Það hefur verið í senn átakanlegt og aðdáunarvert að fylgjast með atburðarás undanfarinna vikna í Íran. Aðdáunarvert vegna framgöngu friðsamra mótmælenda sem krefjast sjálfsagðra mannréttinda, ekki síst fyrir konur og stúlkur, þrátt fyrir að eiga á hættu grimmilega refsingu. Átakanlegt vegna viðbragða yfirvalda í landinu sem hafa barið þessi mótmæli niður af fádæma hörku og hrottaskap. Mannréttindasamtök telja að hartnær fjögur hundruð mótmælendur hafi verið drepnir. Um fjörutíu börn eru þar á meðal. Hátt í sautján þúsund hafa verið hneppt í varðhald. Fimm eiga yfir höfði sér dauðadóm í tengslum við mótmælin.

Í dag fjallar mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna um alvarlega stöðu mannréttinda í Íran á sérstökum aukafundi sem er haldinn að beiðni Þýskalands og Íslands. Af því tilefni verðum við Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, viðstaddar umræðuna í Genf til að leita stuðnings ráðsins við að Sameinuðu þjóðirnar hefji þegar í stað markvissa söfnun á upplýsingum og gögnum um yfirstandandi atburði og leggi þannig betri grundvöll að því að hægt verði að draga gerendur til ábyrgðar.

Öllum ríkjum ber skylda til að virða og vernda mannréttindi borgara sinna. Þess vegna er svo mikilvægt að ríki heims tali skýrri röddu og sýni festu í málinu. Það var ekki sjálfgefið að mannréttindaráðið féllist á að halda sérstakan aukafund um málið en það gefur vonandi fyrirheit um að ráðið sendi í dag frá sér afdráttarlaus skilaboð um að framganga klerkastjórnarinnar verði ekki með nokkru móti liðin.

Frá því að þessi mikla mótmælahrina upphófst í kjölfar dauða Jina Mahsa Amini, hefur Ísland ekki látið sitt eftir liggja. Auk fundarins í dag höfum við fordæmt ofbeldi íranskra stjórnvalda gagnvart mótmælendum á vettvangi mannréttindanefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og mannréttindaráðsins. Þar skoruðum við jafnframt á Íran að standa fyrir óháðri rannsókn á dauða Amini og virða grundvallarmannréttindi fólks. Við höfum líka tekið þátt í þvingunaraðgerðum Evrópusambandsins gagnvart einstaklingum og stofnunum sem ýmist eru talin bera ábyrgð á dauða Amini eða ofbeldi gegn friðsömum mótmælendum í landinu.

Gagnrýni Íslands vegna mannréttindaástandsins í Íran nær þó lengra aftur. Þannig er Ísland í forystu fyrir árlegri ályktun um ástand mannréttinda í Íran á vettvangi mannréttindaráðsins til að tryggja áframhaldandi umboð sérstaks skýrslugjafa um málefni Írans. Sá er meðal margra sérstakra fulltrúa mannréttindaráðsins sem fordæmt hafa aðgerðir íranskra stjórnvalda og kallað eftir óháðri rannsókn og að þau sem beri ábyrgð verði sótt til saka. Við erum líka meðflytjendur árlegrar ályktunar um mannréttindamál í Íran sem verður tekin fyrir á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í desember.

Mál Jina Mahsa Amini og ofbeldi klerkastjórnarinnar í Íran gagnvart mótmælendum hefur hvarvetna vakið hörð viðbrögð. Ég hef svo sannarlega orðið þess áskynja, bæði hér heima og erlendis. Og skyldi engan undra.

Allur þorri fólks fyllist án efa bæði sorg og reiði yfir því hvernig frelsi fólks til að haga sínu lífi og kröfur þess um að stjórnvöld virði sjálfsögð mannréttindi eru fótum troðin. Við verðum að geta dregið þau til ábyrgðar sem staðið hafa fyrir morðum, limlestingum og frelsissviptingum á saklausu fólki. Ályktun mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í dag yrði mikilvægt skref í þá átt.