Rétt eins og ís­lenska heil­brigðis­kerfið varði lands­menn í heims­far­aldrinum sem nú virðist loks á undan­haldi, er al­menningur til­búinn að standa vörð um heil­brigðis­kerfið sem hefur reynst okkur svo vel. Ný skoðana­könnun sýnir svo ekki verður um villst að mikill meiri­hluti lands­manna vill heil­brigðis­kerfi sem rekið er af hinu opin­bera fyrir skatt­fé okkar allra og hafnar aukinni einka­væðingu í heil­brigðis­kerfinu.

BSRB hefur í gegnum tíðina látið gera reglu­legar skoðana­kannanir á af­stöðu al­mennings til heil­brigðis­kerfisins með Rúnari Vil­hjálms­syni prófessor. Niður­stöðurnar úr nýjustu könnuninni voru gerðar opin­berar fyrir viku og eru af­gerandi. Átta af hverjum tíu lands­mönnum vilja að það sé fyrst og fremst hið opin­bera sem reki sjúkra­húsin, sjö af tíu vilja heilsu­gæsluna í opin­berum rekstri og sex af tíu eru þeirrar skoðunar þegar kemur að hjúkrunar­heimilum. Að­eins ör­lítið hlut­fall, vel innan við fimm prósent, vill að þessi starf­semi sé fyrst og fremst á hendi einka­aðila.

Við vitum hvað við höfum í opin­beru heil­brigðis­kerfi og sporin hræða hjá þeim þjóðum sem gengið hafa lengra í einka­væðingu. Þrátt fyrir ein­dreginn þjóðar­vilja er mikill þrýstingur á stjórn­völd að einka­væða meira. Síðasta dæmið um slíka einka­væðingu í ó­þökk al­mennings er yfir­færsla öldrunar­þjónustu á Akur­eyri til einka­aðila sem á að spara peninga með ein­hverjum ó­skiljan­legum hætti sem enginn hefur getað út­skýrt.

Við verðum að draga línu í sandinn og hafna al­farið frekari einka­væðingu í heil­brigðis­kerfinu. Einka­fram­kvæmd er ekki töfra­orð sem lækkar kostnað. Eins og Rúnar Vil­hjálms­son prófessor benti á í erindi á opnum fundi BSRB eykur einka­fram­kvæmd al­mennt kostnað vegna kostnaðar­liða á borð við stjórnunar­kostnað, arð­greiðslur og aukins kostnaðar eftir­lits­aðila.

Í stað þess að í­huga frekari einka­væðingu í heil­brigðis­kerfinu eigum við að hlusta á vilja lands­manna, efla opin­bera heil­brigðis­kerfið og draga úr þeirri einka­væðingu sem þegar er orðin allt of mikil.