Til eru þeir sem telja Bandaríkin vöggu lýðræðis. Fráfarandi forseti hefur fátt gert til að styrkja landið í sessi í þeim efnum. Þvert á móti hefur hann ólmast eins og óþægur krakki í aðdraganda og kjölfar forsetakosninganna í nóvember gegn þeirri niðurstöðu sem þar fékkst, því hann gat ekki horfst í augu við vilja meirihluta kjósenda.

Enn lifir rúm vika af valdatíð Trumps í Hvíta húsinu. Þar hefur hann setið sleitulaust í fjögur ár og þaðan hefur hann staðið fyrir hverju furðumálinu á fætur öðru. Veggurinn sem hann vildi setja upp á landamærunum við Mexíkó var sennilega fyrsta dellumakið og fleiri voru á sömu lund. Í fersku minni er þruglið í forsetanum og fálmið þegar heimsfaraldurinn tók að breiðast um landið og má leiða að því rök að þau viðbrögð hafi kostað mannslíf.

Vera má að Trump hafi komið einhverju góðu til leiðar en vitleysan yfirskyggir það allt, ef eitthvað er. Steininn tók svo úr á miðvikudag þegar stjórnlaus rumpulýður ruddist inn í þinghúsið í Washington þar sem deildir þingsins voru í óðaönn að staðfesta niðurstöðu forsetakosninganna – allt að áeggjan forsetans, sem jós olíu í allar áttir á eld andspyrnu gegn lýðræðinu. Yfirlýsingar hans um að viðurkenna ekki úrslit kosninganna og að þau hafi verið illa fengin, mögnuðu upp múgæsinguna sem leiddi til að gerð var árás á þinghúsið og tilræði gert gegn lýðræðinu.

Á þessu ber Trump einn ábyrgð með innistæðulausum ásökunum, sem hefur verið hrundið fyrir hverjum dómstólnum á fætur öðrum. Þegar forystumaður þjóðar hagar sér þannig er það varla nokkuð nema landráð. Þetta mál og aðdragandi þess hefur hlotið fordæmingu þjóðarleiðtoga um allan hinn vestræna heim. Núlifandi fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna eru meðal þeirra sem fordæmt hafa atlöguna.

Lýðræði er sáttmáli þjóðar og þegar leiðtogi hennar, jafnvel þó á förum sé, vegur beinlínis að þeim sáttmála getur illa farið. Brestir í sáttmálanum sem af því hljótast geta kynt bál svo stórkostlega að ekkert fáist við ráðið. Borgarastríð hefur brotist út af minna tilefni.

En atburðirnir í þinghúsi Washingtonborgar í vikunni eru ekki einsdæmi og ekki þarf að líta langt til að finna eins konar hliðstæðu. Veturinn 2008 var ófriðlegt á Austurvelli. Daglega safnaðist þar saman fólk sem fann reiði sinni útrás með því að berja í búsáhöld og gera hróp að þinghúsinu og þeim sem þar voru inni. Þetta var viðkvæm staða og menn óttuðust stigmögnun. Ekki síst að ráðist yrði inn í þinghúsið.

Og að því kom þegar hópur fólks ruddi sér braut þangað inn. Framganga þingmanns var til umfjöllunar í fjölmiðlum á þessum tíma og gagnrýndi formaður Landssambands lögreglumanna hann fyrir framgöngu hans við mótmælin. Í stað þess að fylgja tilmælum um að halda sig frá gluggum hússins hafi þingmaðurinn staðið úti við glugga og hvatt mótmælendur til dáða. Síðar varð þessi þingmaður ráðherra.

Þeir leynast víða landráðamennirnir.