lögmanninum var sá að það mætti sjá að glæpur Selahattin Demirtaş væri í reynd ekki annað en pólitískar ræður hans og pólitískar samkomur. Aðgerðir ákæruvalds og dómstóla væru mengaðar af pólitík. Vörn lögmanna Tyrklands byggði á því að það væru engin tengsl á milli sakamálarannsókna á hendur Selahattin Demirtaş og kosninga í Tyrklandi. Þunginn í vörninni byggði hins vegar á því að Selahattin Demirtaş hefði ekki látið fullreyna á málið í Tyrklandi, sem er skilyrði þess að dómstóllinn geti tekið málið til dóms. Þriðji aðilinn til að tala til réttarins hafði fengið sérstakt leyfi réttarins til að tengjast málinu sem aðili. Það var fulltrúi Human Rights Commissioner sem fjallaði um að mikilvægi málsins væri hvernig tyrknesk stjórnvöld beittu gæsluvarðhaldi almennt, en ekki eingöngu gagnvart þessum manni. Það mætti ekki líta framhjá því að gæsluvarðhaldi væri beitt til að þagga niður í ákveðnum röddum og að það væri gert kerfisbundið. Spurningar dómara eftir ræðurnar gáfu ákveðna innsýn í það hvaða þætti málsins þeir voru með hugann við. Sá breski vildi vita hvernig Tyrkir skilgreina hryðjuverkasamtök sem gat bent til þess að sú skilgreining væri að minnsta kosti ekki alveg augljós. Og auðvitað var það þannig að franski dómarinn var sá eini sem ekki spurði spurninga á ensku heldur frönsku þannig að 300 gestir í dómsal settu á sig heyrnartól á meðan túlkur túlkaði hans spurningu.

Opið leikhús

Sennilega er engin hlið lögfræðinnar sýnilegri í fjölmiðlum en dómsmálin. Á sama tíma er það staðreynd að dómsmál eru almenningi fremur hulinn heimur. Sum mál þurfa auk þess að vera lokuð almenningi af tilliti til hagsmuna málsaðila. Það er síðan oft ekki annað en lokaniðurstaðan, sjálfur dómurinn, sem verður umfjöllunarefni fjölmiðla. Umræða og umfjöllun um það sem fram fer í dómsalnum og um hvaða sögu er þar sögð í hverju máli fyrir sig hefur líka þýðingu og gæti opnað betur þann heim sem birtist í dómsalnum. Sá heimur og það merkilega leikhús sem dómstóllinn er getur nefnilega varpað ljósi á lögfræðina og hlutverk hvers og eins inni í dómsalnum. Að þessu leyti er góður málflutningur eins og gott leikhús. Stundum heyrast lögmenn halda því fram að munnlegur málflutningur ráði kannski ekki úrslitum því dómurinn sé búinn að móta afstöðu sína eftir að hafa kynnt sér gögn málsins. Sú nálgun er eins og að segja að leikverk hafi ekki áhrif þegar lesandinn hefur nú þegar lesið verkið sem sýningin byggir á. Leikhúsið hefur áhrif og á að hafa áhrif.