Enn á ný hafa leið­sögu­menn lent á milli skips og bryggju hvað varðar ráð­stafanir stjórn­valda til að koma til móts við þá sem hafa misst vinnuna vegna kórónu­far­aldursins. Það er eins og það komist seint og illa til skila að ráðningar­sam­band leið­sögu­manna er mjög sér­stakt. Þeir eru yfir­leitt ekki fast­ráðnir, heldur verk­efna­ráðnir til eins eða nokkurra daga í senn. Þá vinna þeir yfir árið yfir­leitt hjá fleiri en einu fyrir­tæki.

Þessi sér­staða leið­sögu­manna hefur orðið til þess að þeir hafa orðið mjög illa úti varðandi ýmsar ráð­stafanir stjórn­valda, og nú síðast lítur út fyrir að lang­þráð fram­lenging á tekju­tengingu at­vinnu­leysis­bóta nýtist ekki vegna þess að leið­sögu­menn voru ekki á tekju­tengingu þann 1. septem­ber.

Margir leið­sögu­menn sóttu um bætur og fóru á at­vinnu­leysis­bætur í lok mars eða snemma í apríl og því rann þriggja mánaða tekju­tenging þeirra á at­vinnu­leysis­bótum út í júní eða júlí sem þýðir að þeir voru ekki lengur á tekju­tengingu núna í byrjun septem­ber.

Stéttar­fé­lagið okkar Leið­sögn hefur fengið fjöl­margar fyrir­spurnir frá fé­lögum sínum sem undra sig á þessari stöðu. Getur það staðist að það fólk sem lenti í verstu hremmingunum í vor og passaði ekki inn í hluta­bóta­leiðina falli enn einu sinni í gegnum möskvana á björgunar­netinu, einungis vegna þess að það er miðað við 1. septem­ber?

Þetta er aug­ljós galli á kerfinu. Þetta veldur því að fólk, sem féll milli skips og bryggju í fyrri að­gerðum, er enn og aftur að upp­lifa að því er ekki rétt hjálpar­hönd sem öðrum er rétt, ein­göngu vegna þess að þau voru þau fyrstu sem lentu í því að missa lífs­viður­værið. Þetta er að okkar mati afar ó­sann­gjarnt svo ekki verði meira sagt.

Við höfum reynt að koma skoðunum okkar á fram­færi við yfir­völd og óskað eftir leið­réttingum, en enn sem komið er höfum við ekki séð nein merki um slíkt , þrátt fyrir marga góða hluti sem gerðir hafa verið í þágu laun­þega undan­farna mánuði.

Höfundur er formaður Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna.