Co­vid-19 far­aldurinn sýnir okkur hversu hnatt­væddur heimurinn er orðinn. Hann hefur einnig sýnt okkur fram á það, hvað sú al­þjóð­lega sam­vinna sem komið hefur verið á fót til að takast á við hnatt­rænar á­skoranir á borð við þennan far­aldur, er brot­hætt. Í­halds­öfl hvarvetna hafa nýtt þetta tæki­færi til að vega að al­þjóð­legri sam­vinnu, loka landa­mærum og herða tök sín á borgurunum. Því er mikil­vægara nú en um ára­tuga­skeið að al­þjóða­sinnar láti til sín taka og standi vörð um það sem hefur á­unnist frá lokum síðari heims­styrj­aldar í þessum efnum.

Lykillinn að far­sæld Ís­lendinga felst í nánum sam­skiptum við aðrar þjóðir, ekki síst innan Evrópu. EES-samningurinn er grund­vallar­at­riði í því sam­hengi. Hann tekur þó ekki til mikil­vægra sviða, svo sem land­búnaðar og byggða­mála, gefur ekki færi á upp­töku evru og setur EFTA-ríkin í stöðu þiggj­enda í Evrópu­sam­starfinu í stað þess að vera jafn­gildur og burðugur aðili að sam­eigin­legum á­kvörðunum. Í því skyni að taka mögu­legt skref fram á við í þessu sam­starfi Evrópu­þjóða, er brýnt að kanna hug þjóðarinnar um að taka upp aðildar­við­ræður við Evrópu­sam­bandið á nýjan leik.

Ýmis úr­lausnar­efni nú­tímans verða ekki leyst nema á al­þjóða­vett­vangi. Lofts­lags­váin er aug­ljóst dæmi. Mikil­vægt er að Ís­land taki frum­kvæði í þeim mála­flokki á al­þjóða­vísu, þar eð við getum, sökum þekkingar okkar á sjálf­bærri orku­fram­leiðslu og líf­ríki hafsins, verið leiðandi á þeim vett­vangi al­þjóð­lega og verið fyrir­mynd fyrir aðra sem vilja feta þann veg.

Fram­tíð mann­kyns byggist á opnum og for­dóma­lausum al­þjóða­sam­skiptum. Þess vegna er mikil­vægt að Ís­land, sem býr við svo mikil for­réttindi í al­þjóð­legu sam­hengi, vinni að jöfnuði og mann­réttinda­málum á al­þjóð­legum vett­vangi og sé á­vallt mál­svari friðar, mann­úðar, jafn­réttis og lýð­ræðis. Sem aðili að Evrópu­sam­bandinu myndi Ís­land marg­falda slag­kraft sinn í þessum efnum.

Lofts­lags­váin er aug­ljóst dæmi. Mikil­vægt er að Ís­land taki frum­kvæði í þeim mála­flokki á al­þjóða­vísu

Ís­land á að beita rödd sinni gegn mann­réttinda­brotum og taka for­ystu í al­þjóð­legri bar­áttu gegn for­dómum, öfgum og mis­munun. Við eigum að styðja við réttinda­bar­áttu við­kvæmra hópa á al­þjóða­vísu.

Al­þjóð­leg þróunar­sam­vinna er ein af megin­stoðum ís­lenskrar utan­ríkis­stefnu. Ís­lendingum ber að leggja ríku­lega af mörkum til að taka þátt í því al­þjóð­lega verk­efni að draga úr hungri, fá­tækt, barna­dauða og fé­lags­legu rang­læti og stuðla að friði. Sam­fylkingin leggur á­herslu á að fram­lög Ís­lands til þróunar­sam­vinnu nái við­miðum SÞ um 0,7% af vergum þjóðar­tekjum á næsta kjör­tíma­bili og vill stefna að því að í lok þess verði það sam­bæri­legt við það sem gerist á hinum Norður­löndunum.

Sam­fylkingin lítur á menntun, jafn­réttis­mál, mál­efni barna og við­kvæmra hópa og heil­brigðis­mál sem mikil­vægan þátt þróunar­sam­vinnu. Leggja þarf sér­staka á­herslu á að efla konur til menntunar, at­vinnu og sjálf­stæðis um allan heim. For­gangs­röðun vinnu og fjár­magns þarf að beita í þágu bar­áttu gegn fá­tækt og man­sali á­samt auknum mann­réttindum barna, kvenna og hin­segin fólks.

Sam­fylkingin telur að Ís­land hafi mikil­vægu hlut­verki að gegna á al­þjóða­vett­vangi. Við leggjum á­herslu á að beita okkur með ofan­greindum hætti á næsta kjör­tíma­bili.

Höfundur er alþjóðastjórnmála- fræðingur og skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður.