Nú þegar nýtt merki og kynningarmynd­band KSÍ fer eins og eldur í sinu um heimsbyggðina, er gaman að rifja upp uppruna landvættanna sem eru þar í aðalhlutverki. Og endurspegla íslenska skjaldarmerkið. Allir Íslendingar þekkja auðvitað skjaldarmerkið. Á því er íslenski fáninn í miðju, umkringdur fjórum skjaldberum eða landvættum, uxa, risa, erni og dreka. Landvættir skjaldarmerkisins eru ættaðir úr Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þar segir Snorri frá því að eitt sinn hafi Haraldur Gormsson, Danakonungur, sent galdramann til Íslands til að sjá hvort ekki mætti sigla þangað liði til hefnda fyrir níð sem Íslendingar höfðu ort um konung. Þannig segir Snorri frá:

„Sá fór í hvalslíki … En er hann kom fyrir Vopnafjörð þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land að ganga. Þá fór ofan eftir dalnum dreki mikill og fylgdu honum margir ormar, pöddur og eðlur og blésu eitri á hann. En hann lagðist í brott og vestur fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eftir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svo mikill að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir. Braut fór hann þaðan og vestur um landið og svo suður á Breiðafjörð og stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungur mikill og óð á sæinn út og tók að gella ógurlega. Fjöldi landvætta fylgdi honum. Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi ...“

Snorri var reyndar langt í frá fyrstur til að lýsa þessum vættum, drekanum, uxanum, fuglinum og bergrisanum. Þannig vill nefnilega til að um 1.000 árum fyrir daga Snorra, var sagt frá sömu vættum í Opinberunarbók Jóhannesar sem er að finna aftast í Biblíunni. Í Opinberunarbókinni greinir spámaðurinn Jóhannes svo frá, að hann hafi séð í sýn sjálft hásæti Guðs á himnum. Kringum þetta hásæti Guðs stóðu fjórar verur, segir Jóhannes. Þannig lýsir hann þeim:

„Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran var lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni.“

Reyndar á þessi mynd sér enn eldri samsvörun í táknum ættbálka Ísraels í Mósebókum. Ættbálkarnir voru 12 og hafði hver ættbálkur ákveðið tákn. Þegar Ísraelsþjóðin var á ferð í eyðimörk Sínaí eftir flóttann frá Egyptalandi, reistu menn tjaldbúðir að kveldi kringum sáttmálsörkina og skiptu tjaldbúðunum í fjóra hluta. Fyrir hverjum hluta fór einn ættbálkur. Júda í austri, Rúben í suðri, Efraím í vestri og Dan í norðri. Merki Rúbens er vatnsberinn eða risinn, merki Efraíms nautið, merki Dans örninn eða gammurinn og merki Júda ljónið. Síðar tók Júda upp merki höggorms Móse – orminn. Dreki Snorra er í ætt við orm, því honum fylgja ormar og eðlur. Ormur eða dreki Snorra, gæti því vel verið hið forna merki Júda. Þess má geta að Snorri skipar landvættum sínum í sömu höfuðáttir og táknum ættbálka Ísraels er skipað kringum tjaldbúð Drottins í Gamla testamentinu.

Hvergi er getið um í heimildum að Snorri Sturluson hafi haft þessa texta Biblíunnar í huga er hann samdi sögu sína. En greinilega er um sömu tákn að ræða sem rötuðu inn í frásögn Snorra. Og þannig urðu hinar fornu táknmyndir verndara hásætis Drottins samkvæmt Biblíunni, að landvættunum sem gæta Landsins okkar bláa. Og prýða nú einkennistákn KSÍ.