Þrír landsleikir á heimavelli á einni viku er ekki alveg það sem við eigum að venjast hvað þá þær fordæmalausu aðstæður sem við nú lifum.

UEFA hefði að mati undirritaðs átt að blása Þjóðadeildina af eða a.m.k. fresta leikjum hennar um e-a mánuði í ljósi þeirra erfiðleika við ferðalög, gistingu, sóttvarnir o.fl. sem Covid-19 kallar á. En það var ekki gert.

Af nýliðnum landsleikjum, gegn Rúmeníu, Danmörku og Belgíu var vægi leikjanna mjög misjafnt. Sá fyrsti skipti öllu máli á meðan hinir voru jú leikir gegn sterkum liðum en í móti sem Ísland var hvort eð er á leið úr A í B deild. Það er stundum sagt að mikilvægt sé að vinna “réttu” leikina og það gerðu strákarnir okkar svo sannarlega að þessu sinni.

Leikurinn gegn Rúmeníu var upp á líf eða dauða í Evrópukeppni landsliða 2020 sem frestað var til 2021. Og okkar menn héldu á lífi draumnum um að komast á þriðja stórmótið í röð með mjög góðri frammistöðu gegn Rúmenum. Úrslit leiksins, 2-1, benda til þess að sigurinn hafi staðið tæpt, en það er ekki oft sem maður sér erlent landslið leika heilan leik á Laugardalsvelli án þess að skapa sér eitt gott marktækifæri. Sigurinn var aldrei í hættu. Ég kallaði eftir því í pistli mánuði fyrir leikinn gegn Rúmenum að við þyrftum að tjalda öllu til, kalla saman gamla gengið sem hefur staðið sig svo vel fyrir land og þjóð, komið Íslandi á landakort knattspyrnunnar með því að komast á EM 2016 og HM 2018 og standa sig framar vonum í bæði skiptin. Og það var gert. Gamla bandið var mætt á svæðið og það sást langar leiðir að leikmenn voru tilbúnir í slaginn. Rúmenía er ekki með eins sterkt landslið og fyrr á árum en þeir eru virt knattspyrnuþjóð sem á góða leikmenn, bara ekki nógu góða í dag fyrir íslenska landsliðið þegar það leikur eins og það best getur.

Allir leikmenn landsliðsins áttu mjög góðan leik. Guðlaugur Victor átti stórleik í hægri bakvarðarstöðunni, en hann er miðvallarspilari að upplagi. Ef ekki hefði verið fyrir frábæra frammistöðu og glæsileg mörk Gylfa Þórs þá hefði Guðlaugur verið maður leiksins. Ég hef stundum gagnrýnt valið á Arnóri Ingva Traustasyni, því þótt pilturinn sé fljótur og duglegur þá finnst mér oft koma lítið úr því sem hann er að reyna. En gegn Rúmeníu var ég sáttur með strákinn. Hann lék vel. Þá var gaman að sjá Jóhann Berg og Alfreð aftur með eftir meiðsli. Við þurfum á þeim að halda til að geta ógnað e-ð af viti í sóknarleiknum. Kári var frábær sem fyrr, ótrúleg seigla í “gamla manninum” og hjálpar það honum hversu greindur leikmaður hann er; les leikinn eins og opna bók. Og kapteinn Aron Einar er ómetanlegur fyrir liðið.

En eins ánægðir og við stuðningsmenn landsliðsins vorum að loknum leiknum gegn Rúmeníu, þá var okkur kippt harkalega niður á jörðina í leiknum gegn Dönum í Þjóðadeildinni þremur dögum síðar.

Með lítið breytt lið var frammistaðan langt undir væntingum. Klaufagangur Hannesar kostaði mark á lokamínútum fyrri hálfleiks, eftir að hann hafði verið öryggið uppmálað í leiknum gegn Rúmenum. Annar klaufagangur kostaði svo mark í upphafi síðari hálfleiks og það var með verstu mörkum sem ég hef séð Ísland fá á sig í landsleik. Hvernig datt mönnum í hug við innkast á móts við vítateig andstæðinganna að senda alla leikmenn liðsins nema einn, fyrir utan markmanninn, inn í vítateig andstæðinganna og kasta svo boltanum á eina leikmanninn sem var eftir til að valda völlinn og verjast hugsanlegu hraðupphlaupi andstæðinganna? Svona gerir maður ekki! Eini ljósi punkturinn í Danaleiknum var öflug frammistaða Guðlaugs Victors sem er kominn í landsliðið til að vera; bara spurning hvort hann leikur sem hægri bakvörður eða á miðjunni við hlið Arons. Flottur leikmaður þar á ferð og virkilega gaman að sjá hann fá landsliðsæruna uppreista.

