Á lokadegi Alþingis var samþykkt þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu, en fyrsti flutningsmaður er greinarhöfundur.

Á Íslandi hafa aldrei verið fleiri innflytjendur en nú um þessar mundir og hefur fjölgað býsna hratt undanfarin ár, þótt eðlilega sé eitthvert uppihald á þeirri þróun eins og nú hagar til um gervallan heiminn.

Við eigum langt í land með að geta sagst standa framarlega í móttöku innflytjenda og þeir standa hér höllum fæti eins og víða í öðrum löndum. Við sjáum það á vinnumarkaðnum. Atvinnuleysi er til dæmis meira hér meðal innflytjenda en innfæddra. Reynsla annarra þjóða sýnir einnig að launakjör innflytjenda eru lakari en innfæddra. Samkvæmt úttektum nemur það allt að 20-30 prósent í sambærilegum starfsgreinum.

Þá eiga innflytjendur á brattann að sækja á húsnæðismarkaði og við þekkjum mörg nöturleg dæmi þess sem ratað hafa í fjölmiðla.

Mun færri hefja framhaldsnám og enn færri ljúka framhaldsnámi en innfæddir, hátt brottfall er staðreynd og það er takmarkaður stuðningur í skólakerfinu.

Við metum með ófullnægjandi hætti menntun inn­flytjenda og viðurkennum ekki vel fagleg réttindi. Í Evrópu er sem dæmi áætlað að 22 prósent innflytjenda hafi menntun umfram það sem krafist er í viðkomandi starfi, á móti 13 prósentum innfæddra.

Fjölgun innflytjenda hefur verið mikil hjá okkur á allra síðustu árum, miðað við nágrannalöndin og við höfum stutta reynslu á þessu sviði. Svíar og Kanadamenn hafa til dæmis þróað með sér kerfi í sinni innflytjendastefnu og njóta þess í betri þátttöku á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu. Það er verk að vinna og af nágrönnum okkar getum við margt lært.

Við skulum vinna að því, og gera það hluta af samfélagssáttmála okkar, að vera þjóðin sem veit og skilur hvað innflytjendur skipta miklu máli.