Mistök voru gerð við rammaáætlun þegar Hvalárvirkjun var sett í nýtingarflokk. Gögn sem á þeim tíma lágu frammi sýna glöggt að ekki voru forsendur fyrir því að setja virkjunarhugmyndina í nýtingarflokk[1] . Enn hafa stjórnvöld tíma til að leiðrétta þessi mistök. Beinasta leiðin til þess er að friðlýsa svæðið strax og stöðva þá sóun sem felst í frekari undirbúningi. Fylgja ber tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands um að setja svæðið á B-hluta náttúruminjaskrár[2].

Landsnet hefur einnig líf virkjunarhugmyndarinnar í hendi sér þar sem hún virðist ekki geta orðið að veruleika nema til komi veruleg niðurgreiðsla af hendi almennra raforkunotenda. Að tryggja framgöngu þessara mistaka með hækkun flutningsgjalda rafmagns á alla notendur væru mistök á mistök ofan.

Áform um Hvalárvirkjun eru komin á rekspöl þrátt fyrir að framlögð gögn og umfjöllun um umhverfisárhrif sýni að verðmæt víðerni og náttúra verður fyrir óafturkræfum spjöllum við gerð fjölmargra stíflna og lóna með víðtækri vegagerð, skurðgreftri og jarðvegsflutningum. Fagrir fossar munu hverfa í framkvæmdum sem marka djúp spor í tveimur fjörðum. Óbyggð víðerni yfir þúsund ferkílómetrar að stærð, sem njóta verndar, munu verða fyrir verulegri skerðingu.

Rýni í fyrirliggjandi gögn sýnir að meint framlag Hvalárvirkjunar til orkuöryggis á Vestfjörðum er er orðum aukið og tvennumsögum fer af gagnsemi suðurtengingar virkjuninnar fyrir Vestfirðinga. Hún eru auk þess óhagkvæmur virkjunarkostur frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Friðlýsing þessa svæðis á Ströndum er mikilvæg aðgerð til að bjarga náttúruverðmætum. Jafnframt er meginniðurstaða nýlegrar skýrslu að friðlýsing Drangajökulsvíðerna sé til þess fallin að skapa ný atvinnutækifæri til langs tíma, í ferðaþjónustu, opinberri þjónustu og í afleiddum greinum, og muni stuðla að eflingu byggðar á svæðinu. Þetta er mikilvægt fyrir framtíð Árneshrepps þar sem byggðin er afar brothætt. Tillögur um friðlýsingu njóta stuðnings margra íbúa og landeigenda á svæðinu, en einnig víðar í íslensku samfélagi.

Á aðalfundi Landverndar í síðustu viku var skorað á umhverfis- og auðlindaráðherra að friðlýsa Drangajökulsvíðerni. Fylgi hann þeirri áskorun mun hann sýna í verki að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stendur vörð um náttúru Íslands, og ætlar að tryggja að ekki verði gengið frekar á eina mikilvægust auðlind landsins, víðernin, fyrir virkjun sem komst í nýtingarflokk fyrir mistök.

Ef þú vilt leggja málefninu lið, skrifaðu undir áskorun til forstjóra Umhverfisstofnunar og Umhverfis- og auðlindaráðherra um að hraða vinnu við friðlýsingu Drangajökulsvíðerna (http://askorun.landvernd.is/)

Höfundur er formaður Landsverndar.

[1] bls. 135 til 137 í Niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar, júní 2011

[2] https://www.ni.is/greinar/vf-drangajokull