Salan á bréfunum í Íslandsbanka gat aldrei farið öðruvísi. Hún er í fullkominni samfellu við stjórnmálaferil og stjórnmálaáherslur fjármálaráðherra, sem hefur staðið óslitið frá árinu 2003. Bráðum tuttugu ár. Og á þessum næstum tuttugu árum hefur hann fengið margendurnýjað umboð frá almenningi. Fjármálaráðherra er nefnilega nokkuð skýr og stefnufastur stjórnmálamaður. Hann predikar ekki vinstri lausnir – ekki hefur hann mikinn áhuga á hægra frelsinu. Utanríkismál eru tæplega hans tebolli og ennþá er lítil gróðavon í umhverfismálum. Hann einfaldlega stendur fyrir íslenskan snúning.

Ábyrgðin liggur ekki síst hjá samstarfsflokkum ráðherrans. Hinum tveimur íhaldsflokkunum sem nú keppast við að segja tvennt; þetta hafi ekki verið eins og þau skildu málið og þetta muni alls ekki hafa afleiðingar fyrir þeirra flokka – já eða stjórnarsamstarfið. Það er rangt.

Þetta hefur haft og mun hafa áhrif á Sjálfstæðisflokkinn sem hefur misst alla pólitíska hugmyndaskerpu síðustu þrettán ár. Flokkurinn leiðir enga pólitíska umræðu sem til framtíðar lítur – í staðinn er formaðurinn og fjármálaráðherrann plötusnúður í fámennri veislu útvalinna – þar sem léttur snúningur er tekinn.

Til er saga af skjaldböku og sporðdreka. Þegar sporðdrekinn hafði talað skjaldbökuna til og fengið að sitja á baki hennar yfir vatnsföllin stakk sporðdrekinn skjaldbökuna. Þegar hún spurði í forundran hvers vegna drekinn hefði gert þetta svaraði hann því til að hann hefði bara verið að þjóna lund sinni – hann gæti ekki annað. Til frásagnar eru mismunandi útgáfur af þessari sögu. Stundum drukknar sporðdrekinn með skjaldbökunni og stundum fer hann sína leið – leið drekans.