Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum sem eru að Ísland verði kolefnishlutlaust og að alfarið verði hætt að nota jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Verkefnið er stórt og kallar á samdrátt í losun um 1,3 milljónir tonna CO2 á beinni ábyrgð Íslands fyrir árið 2030. Á meðfylgjandi skýringarmynd sést hvert viðfangsefnið er þ.e. á hvaða sviðum við þurfum að draga úr losun til að mæta okkar skuldbindingum.

Markmiðin kalla á skýra sýn og að ný nálgun verði viðhöfð sem byggi aukinni áherslu á loftslagshagstjórn og forgangsröðun í þágu loftslagsmarkmiða á öllum sviðum samfélagsins. Efla þarf samstarf stjórnvalda, atvinnulífs, sveitarfélaga og annara hagsmunaaðila til að ná betri árangri á skemmri tíma.

Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum var fyrst sett fram árið 2018 og síðan árið 2020. Nú er komið að næsta áfanga, sem er að íslenskt atvinnulíf og sveitarfélög stígi inn í aðgerðaáætlunina af fullum þunga. Ég tel nauðsynlegt að í næstu aðgerðaáætlun Íslands verði athyglinni sérstaklega beint að þrem megin sviðum, í fyrsta lagi geirasamtali og aðgerðum atvinnulífsins, í öðru lagi eflingu hringrásarhagkerfisins og í þriðja lagi orkuskiptum.

Fyrst að geirasamtalinu

Eitt helsta áherslumál mitt sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er að efla þátttöku íslensks atvinnulífs í mótun og framkvæmd loftslagsaðgerða. Íslenskt atvinnulíf hefur látið þetta málefni sig varða og mörg fyrirtæki þegar komin á fleygiferð. Verkefnið fram undan er að allir geirar atvinnulífsins setji fram sín eigin markmið og aðgerðir. Niðurstaða geiravinnunnar verður hryggjarstykkið í uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Á sama tíma og við vinnum markvisst í geirasamtalinu að því að ná loftslagsmarkmiðum 2030 þá leggjum við grunninn að afar mikilvægri stefnumótunarvinnu sem snýr að markmiði um kolefnishlutleysi.

Þá að hringrásarhagkerfinu

Loftslagsmarkmiðum verður ekki náð nema við færumst úr línulegu hagkerfi í hringrásarhagkerfi. Tryggja þarf að allar auðlindir sem eru nýttar verði að verðmætum og nýsköpun og frumkvöðlastarf í atvinnulífinu leikur þar lykilhlutverk. Samkvæmt nýrri rannsókn er hráefnisnotkun í hagkerfi Íslands u.þ.b. 8,5% hringræn. Það er svipað hlutfall og í hagkerfi heimsins alls. Þegar ég horfi til þess að umbreyta þurfi yfir 90% af hagkerfi Íslands og alls heimsins úr línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi, þá sé ég fyrst og fremst tækifæri. Fyrir utan jákvæð áhrif á loft, jörð og haf, fylgja svo umfangsmikilli breytingu gríðarlega spennandi tækifæri í nýsköpun, atvinnusköpun og forskot á samkeppnismarkaði.

Ég tel mjög mikilvægt að innleiðing hringrásarhagkerfis hér á landi gangi sem hraðast fyrir sig. Á mörgum sviðum er þörf á markvissum aðgerðum sem bæta úrgangsstjórnun og hvetja til hugarfarsbreytingar og nýsköpunar í sambandi við hráefnisnotkun. Í því ljósi hef ég skipað starfshóp sem hefur það verkefni að leita leiða til að flýta eins og kostur er innleiðingu hringrásarhagkerfis, auka samstarf ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila við innleiðinguna, tryggja að atvinnulífið verði leiðandi á þessu sviði og ýti undir nýsköpun hér á landi.

Orkumál og orkuskipti

Ég tel að það hafi verið mikið framfaraskref við myndun ríkisstjórnarinnar að setja saman í eitt ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmál enda er ófært að leysa loftslagsmálin án þess að orkumálin séu tekin með í reikninginn.

Ég hef lagt mig fram um að setja af stað fjölmörg verkefni undir áherslum orkustefnu og þá sérstaklega varðandi orkuöryggi og orkuskipti. Ég lét vinna svokallaða grænbók um stöðu og áskoranir í orkumálum, sem er góður grunnur til að byggja á. Kyrrstaðan í virkjanamálum hefur verið rofin með afgreiðslu Alþingis á rammaáætlun  og liðkað hefur verið fyrir aflaukningu virkjana með því að undanskilja þær frá ferli rammaáætlunar. Nú er unnið að því að efla orkuöryggi á öllum sviðum. Þá er nauðsynlegt að tryggja framboð jarðvarma til hitaveitna, nú og til framtíðar litið, og unnið er að mikilvægum verkefnum þar að lútandi. Stefnumótun og regluverk fyrir vindorku, hvort sem hún er á landi eða á hafi, er í vinnslu og mótun. Það er sem betur fer mikil gróska og gerjun á þessu sviði sem mér fellur vel að styðja við.

Markmið stjórnvalda í loftslagsmálum kalla á orkuskipti bæði í samgöngum á landi, varðandi skipaflotann og í flugsamgöngum. Ljóst er að við það að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti náum við miklum samdrætti í losun CO2. Í dag er staðan sú að öll lönd í Evrópu leita nú ljósum logum að orku til að keyra í gegn sín orkuskipti. Vandinn er að þau eiga fæst tök á því að afla þeirrar orku með eigin auðlindum. Þess vegna hafa margir erlendir aðilar rennt hýru auga til Íslands í þeim tilgangi að fá aðgang að okkar auðlindum til að flytja þær út og nýta í orkuskipti erlendis.

Í mínum huga er ljóst að við verðum að forgangsraða orkuöflunaraðgerðum í þágu okkar eigin orkuskipta. Aðeins þannig náum við markmiðum okkar í loftslagsmálum og aðeins þannig getum við orðið sjálfum okkur nóg. Þróun síðustu vikna á alþjóðavettvangi ætti að sýna okkur svart á hvítu hversu mikilvægt það er að standa á eigin fótum í orkumálum.

Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Við þurfum að hafa okkur öll við til að ná þeim markmiðum. Þetta er ekki barátta eins ráðuneytis eða eins ráðherra. Í þessari baráttu þurfa allir að leggjast á eitt.

Höfundur er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra