Langvinnir verkir og mikilvægi hreyfingar og þjálfunar í tengslum við verki er megináhersla alþjóðasamfélags sjúkraþjálfara, sem fagnar Alþjóðlegum degi sjúkraþjálfunar þann 8. september nk. Langvinnir verkir eru mikill heilsufarsvandi um víða veröld og um allan heim valda mjóbaksverkir meiri skerðingu en nokkur annar heilsubrestur. Rétt er þó að hafa í huga að eingöngu 1,5% mjóbaksverkja orsakast af alvarlegum sjúkdómi eða slysum.

Sjúkraþjálfarar geta leikið lykilhlutverk í því að aðstoða fólk við að takast á við langvinna verki og bæta líðan og lífsgæði. Hreyfing og æfingar auka styrk og liðleika. Að beygja sig og lyfta eru eðlilegar hreyfingar og skaðlausar fyrir líkamann og margar æfingaaðferðir, þ.á.m. styrktarþjálfun, eru afar góðar fyrir bakið.

Ávinningur af æfingum vegna langvinnra verkja er margvíslegur. Æfingar viðhalda liðleika og hreyfanleika, bæta heilbrigði hjarta- og æðakerfis, efla og viðhalda vöðvastyrk, bæta andlega líðan og ýta undir almenna vellíðan. Regluleg hreyfing hjálpar fólki að lifa með verkjum og eykur sjálfsöryggi í allri þátttöku í daglega lífinu.

Æfingar eru áhrifarík leið til að létta á langvinnum verkjum og sjúkraþjálfarar eru sérmenntaðir í að veita sérhæfða æfingameðferð. Sjúkraþjálfarar fræða um eðli verkja og veita upplýsingar um hvernig og hvaða hreyfing og virkni eykur lífsgæðin. Á Alþjóðlegum degi sjúkraþjálfara hvetja sjúkraþjálfarar landsmenn til að auka hreyfingu sína og virkni og láta það ekki aftra sér þótt glímt sé við heilsubrest. Leitið til næsta sjúkraþjálfara um aðstoð, ef þarf.

Höfundur er formaður Félags sjúkraþjálfara.