Það má margt ráða af því hvernig valdamikið fólk talar um andstæðinga sína. Sér í lagi þegar andstæðingarnir velgja þeim hraustlega undir uggum. Gera sig jafnvel líklega til að hafa af þeim völdin.

Um þetta vitna tvö nýleg dæmi úr heimi stjórnmálanna.

Á fimm ára afmælisdegi ríkisstjórnarinnar var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra spurð út í Kristrúnu Frostadóttur, nýkjörinn formann Samfylkingarinnar. Þingmanninn sem rýkur upp í vinsældum og virðist á góðri leið með að verða leiðandi afl á þingi.

Um Kristrúnu sagði Katrín: „Hún er málefnalegur stjórnmálamaður sem mér hugnast vel.“ Bætti raunar um betur og sagðist standa keik andspænis leiftursókninni, þar sem það væri „hlutverk Kristrúnar að gagnrýna stjórnina“.

Það verður að segjast eins og er að það er bragur á þessu viðhorfi. Í þessum ummælum kristallast helstu kostir eins farsælasta forsætisráðherra þjóðarinnar.

Það er alltaf hægt að ganga að því vísu að Katrín muni tala af virðingu. Þá virðingu fær hún svo margfalt til baka í formi stuðnings sem nær langt út fyrir hennar eigin stjórnmálaflokk.

Berum þetta nú saman við fræga ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi fyrir mánuði síðan. Þar sem hann ákvað að verja bróðurparti eigin predikunar í skeytasendingar og steinkast. Allir þeir sem honum stendur stuggur af fengu sinn skerf.

Bjarni Benediktsson er afar fær stjórnmálamaður. En á framgöngu hans á þessum fundi var allt annar og síðri bragur en Katrín jafnan skartar.

Þessi ólíku ummæli tveggja valdamestu ráðherra þjóðarinnar sýna, svo ekki verður um villst, að Katrín Jakobsdóttir hefur yfirburðina. Hún ber af í ríkisstjórnarsamstarfi flokka sem helst vilja sem minnstu breyta. Þar sem varðstaðan er eini sýnilegi sameiningarflöturinn.

En henni ferst verkefnið vel úr hendi vegna þess að hún hefur vit á að hampa þeim sem harðast að henni sækja. Sefar svo þess á milli samherjana sem reyna að hlaupast undan merkjum. Af yfirvegun og eins konar sýnikennslu í leiðtogatilburðum.

Það skiptir nefnilega svo ótrúlega miklu máli að skipstjórinn sé alltaf sá sem er stóískur.

Þetta eru þeir eiginleikar sem gera Katrínu að leiðtoganum sem ríkisstjórnin þarf og þess vegna er hún farsæl. Annarra yrði ekki eins sárt saknað.