Tímarnir sem við lifum eru ein­stak­lega erfiðir fyrir þá sem telja sig hafa svo­kallað pólitískt nef. Ég er þeirra á meðal. Ég hef stundum lýst því yfir fjálg­lega í lokuðum hópum að ég búi að á­kaf­lega þef­næmu nefi. Í krafti nefsins hef ég oft talið það skyldu mínu að deila með öðrum, sem ekki skarta slíku nefi, hvernig vindar blása, hvernig kosningar munu fara og hvað sé í raun að frétta. Oft þykir mér veru­lega gaman að skoða innra með mér hvert nefið leiðir mig, hvaða á­lyktanir það fær mig til að draga og ég keppist við að orða niður­stöður nefsins innan fjöl­skyldu og annars staðar af sann­færingu, en hæfi­legu kappi. Ég lít á mig meira eins og miðil, sem færir um­heiminum skila­boð nefsins.

Það er skemmst frá því að segja að undan­farið hef ég verið ein­stak­lega ó­á­nægður með nefið. Svo visst var nefið til dæmis í að­draganda ný­af­staðinna sveitar­stjórnar­kosninga að ég taldi nánast borð­leggjandi hvernig kosningarnar myndu fara. Ég lét álit mitt ó­hikað í ljós ef tæki­færi gafst. Nefið skynjaði skoðana­kannanir, nam um­ræðuna, lagði mat á aug­lýsingar, kafaði í reynslu­brunn sögunnar, vó og mat fé­lags­sál­fræði­legar til­hneigingar og skilaði á grunni þessara upp­lýsinga veru­lega sann­færandi mati.

Það mat reyndist í veiga­miklum at­riðum rangt. Við hefur tekið nef­skoðun í ein­rúmi. Af hverju lætur nefið svona? Hví ber nefið ekki skyn­bragð á angan tíðar­andans? Er það stíflað? Er Co­vid-19 um að kenna? Af hverju gat nefið ekki einu sinni haft smá rétt fyrir sér varðandi gengi Ís­lands í Euro­vision, en ekki verið full­kom­lega úti á túni? Hver er ég, án nefs?

Til að svara þessum spurningum hef ég neyðst til þess að reiða mig á það sama og ég hef hingað til leyft að ráða svörum mínum varðandi stefnur og strauma sam­tímans, á­stand um­ræðunnar og að­steðjandi svipti­vinda: Nefið. Það kann að hljóma mót­sagna­kennt, en engu öðru leiðar­ljósi get ég fylgt. Betra er slæmt nef en ekkert nef.

Nefið segir mér að tíðar­andinn hafi þróast með þeim hætti að fylgi­spekt kjós­enda við stjórn­mála­flokka hafi minnkað all­veru­lega. Þetta er aug­ljóst. Það þarf ekki nef til að finna þetta. Í annan stað segir nefið mér að miklar sveiflur í fylgi sem áður voru fá­heyrðar eru núna sjálf­sagðar. Í þriðja lagi skynjar nefið að ó­fyrir­sjáan­leikinn hafi vaxið mjög, á þann hátt að at­burðir eða verknaðir sem áður voru taldir aug­ljósar á­stæður til fylgis­minnkunar valda jafn­vel núna fylgis­aukningu og öfugt. Daunn er kannski ekki lengur daunn, heldur angan.

Okkur nef­mönnum gengur því erfið­lega að lykta vel. Liðin er sú tíð að Ís­lendingar völdu sér bensín­stöðvar, bakarí eða mat­vöru­verslanir á grunni flokks­skír­teina. Nú eru kjós­endur meira reiðu­búnir að kjósa það sem þeim sýnist, að breyta til. Kjós­endur máta sig við fólk og nota kannski úti­lokunar­að­ferðir þegar kemur að al­mennri til­finningu fyrir stefnu­málum, en mest­megnis byggir þó af­staðan á því hvar kjós­endur telja að sjálfs­mynd þeirra eigi best heima á lit­rófinu. Og þá getur allt gerst.

Þetta er skiljan­legt. Flokkar og fram­bjóð­endur hafa í­myndir, verð­skuldaðar eða ó­verð­skuldaðar, með­vitaðar eða ó­með­vitaðar, inni­halds­ríkar eða holar. Þeir eru fram­sæknir, í­halds­samir, við­skipta­tengdir, vel­ferðar­tengdir, grænir, gráir, ró­legir, reiðir og svo fram­vegis. Til að kjósa flokk þarf sjálfs­myndin, þessi hug­mynd um hver maður sé og hver maður vill vera, á ein­hvern hátt að ríma við í­mynd flokksins. Ég held að svo rammt kveði að þessu, að kjós­endum sé nánast ó­mögu­legt að kjósa eitt­hvað sem ekki passar við sjálfs­myndina. Margir sjá ekkert slíkt, og kjósa því ekki.

Í Reykja­vík held ég að lífs­kjör fólks geti goldið þess mjög að rangar á­kvarðanir séu teknar. Út­þanin borg er dýrari, ó­heilsu­sam­legri og ó­um­hverfis­vænni en þéttari borg. Skólar, fé­lags­lega kerfið, sam­göngur, hús­næðis­fram­boð, sorp og skólp. Allt þarf að virka vel svo lífið sé gott. Mér virðist hins vegar að kjós­endur hafi ekki endi­lega trú á því að munur milli flokka sé svo mikill að allt fari í kalda­kol sigri einn fremur en hinn. Þar að auki er vitað að flokkarnir þurfa hvort sem er að mynda meiri­hluta, með til­heyrandi mála­miðlunum.

Mál­efna­á­greiningur er því ekki í aðal­hlut­verki. Ef einn flokkur vinnur vel, leggur gríðar­lega á­herslu á mál­efna­starf, leggur fram á­ætlanir um hvernig skuli gera þetta og hitt og hvernig skuli að­laga borgina að­steðjandi um­hverfis­vá, er ekkert víst að slíkur flokki upp­skeri erfiði sitt í meira fylgi. Allt eins er víst að það nægi öðrum flokki, sem tekist hefur að sigla milli skers og báru um skeið, að stíga inn í sviðs­ljósið með vina­leg and­lit og segja mikil­vægast að við séum góð við börn.

Stundum vilja kjós­endur bara faðma mjúkan bangsa.

Og nefið manns fattar ekki neitt.