Íslenska sumarið er komið – og komi það fagnandi. Merki þess sjást í GoreTex alklæðnaði á Laugavegi (verslunargötunni, ekki gönguleiðinni), skorti á starfsfólki í hótel- og veitingageiranum og fjölda bílaleigubíla á þjóðvegum landsins.
Þjóðvegirnir flytja ferðamenn ekki aðeins á milli Gullfoss, Geysis, Reynisfjöru og Jökulsárlóns; þeir kynna þá fyrir íslensku sauðkindinni. Afleiðingar þessara kynna geta stundum verið alvarlegar. Fáir eru á móti lausagöngu sauðfjár en gagnlegt væri að bílaleigur bentu ferðamönnum á að sauðkindin er í forgangi þegar kemur að íslenskum umferðarreglum. Í leiðinni mætti nefna aðra séríslenska umferðarreglu um forgang bíla á innri akgrein hringtorga.
Lausaganga er almennt holl, hvort sem um ræðir sauðfé eða mannfólk. Þegar kemur að börnunum okkar hafa uppeldisaðferðirnar breyst það mikið að það sem mér fannst eðlilegt þegar ég var krakki gæti í dag flokkast sem vanræksla. Ég er samt á því að lausaganga mín hafi kennt mér meira en háskólagráðurnar sem ég kom mér upp að henni lokinni. Fjöldi uppeldisfræðinga hefur enda gert samanburðarrannsóknir á ólíkum uppeldisaðferðum og þar er lausaganga barna talin gera þau lausnamiðuð, auka sköpunarkraft, styrkja mótlætisþol og byggja upp sjálfstraust. Við eigum hins vegar fjölda sorglegra dæma sem enduðu með stórslysum og jafnvel dauða.
Í þessu eins og mörgu öðru er meðalvegurinn bestur. Við fullorða fólkið ættum að byrja á okkur sjálfum, nota sumarið í anda Mugison og stinga af með krökkunum. Kveðja stress og skjáinn, hoppa út í bláinn, syngja lag, spila spil, þá er gott að vera til. Skellum okkur saman í spegilsléttan fjörð, smá fjölskylduhjörð, saman í lausagöngu.