Íslensk börn og ungmenni hafa komið saman 29 sinnum á Austurvelli til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Það er ekki skrýtið að unga fólkið okkar telji sig þurfa að efna til loftslagsverkfalla, svo illa hafa stjórnvöld haldið hér á málum á undanförnum árum. Sem dæmi má bera saman kísilver PCC á Bakka og fjármögnun aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum.

Kísilver PCC á Bakka hefur í starfsleyfi sínu heimild til þess að losa árlega gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið sem nemur 8% af heildarlosun Íslands. Fyrirtæki í eigu ríkisins byggðu orkuver til þess að sjá kísilveri PCC fyrir orku og fyrirtæki í ríkiseigu reistu raflínur til þess að tengja orkuver og kísilver. Óljóst er hvort eða hvenær ríkisfyrirtækin fá aftur það fé sem til þessara framkvæmda var veitt. Þá eyddi íslenska ríkið amk. 4,2 milljörðum í að greiða fyrir framkvæmdir sem eingöngu tengjast kísilveri PCC auk ýmissa lána og ívilnana[1]. Nú liggur fyrir að rekstur kísilversins gengur illa og veita þarf aukum fjármunum inn í reksturinn. Íslenska ríkið stóð því fyrir eyðileggingu jarðhitasvæðis á náttúruminjaskrá (Þeistareykir), eyðileggingu hrauna sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum með raflínulögnum og heimilaði umtalsverða aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda svo að kísilver PCC sem ekki getur staðið undir sér, mætti rísa.

Í áætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er gert ráð fyrir að 5,6 milljörðum verði veitt í aðgerðir gegn hamafarahlýnun á 5 árum. Aðgerðaáætlunin er hvorki tímasett né magnbundin og aðgerðirnar lúta að mjög fáum geirum samfélagsins.

Forgangsröðunin sem hér birtist er kolröng. Meiriháttar fjáraustur úr sameiginlegum sjóðum landsmanna í óarðbæra framkvæmd sem eyðileggur og spillir náttúruarfi og landslagi og eykur losun gróðurhúsalofttegunda. Í samanburði skal örlitu eyða til þess að stemma stigu við gegndarlausri losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum.

Eru þetta skilaboðin sem við viljum senda þeim kynslóðum sem eiga að takast á við þær hættulegu loftslagshamfarir sem blasa við ef við bætum ekki ráð okkar?

Landvernd hefur tekið höndum saman við skipuleggjendur loftslagsverkfalls til að auðvelda almenningi að taka þátt í að krefjast kröftugri aðgerða í þágu loftslagsmála. Þann 20. september í upphafi alþjóðlegrar loftslagsviku og alheimsverkfalls fyrir loftslagið verður stór viðburður á Austurvelli þar sem við krefjumst aðgerða strax og undirskriftalisti verður kynntur til leiks. Tilgangurinn er að veita þjóðinni tækifæri til að hvetja stjórnvöld til þess að gera betur í loftslagsmálum.

Öll sem þekkja börn og ungt fólk, ömmur, afar, frændur, frænkur og er annt um framtíð þeirra, eru hvött til þess að mæta á Austurvöll þann 20. September kl. 17.30 og taka undir kröfur unga fólksins um alvöru aðgerðir í loftslagsmálum og til að skrifa undir á askorun.landvernd.is .

Höfundur er Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar

[1] https://kjarninn.is/skyring/2019-02-01-rikid-greiddi-42-milljarda-i-jardgong-lodaframkvaemd-og-starfsthjalfun-vegna-bakka/