Eftir dapra frammistöðu gegn Dönum voru væntingarnar á núllpunkti fyrir leikinn gegn Belgíu, sem hefur á að skipa einu besta landsliði í heimi, en var reyndar án nokkurra lykilmanna í Laugardalnum, þar á meðal Kevin de Bruyne sem er klárlega einn af 5 bestu leikmönnum í heimi. Hvílíkur leikmaður! Mikið breytt íslenskt landslið var óþekkjanlegt frá leiknum gegn Dönum. Erik Hamrén breytti um leikaðferð, stillti upp þremur miðvörðum, tveimur vængbakvörðum, þremur á miðjunni og tveimur framherjum í 3-5-2 eða 5-3-2 leikkerfi. Mesta athygli vakti endurkoma Birkis Más Sævarssonar í landsliðið, en eftir frábæran feril sem hægri bakvörður í yfir 90 landsleikjum datt hann út úr landsliðinu, í gegnum varamannabekkinn og út í kuldann. En hann kom inn úr kuldanum gegn Belgum og minnti rækilega á sig með fínni frammistöðu sem hann kórónaði með fallegu marki eftir snilldarsendingu Rúnars Más Sigurjónssonar, a la Kevin de Bruyne. Rúnar Alex stóð í markinu í stað Hannesar og stóð sig vel. Hann er í dag líklegasti arftaki Hannesar sem aðal markmaður landsliðsins. Sverrir Ingi var mjög góður í leiknum sem og miðjumennirnir þrír, Rúnar Már, Guðlaugur Victor og Birkir Bjarnason, sem bar fyrirliðabandið í leiknum. Þá var gaman að sjá Albert Guðmundsson fá tækifæri í framlínunni. Hann kom með hraða, leikni og sjálfstraust inn í liðið og verðskuldar fleiri tækifæri. Þrátt fyrir 1-2 tap gegn Belgum geta þeir leikmenn sem þátt tóku í leiknum og þjálfararnir borið höfuðið hátt. Í þessum leik skipti frammistaðan meira máli heldur en úrslitin og eftir vonbrigðin gegn Dönum var þessi leikur mikil framför og vekur vonir um að breiddin sé að aukast í landsliðshópnum.

Framundan eru þrír landsleikir í nóvember og aftur er vægi þeirra misjafnt. Sá fyrsti, 12. nóv. gegn Ungverjum í Búdapest er hreinn úrslitaleikur um sæti í úrslitakeppni EM 2021. Hinir tveir eru útileikir gegn Dönum og Englendingum í Þjóðadeildinni 15/11 og 18/11 og vægið lítið þótt menn vilji eðlilega standa sig vel í landsleikjum gegn góðum liðum.

Í leiknum gegn Ungverjum 12/11 skipta úrslitin öllu máli og þá verðum við að tjalda því sem til er og stilla upp svipuðu liði og gegn Rúmenum um daginn, að því gefnu að leikmenn séu ómeiddir og í sæmilegri leikæfingu. Það er einkum tvennt sem er álitamál, ef allir leikmenn eru heilir. Annað er leikaðferðin, taktikin, þ.e. hvort stillt verði upp í 5-3-2 með þrjá miðverði eða við höldum okkur við 4-5-1 með Gylfa fremstan á miðjunni, fyrir aftan Alfreð. Hitt er spurning um tvo leikmenn, Birki Má eða Arnór Ingva. Sumum finnst kannski skrýtið að valið geti staðið á milli hægri bakvarðar og vinstri vængtengiliðar, en skýringin felst í Guðlaugi Victori sem getur hvort heldur verið sem hægri bakvörður eða á miðjunni með Aroni Einari. Ef þjálfararnir vilja nýta hraða Birkis Más og nýfengna markheppni þá á að nota Guðlaug á miðjunni og færa Birki Bjarna aftur á vinstri vænginn. Þá er ekki pláss fyrir Arnór Ingva. Þeir sem helst gera tilkall til sætis í byrjunarliðinu fyrir utan þá leikmenn sem hófu leikinn gegn Rúmeníu eru auk Birkis Más þeir Sverrir Ingi Ingason sem er öflugur valkostur fyrir Kára eða Ragnar … eða sem þriðji miðvörður og Albert Guðmundsson, sem annar framherji eða vængmaður ef á þarf að halda. Það er afar mikið í húfi í Ungverjalandi 12. nóvember, en það þarf allt að ganga upp til að sigur vinnist. Líkurnar á íslenskum sigri er ekki nema 30-40%, en það er ekki spurt að því þegar á hólminn er komið. Það fer svo eftir úrslitum þessa mikilvæga leiks hvernig framhaldið verður.

Ef Ísland kemst í úrslitakeppni EM 2021 þá hægist væntanlega á endurnýjun landsliðsins, en ef ekki þá er rétt að hefja strax eðlilega endurnýjun liðsins í leikjunum gegn Dönum og Englendingum í Þjóðadeildinni um miðjan nóvember. Þannig má segja að íslenska karlalandsliðið sé á vissum tímamótum núna og það ráðist 12. nóvember hvort besta tímabili í sögu íslenska karlalandsliðsins sé lokið og nýtt tímabil að hefjast eða það verði eftir EM 2021.

Áfram Ísland!

Höfundur er fyrrum landsliðsmaður og þjálfari í efstu deild á Íslandi