Landakotsatvikið sem svo hefur verið nefnt er talið alvarlegasta atvikið í sögu Landspítalans.

Í marsbyrjun var sett á fyrirvaralaust heimsóknarbann ættingja á hjúkrunarstofnanir vegna meintrar smithættu. Þessu var mótmælt bréflega til embættis landlæknis og í blöðum og bent á að smit gæti ekki síður borist með starfsfólki, eins og forstjóri Karólinska benti einnig á. Engin viðbrögð komu fram um leiðbeiningar til starfsfólks svo sem að forðast hópa, grímunotkun, skimanir né hitamælingar eins og sjá mátti framkvæmdar á einfaldan hátt víða um heim.

COVID-19 vírusinn er einhver mest smitandi örveira sem komið hefur fram og hefur þegar þetta er skrifað sýkt 12 milljónir Bandaríkjamanna, þar á meðal sjálfan forsetann og hluta samstarfsmanna hans sem ætla mætti að væri einhver best verndaði hópur í heiminum, einnig Pentagon og hermálayfirvöld. Um 260 þúsund Bandaríkjamenn hafa látist. Vírusinn hefur einnig sýkt marga aðra verndaða forystumenn t.d. forsætisráðherra Breta.

Það átti því ekki að koma algjörlega á óvart að þrátt fyrir ættingjabann tækist COVID-19 að smeygja sér inn á íslenskar sjúkrastofnanir með sínar gloppóttu varnir og valda dauða. Landakotsspítali varð verst úti hér á landi.

Í úttekt þessa atviks er einkum gagnrýnt að húsakostur Landakots sé gamall, ekki útbúinn fyrir alheimsfaraldur og engin loftræsting! Harðorð neikvæð ummæli hafa komið fram frá starfsfólki og ættingjum um að húsnæðið sé óhæft fyrir sjúklinga. Komið hefur þó síðar fram að nokkrar af eldri byggingum Landspítala t.d. Vífilsstaðir eru án loftræstistokka en vegnar samt vel með þeirri aldagömlu aðferð að opna glugga a.m.k. öðru hvoru. Loftræstikerfi geta verið varasöm og dæmi eru um svæsnar sýkingar t.d. hermannaveikina þ.e. Legionnaires disease frá loftræstikerfi. Starfsfólk Landakots hefur aldrei veikst af völdum myglu eins og á LSH.

Landakotsspítali er einhver merkilegasta sjúkrastofnun Íslands. Spítalinn var byggður 1902 af St. Jósefs systrum fyrir erlent gjafafé samkvæmt óskum lækna og var aðalsjúkrahús og kennsluspítali landsins þar til 1930 að Íslendingar höfðu fyrst dug í sér að byggja eigin spítala þ.e. Landspítalann. Við endurnýjun og nýbyggingu Landakots 1964 varð hann aftur fullkomnasta sjúkrahús landsins en naut aldrei sannmælis af hálfu yfirvalda vegna annars rekstrarfyrirkomulags.

Landakot annaðist lengst af þriðjung bráðaþjónustu á móti Landspítala og þáverandi Borgarspítala. Eftir að ríkið keypti spítalann 1976 var ekki látið fé í neinar umbætur.

Sjúkrastofnun er ekki aðeins steinsteypuveggir heldur mun frekar starfsfólkið. Landskotsspítali hafði lengst af afburða læknaliði á að skipa, flestir menntaðir á fremstu sjúkrahúsum í Bandaríkjunum t.d. Harvard, Mayo Clinic, Duke, Cleveland Clinic og U. Minnesota. Nokkrir læknar voru frá háskólasjúkrahúsum í Þýskalandi og Bretlandi.

Margt frumherjastarf var unnið á Landakoti, fyrsti keisarinn, fyrsta barnadeildin, höfuðaðgerðir, nýjungar í bæklunarlækningum, og Landakot var miðstöð augnlækninga um árabil og margt fleira.

Innrás COVID-19 inn á Landakotsspítala, sem var ekki frekar en aðrar stofnanir byggður né mannaður fyrir slíkan faraldur, var eins og segja má „hinn fullkomni stormur“. Starfsfólk vann þrekvirki og má vera stolt að ekki fór verr. Sjúklingar mega vita að í framtíðinni á að vera eins öruggt að hvíla á Landakotsspítala sem á öðrum stofnunum ef hann fær eðlilegt viðhald.

Ég er stoltur af að hafa verið kandidat á Landakoti.