Hneigðin til að leið­rétta for­tíðina er orðin ansi á­berandi í sam­tíma okkar. Þá er þurrkað út það sem þykir ó­þægi­legt eða ó­æski­legt. Það má ekki vera til sýnis, því það gæti af­vega­leitt ó­harðnaðar og á­hrifa­gjarnar sálir, sem gætu í sak­leysi sínu ætlað sem svo að það sem einu sinni þótti sjálf­sagt sé það enn.

Face­book er á þessum stað í til­verunni, en þar á bæ leyfist ekki að birta myndir af sígarettum. Hér áður fyrr þótti sjálf­sagt að fólk reykti og það meira að segja í flug­vélum. Þá þótti töff að reykja, en svo breyttist það og reyndar svo mjög að nú má ekki lengur minna á að þessi (ó)siður þótti eitt sinn sjálf­sagður. Fjöl­margir ein­staklingar um allan heim reykja svo enn – sumir þeirra meira að segja eins og strompar, en hin sóma­kæra Face­book vill ekki af þeim vita. Bert fólk þykir víst líka afar ó­æski­legt á Face­book, þrátt fyrir að öll séum við ein­hverjum stundum nakin. Face­book er tepru­legt fyrir­bæri. Þar á að sýna snotrar myndir svo engum verði mis­boðið. Snotrar myndir eiga vissu­lega sinn til­veru­rétt en sýna samt ekki alltaf réttu myndina.

Á aug­lýsinga­mynd um leik­sýninguna Níu líf í Borgar­leik­húsinu, sem fjallar um ævi Bubba Morthens, má sjá goðið með sígarettu í munni. Þetta er flott mynd af ungum manni sem reykti mikið og gerði reyndar fleira sem þykir kannski ekki með öllu gott. Vegna af­stöðu Face­book, og kvartana annars staðar frá, var sígarettan fjar­lægð af hluta aug­lýsinga­efnisins. Ekki verður horft fram hjá því að án sígarettunnar verður myndin af Bubba fremur hvers­dags­leg.

Ó­rit­skoðuðu myndina má þó sjá inni í leik­húsinu og þannig fær hún vonandi að vera á­fram. Í leik­ritinu reykja leikarar sem leika Bubba, enda var sígarettan hluti af dag­legu lífi hans um langan tíma. Þegar sýningar hefjast á verkinu að nýju mun vonandi engin breyting verða á þessu.

Leik­hús­stjóri Borgar­leik­hússins segir að leik­húsinu hafi borist kvartanir vegna sígarettu­myndarinnar, þar á meðal frá Krabba­meins­fé­laginu. Því á­gæta fé­lagi ber vissu­lega að leggja á­herslu á for­varnir, en það á ekki að hvetja til rit­skoðunar í þágu bar­áttu­mála sinna. Í þessu máli hefði Krabba­meins­fé­lagið betur haldið sig til hlés. Einnig má gera ráð fyrir að leik­húsið hafi fengið kvartanir frá ein­stak­lingum úti í bæ, móðgunar­gjörnum þrösurum sem stöðugt þefa uppi það sem þeim mis­líkar og koma ó­á­nægju sinni til skila til þeirra sem þeir flokka sem rétta aðila.

Við breytum ekki for­tíðinni og það er ekki hægt að um­skrifa hana að eigin vild og geð­þótta. Það er heldur engin á­stæða til að æsa sig yfir því þegar minnt er á að áður tíðkuðust aðrir siðir en þeir sem sjálf­sagðir þykja í dag. For­tíðin er eins og hún var, og þegar hún er rifjuð upp á að segja hverja sögu eins og hún gekk fyrir sig. Síst á að skoða for­tíðina með augum rétt­trúnaðar og púrítan­isma og fitja stöðugt upp á nefið og þurrka út stað­reyndir af því þær henta ekki hug­mynda­fræði við­komandi.