Fyrir fimm árum fóru fram mótmæli í miðbæ Waltham Forest hverfisins í Lundúnum. Mótmælendur báru líkkistu um götur með áletruninni „hvíl í friði Walthamstow“. Samkvæmt hverfisdagblaðinu „kom til ryskinga þar sem fólk mundaði regnhlífar“. Ástæðan var ákvörðun hverfisráðsins um að taka hagsmuni gangandi vegfarenda og hjólreiðafólks fram yfir hagsmuni ökumanna og loka götum miðbæjarins fyrir bílaumferð.

Framkvæmdin var hugarfóstur Clyde Loakes, aðstoðarhverfisstjóra hverfisins. Fyrst um sinn hlaut hann litlar þakkir fyrir. Fólk hreytti í hann fúkyrðum á götum úti. En nú er öldin önnur.

Nýverið gekk blaðamaður dagblaðsins The Times með Loakes um miðbæ Waltham Forest. „Sjáðu,“ sagði Loakes hróðugur og benti á verslanir fullar af fólki, þétt setin kaffihús og götur iðandi af mannlífi þar sem fólk heilsaðist og stoppaði jafnvel til að spjalla. „Hver vill ekki búa svona?“ spurði Loakes.

„15 mínútna nágrennið“ er hugmynd sem ryður sér nú til rúms víða um heim. Er markmiðið að íbúi hverfis þurfi aldrei að ferðast lengra frá heimili sínu en 15 mínútur – gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum – til að sækja sér nauðsynlega þjónustu á borð við verslanir, skóla, heilbrigðisþjónustu og líkamsrækt.

Sóttvarnaaðgerðir vegna COVID-19 faraldursins eiga vafalítið þátt í hversu hratt hugmyndin sækir í sig veðrið þessa dagana. Um heim allan eyðir fólk nú meiri tíma í nærumhverfi sínu en það er vant. Borgarstjóri Parísar, Anne Hidalgo, lofaði Parísarbúum „15 mínútna hverfum“ í nýafstaðinni kosningabaráttu, en hún var endurkjörin borgarstjóri í júní. Skipulagsyfirvöld og ráðafólk alls staðar að úr heiminum flykkist til Waltham Forest til að skoða miðbæinn og leita ráða hjá Clyde Loakes um hvernig bæta megi lífsskilyrði í andlausum, umferðarþungum hverfum.

Hjarta hvers samfélags

Auglýsing athafnamannsins Bolla Kristinssonar, sem löngum er kenndur við Verslunina 17, vakti athygli á dögunum. Í opnuauglýsingu sem birtist í öllum helstu dagblöðum landsins undir yfirskriftinni „borgarstjórann burt“ gagnrýnir hann borgaryfirvöld fyrir að hafa breytt Laugaveginum í „draugagötu“. Segir Bolli orsökina vera „heft aðgengi með lokunum gatna og fækkun bílastæða“.

Ekki virðast þó allir deila óánægju Bolla. Samkvæmt nýrri könnun sem birt var í vikunni eru 67,2 prósent Reykvíkinga jákvæð gagnvart göngugötum, þremur prósentum meira en í fyrra. Alls eru 82 prósent þeirra sem heimsækja göngugötur vikulega eða oftar jákvæð gagnvart slíkum götum.

Bílablæti hefur lengi verið þungamiðja borgarskipulags. Síðari hluta 20. aldar virtist forgangsatriðið ávallt vera að koma bifreiðum frá stað A til staðar B með sem skemmstum hætti. Borgir voru slægðar, heilu hverfin jöfnuð við jörðu, fólk látið víkja, hjarta hvers samfélags fjarlægt fyrir umferðaræð í gegnum það. Allt svo skafa mætti nokkrar mínútur af bíltúr ökumanns.

Fólk gerir nú í auknum mæli kröfu til nærumhverfis síns. Fyrrnefnd könnun um viðhorf til göngugatna í Reykjavík sýnir að því nær göngugötu sem fólk býr því jákvæðara er það í garð þeirra. Þeir sem búa í miðborginni eru jákvæðastir en úthverfin eru neikvæðust. Neikvæðastir eru Grafarvogsbúar.

Svo skemmtilega vill til að Bolli Kristinsson er einmitt gangandi (eða kannski akandi) sönnun þessarar niðurstöðu. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, svaraði gagnrýni Bolla. Benti hann meðal annars á að Bolli byggi ef til vill helst til langt frá Laugavegi til að verða vitni að lífinu í götunni. Á daginn kemur að Bolli, einn ákafasti andstæðingur göngugatna sem við Íslendingar eigum, býr eins langt frá göngugötum miðborgarinnar og hugsast getur. Nei, ekki í Grafarvogi – heldur á Spáni.