Sæl Steinunn Ólína

Það er að bera í bakkafullan lækinn að svara skoðanapistli þínum frá 1. nóvember. Það hafa Freyja Haraldsdóttir og ritstjórn vefritsins Knúz gert afbragðsvel, auk tæplega 400 manna hóps sem undirritaði svarbréf til þín á vef Fréttablaðsins, og er sá hópur enn að vaxa þegar þetta er ritað í einum magnaðasta samstöðugjörningi sem sést hefur í íslensku athugasemdakerfi (ég tek hattinn ofan fyrir ykkur).

Það eru þó nokkrar rangfærslur í skrifum þínum sem ég tel mikilvægt að ég leiðrétti sjálf, ekki síst í framhaldspistli þínum frá 4. nóvember, þótt mér sé raunar á móti skapi að fóðra fjölmiðla á fleiri fréttum um þetta mál.

Þér er ég greinilega mjög hugleikin, Steinunn Ólína, og þá sérstaklega nauðgun sem ég varð fyrir þegar ég var á barnsaldri, eða 16 ára gömul. Gerandi minn, sem þá var átján ára, hefur játað þann verknað fyrir alþjóð. Þú vilt hlífa honum við því að vera kallaður nauðgari og berð hann saman við „þjófóttan smákrakka“, eins og gróft kynferðisofbeldi sé á einhvern hátt sambærilegt við að stela tyggjói úr sjoppu. Þetta er svo fjarstæðukennt að það dæmir sig sjálft.

Þá heldur þú því fram að aðalatvinna mín síðastliðin ár hafi verið við „markaðssetningu á vitundarvakningum um kynferðisofbeldi“, en hið rétta er að ég hef mest starfað við fræðslu, t.d. með gerð forvarnar- og fræðsluefnis fyrir yfirvöld, auk þess að sinna menntun barna um kynfrelsi þeirra og sjálfsákvörðunarrétt. Alvarlegasta rangfærslan í skrifum þínum vegur gróflega að mínum starfsheiðri, en það er þegar þú heldur því fram að í þeirri vinnu hafi ég kennt börnum óljósar skilgreiningar á ofbeldi sem „mun í lengdina mynda gjá á milli kynja, auka hatursorðræðu og sundra fólki,“ að þínu mati. Sem betur fer er auðvelt að hrekja þessa fullyrðingu þína því í öllu mínu fræðsluefni eru orðskýringar, þar sem skilgreiningar á ofbeldi eru byggðar á lögum og/eða nýjustu útgáfu íslensku orðabókarinnar. Þetta má sjá í fræðslumyndinni Fáðu já (á mínútu 07:52 og í meðfylgjandi kennsluleiðbeiningum á bls. 9), fræðslumyndinni Stattu með þér (víða í myndinni sjálfri og í meðfylgjandi kennsluleiðbeiningum á bls. 8-9) og í stuttmyndinni Myndin af mér (í kennsluleiðbeiningum á bls. 4 og 14, auk þess á www.myndinafmer.com). Það „heilmikla ógagn“ sem þú vilt því eigna mér að hafa valdið á sér því engar stoðir í raunveruleikanum, enda er allt mitt fræðsluefni unnið með það að markmiði að fræða en ekki hræða.

Á miðvikudaginn í síðustu viku setti ég bæturnar, sem Atla Rafni Sigurðarsyni leikara voru dæmdar fyrir uppsögn sem héraðsdómur taldi ólögmæta, í samhengi við bætur sem kynferðisbrotaþolum er almennt úthlutað af hálfu dómstóla, enda eru þær yfirleitt margfalt lægri. Ég skrifaði færslu á Facebook þar sem ég velti þessu fyrir mér, en ég var ekki ein um það því sjö réttargæslumenn tóku sig saman og birtu greinina „Er æra þess sem missir atvinnu meira virði en frelsi þess sem brotið er á kynferðislega?“ og var ein mest lesna grein landsins. Hvorki ég né réttargæslumennirnir nefndum fólk á nafn í vangaveltum okkar, því þær snerust ekki um einstakar manneskjur, heldur réttlætið sem þeim var úthlutað. Mál Atla Rafns Sigurðarsonar gerðist nefnilega ekki í lofttæmi, það gerðist í réttarkerfi sem við eigum öll. Hvernig mat dómstólar leggja á skaða eða miska fólks er sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar og full ástæða til að ræða það.

Sjálf hef ég hvergi staðhæft um sekt eða sakleysi Atla Rafns varðandi þær ásakanir sem lágu til grundvallar brottreksturs hans úr Borgarleikhúsinu. Til þess hef ég hvorki forsendur né leyfi. Mál hans vakti hins vegar þarfa umræðu um vinnurétt, og rifjaði ég af þeim sökum upp nokkrar metoo-frásagnir frá leikkonum sem höfðu líka orðið fyrir því að réttur þeirra var vanvirtur.

