Ís­lenska sumarið er komið – og komi það fagnandi. Merki þess sjást í GoreTex al­klæðnaði á Lauga­vegi (verslunar­götunni, ekki göngu­leiðinni), skorti á starfs­fólki í hótel- og veitinga­geiranum og fjölda bíla­leigu­bíla á þjóð­vegum landsins.

Þjóð­vegirnir flytja ferða­menn ekki að­eins á milli Gull­foss, Geysis, Reynis­fjöru og Jökuls­ár­lóns; þeir kynna þá fyrir ís­lensku sauð­kindinni. Af­leiðingar þessara kynna geta stundum verið al­var­legar. Fáir eru á móti lausa­göngu sauð­fjár en gagn­legt væri að bíla­leigur bentu ferða­mönnum á að sauð­kindin er í for­gangi þegar kemur að ís­lenskum um­ferðar­reglum. Í leiðinni mætti nefna aðra sér­ís­lenska um­ferðar­reglu um for­gang bíla á innri ak­grein hring­torga.

Lausa­ganga er al­mennt holl, hvort sem um ræðir sauð­fé eða mann­fólk. Þegar kemur að börnunum okkar hafa upp­eldis­að­ferðirnar breyst það mikið að það sem mér fannst eðli­legt þegar ég var krakki gæti í dag flokkast sem van­ræksla. Ég er samt á því að lausa­ganga mín hafi kennt mér meira en há­skóla­gráðurnar sem ég kom mér upp að henni lokinni. Fjöldi upp­eldis­fræðinga hefur enda gert saman­burðar­rann­sóknir á ó­líkum upp­eldis­að­ferðum og þar er lausa­ganga barna talin gera þau lausna­miðuð, auka sköpunar­kraft, styrkja mót­lætis­þol og byggja upp sjálfs­traust. Við eigum hins vegar fjölda sorg­legra dæma sem enduðu með stór­slysum og jafn­vel dauða.

Í þessu eins og mörgu öðru er meðal­vegurinn bestur. Við full­orða fólkið ættum að byrja á okkur sjálfum, nota sumarið í anda Mugi­son og stinga af með krökkunum. Kveðja stress og skjáinn, hoppa út í bláinn, syngja lag, spila spil, þá er gott að vera til. Skellum okkur saman í spegil­sléttan fjörð, smá fjöl­skyldu­hjörð, saman í lausa­göngu.