Í grein í vefútgáfu Fréttablaðsins þann 14. maí skrifar upplýsingafulltrúi Vestur Verks að erfitt sé að átta sig á málflutning Landverndar um ágæti þess að friðlýsa Drangajökulsvíðerni og leggja áform um Hvalárvirkjun á hilluna. Það kemur ekki óvart þar sem upplýsingafulltrúinn hefur það hlutverk að verja fjárhagslega hagsmuni þess fyrirtækis sem um ræðir. En að væna Landvernd um rangfærslur og ósannindi, eins og gert er í greininni, er að gang of langt. Höldum okkur við málefnið. Álitamálin eru mörg og því eðlilegt að skoðanir séu skiptar.

Í óhagkvæmasta flokki virkjana

Hvalárvirkjun komst í nýtingaflokka þrátt fyrir að framlögð gögn væru ófullnægjandi og virkjunin félli óhagkvæmasta flokk. Samkvæmt almennum vinnureglum rammaáætlunar II hefðu hún átt að lenda í biðflokki. Að það ekki varð niðurstaðan er að því að virðist vegna pólitískra en ekki faglegra sjónarmiða. Önnur skýring er hugsanlega sú að á þeim tíma var ranglega talið að virkjunin gæti stuðlað að verulega bættu orkuöryggi á Vestfjörðum. Rammaáætlun á að byggjast á faglegum rökum. Því voru gerð mistök sem nú þarf að leiðrétta. Þetta var staðfest í afar neikvæðu álit Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.

Dýr tenging – lítil áhrif

Þau áform sem eru uppi um tengingu landsnets við Hvalárvirkjun og koma fram í nýrri kerfisáætlun Landsnet, sem kynnt var í Reykjavík fyrr í þessum mánuði, eru dýr og bæta litlu við orkuöryggið á Vestfjörðum. Á sama fundi var upplýst að um 130 MW afl væri til reiðu á Norðurlandi, svo ekki skortið rafmagnsaflið á Íslandi. Eftir því sem við komumst næst hjá Landvernd er næg flutningsgeta til staðar í núverandi kerfi á Vestfjörðum. En kerfið er einfalt og útsett fyrir truflunum. Hjá Landvernd leggjum við þann skilning í nýja skýrslu Norconsult, sem unnin var fyrir Landsnet, að ákaflega ólíklegt sé að lögð verði lína út eftir Djúpi, m.a. vegna þess að tenging við áformaða Hvalárvirkjunar gæti komi að mestu í veg fyrir að hægt verði að leggja nýjar flutningslínur í jörð eða styrkja eldri línur með jarðstrengjum á veðrasömustu stöðunum.

Mun skjótvirkari og hagkvæmari bóta á raforkuöryggi er að bæta varaaflið á sunnanverðum Vestfjörðum, eins og gert hefur verið með góðum árangri á norðanverðum Vestfjörðum. Bæta má ástandið enn frekar með því að setja upp rafhlöður við varaflstöðvarnar sem tryggja að rafmagnið slái ekki út og valdi óþægindum og tjóni. Til að taka tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda frá varaflstöðvum mætti hugsa sér að nýta sem orkugjafa þá ofgnótt af metangasi sem er í landinu.

Varanleg jákvæð áhrif friðlýstra svæða

Framlögð gögn sýna að Hvalárvirkjunar mun á byggingartíma hafa umtalsverð áhrif á umsvif í byggðinni í Árneshreppi. En þau áhrif eru bundin við fáein ár, og svo ekki söguna meir. Tímabundin jákvæð áhrif geta orðið skaðleg til lengri tíma litið eins og stórbrotin mannvirki í Djúpuvík og Ingólfsfirði frá síldarárum minna okkur á. Vel rekin friðlýst svæði á þessum einstaka landshluta gætu hins vegar haft varanleg og vaxandi jákvæð áhrif á brothættar byggðir.

Niðurstaða Landverndar er því að það sé skynsamleg aðgerð, sem stuðli að sjálfbærri þróun og bæti almannahaga, að friðlýsa Drangajökulsvíðerni.

Landvernd eru samtök sem sinna umhverfis- og náttúrvernd á breiðum grundvelli eins og lesa má á www.landvernd.is. Loftslagsmálin eru efsta á baugi eins og upplýsingafulltrúinn lýsir eftir í grein sinni. Í því sambandi má benda á þá gífurlegu losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af byggingu Hvalárvirkjunar við bruna vinnuvéla á jarðefnaeldsneyti, efnisflutninga til og frá svæðinu og frá framleiðslu sements sem þarf í byggingu mannvirkja. Talið er að um 8 prósent af heimslosun gróðurhúsalofttegunda sé tengd notkun sements.

Eitt mikilvægast mál í náttúruvernd á Íslandi í dag er að bjarga síminnkandi víðerum, sem eru fágæt náttúruauðlind á heimsvísu. Barátta Landverndar fyrir friðlýsingu Drangajökulsvíðernis er liður í því björgunarstarfi.

Höfundur er formaður Landverndar.