Þær frásagnir eru mér í fersku minni, en eins og þér er kunnugt um var ég ein þeirra sem hélt utan um #metoo-hóp kvenna í sviðslistum og kvikmyndagerð. Þegar mest á mæddi vorum við níu talsins sem vorum í stjórn þess hóps, þar á meðal starfandi sviðslista- og kvikmyndagerðarkonur sem fóru í fjölmiðlaviðtöl, smíðuðu vefsvæði fyrir frásagnirnar, skipulögðu upplestur í Borgarleikhúsinu, svöruðu fyrirspurnum og stóðu vaktina af miklum sóma, sem afsannar þá rangfærslu þína að þar hafi ég verið ein að verki. Sjálf varstu virkur meðlimur, tókst þátt í umræðum og birtir yfirlýsingu hópsins, ásamt tugum frásagna af ofbeldi og valdníðslu, í Kvennablaðinu sem þú ritstýrir. Þú hefur því allar forsendur til að vita hvaðan þær frásagnir, sem ég vitnaði til í áðurnefndri fésbókarfærslu, koma. Frásögnin sem þér blöskrar mest er númer 71 og var birt þann 11. janúar 2018, rituð af leikkonu sem var beitt þrýstingi til að leika í gamansýningu með dáið barn í maganum, þrátt fyrir að hafa gert yfirmönnum sínum það ljóst og útskýrt heilsufarslegu áhættuna sem því fylgdi. Frásögnina er ennþá að finna í hópnum, sem og aðrar reynslusögur sem ég vitnaði í, en þú vilt kalla „þjóðsögur og ævintýri.“ Ég skil vel þá tilhneigingu að vilja afneita sárum sannleika, eða reyna að flokka hann sem uppspuna. Ef það er ekki hægt að afneita honum skil ég líka að næsta skref sé að ráðast að trúverðugleika þess sem færir hann í orð. Það er löng hefð fyrir því að skjóta sendiboðann, en sú aðferð hefur þó aldrei upprætt nokkurn vanda.

Í september síðastliðnum skrifaðir þú hugleiðingu sem fór víða í fjölmiðlum og kallaðir eftir því að þær konur, sem standa að baki ásökunum á hendur Atla Rafni um kynferðislega áreitni, stígi fram opinberlega og nafngreini hann sem geranda sinn. Annað væri ó­líðandi og met­oo-byltingunni til háðungar að þínu mati, auk þess sem þú hélst því fram að konurnar ættu „án ótta og kvíða að geta komið fram nú undir nafni og staðið með sjálfum sér.“ Nýlegir dómar sýna þó að fólki er síður en svo óhætt að tjá upplifun sína af kynferðisofbeldi, og má ekki einu sinni túlka fréttaflutning af slíkum málum, án þess að eiga yfir höfði sér dóm fyrir ærumeiðingar. Þú greinir frá því í pistli þínum að sjálf sértu brotaþoli kynferðisofbeldis, en mér þykir leitt að við skulum deila jafn erfiðri lífsreynslu. Teljir þú að það sé auðsótt mál að nefna geranda sinn á nafn opinberlega er þér frjálst að gera slíkt um þinn eigin geranda, og vera þannig sjálfri þér samkvæm.

Sjálf hef ég dregið Tom Stranger, sem nauðgaði mér, til ábyrgðar með opinberum hætti í verkefni sem var sameiginlegt framlag okkar til umræðunnar um kynferðisofbeldi. Það kallar þú hins vegar „sjálfsupphafinn“, „niðurlægjandi“, „drottnunargjarnan“ og „hefndarfýsinn“ gjörning af minni hálfu sem lýsi „ótrúlegri grimmd“. Þannig fordæmir þú bæði brotaþola sem kjósa nafnleynd, auk þeirra sem rjúfa þögnina. Í fljótu bragðist virðist ekki vera hægt að gera rétt í þínum bókum, hvort sem sagt er frá eða þagað. Í ofanálag eru þau hatrömmu lýsingarorð sem þú lætur frá þér um reynslu mína af kynferðisofbeldi ekki eignuð gerandanum fyrir að hafa nauðgað - heldur þolandanum fyrir að hafa greint frá því. Málflutningur þinn afhjúpar þannig, svart á hvítu, hvar þú leggur ábyrgðina á kynferðisofbeldi og hvern þú telur að fordæma beri þegar slíkt á sér stað. Það er einmitt svona þolendaskömmun sem veldur því að þolendur veigra sér við að segja frá. Sé þér alvara með hvatningu þinni til brotaþola um að stíga fram og rjúfa þögn sína mæli ég með að þú leggir þessa orðræðu niður hið snarasta.

Að lokum tekurðu fram að ég þurfi ekki á velþóknun þinni að halda. Þar erum við sammála. Ég hef fengið alla þá viðurkenningu sem ég þarf í gegnum mælingar á árangri míns starfs. Í könnun sem Gallup framkvæmdi kom fram að 70% allra tíundu bekkinga á landinu sögðust skilja betur hvað kynferðislegt samþykki þýðir eftir að hafa horft á fræðslumynd mína Fáðu já. Upplýst ungmenni eru líklegri til að virða mörk annarra og þannig komum við í veg fyrir ofbeldi, sem er fyrsta skrefið í átt til betra samfélags. Að því markmiði mun ég halda áfram að vinna af sömu gleði og heilindum og ég hef gert hingað til.

Virðingarfyllst,

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir