Því miður steig enginn hægrimaður fram og sagðist hlynntur því að ríkið myndi selja þriðjung í Landsvirkjun í könnun Markaðarins á meðal þingmanna. Það varpar ljósi á að frjálshyggja á í vök að verjast á Alþingi sem ef til vill ætti það ekki að koma á óvart í ljósi þess að skattar eru með þeim hæstu sem hlutfall af landsframleiðslu í heimi.

Norðmenn hafa kosið að fara blandaða leið í mikilvægum inn­viða­fyrirtækjum. Norska ríkið á til dæmis 66,6 prósenta hlut í olíufélaginu Equinor (áður Stat­oil). Fyrir vikið fer ríkið með auk­inn meirihluta í félaginu og getur breytt samþykktum ef svo ber undir. Norska ríkið ræður því för þótt Equinor sé skráð á hlutabréfamarkað.

Landsvirkjun gæti notið góðs af því að fá lífeyrissjóði – sem allir Íslendingar fjárfesta í – og jafnvel erlenda innviðafjárfesta í hluthafahópinn. Fjárfestar veita mun betra aðhald en ríkið sem eigandi.

Að sama skapi gæti ríkið losað háar fjárhæðir sem bundnar eru í áhætturekstri. Ríkið getur vel gætt hagsmuna almennings án þess að bera alla áhættuna af rekstrinum.

Rekstur Landsvirkjunar hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Á árunum 2016 til 2020 var arðsemi eiginfjár frá 3,5 prósentum til 5,9 prósenta án tillits til verðbólgu. Í fyrra var arðsemin 6,6 prósent.

Hafa ber í huga að um 80 prósent af tekjum Landsvirkjunar eru af raforkusölu til stórnotenda. Afkoman mun því fylgja sveiflum á mörkuðum. Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt að í ljósi batnandi fjárhagsstöðu undanfarinn áratug geti fyrirtækið tekið meiri áhættu í raforkusamningum með frekari stöðutöku á hrávörumörkuðum.

Íslenska þjóðin mun áfram hafa fullt forræði yfir og njóta góðs af orkuauðlindum sínum þótt ríkið selji þriðjung í Landsvirkjun. Færa má rök fyrir því að við það geti rekstur á mikilvægu innviðafyrirtæki batnað til langs tíma.