Umbrot á Reykjanesskaganum undanfarið hafa vakið íbúum þessa landshluta ugg. Það er ekkert grín að búa við stöðuga jarðvá æ ofan í æ. Í rúmt ár hafa íbúar á svæðinu þurft að búa við óvissu um hvert framhald jarðhræringanna verður, sem hófst með jarðskjálftum og landrisi við Þorbjörn, ofan Grindavíkur, fyrir rúmu ári.

Íslendingar virðast vera haldnir einhvers konar hamfarablæti. Í hvert sinn sem mikið gengur á, jarðhræringar, snjóflóð eða skriðuföll, þyrpast þeir á fréttamiðla og endurhlaða síður á netinu í gríð og erg. Í jarðskjálftunum undanfarið keppast menn á vinnustöðum við að giska á hversu stór skjálftinn var.

Þetta er svo sem góðlátlegt, sérstaklega vegna þess að ekki virðist mikil hætta á ferðum að þessu sinni.

Nábýli við eldfjöll og jarðhræringar er hluti lífsins í landinu og það hefur meðal annars leitt til þess að margir læra jarðvísindi hér á landi. Forsenda þess að hér er gnótt af heitu vatni og þeirra lífsgæða sem við njótum í því sambandi, er einmitt vegna þessarar nálægðar. Því má ekki gleyma. Það er aðdáunarvert hversu vandaða jarðvísindamenn Ísland á. Og greiningartæknin sem þeir beita er mögnuð. Á þekkingu þeirra hljótum við öll að hafa traust.

En því verður ekki á móti mælt að sérkennilegt er að á svæðinu öllu skuli ekki vera til rýmingaráætlanir eða önnur tiltæk plön, brjótist út eldgos. Yfirmaður lögreglumála á Suðurnesjum hefur sagt í fjölmiðlum að nú sé unnið að þeim. Var ekki ástæða til þess fyrr en nú? Alls staðar í byggð ættu að vera til áætlanir sem grípa má til þegar hætta steðjar að, af hvaða toga sem hún er.

Ekki verður hjá því komist að víkja aðeins að samskiptum fjölmiðla og almannavarnayfirvalda á svæðinu í tengslum við átökin á Reykjanesi.

Þegar svo virtist að líkleg atburðarás myndi leiða til að hraun tæki að renna, hvenær sem það yrði, biðu fjölmiðlamenn klukkutímunum saman við afleggjarann að Keili, því fyrirmæli þeirra sem lokuðu slóðanum voru að engum skyldi hleypt inn á hann.

Fjölmiðlar hafa ríkum skyldum að gegna, sér í lagi í aðstæðum sem þessum. Þeir eru alvanir að umgangast hættur, gæta sín og vita að á hættusvæðum eru þeir á eigin ábyrgð. Um leið og skilaboð til almennings voru að halda sig frá svæðinu var eina glugganum sem almenningur gat skyggnst út um og fylgst með lokað. Það var ekki fyrr en eftir stímabrak við almannavarnayfirvöld, þar sem hver vísaði á annan, að fjölmiðlamönnum var veitt leyfi til að fara inn á svæðið en með fylgd.

Ísland er land í mótun og hver sem framvindan verður á Reykjanesskaga eru þetta ekki síðustu atburðirnir af þessu tagi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem takmarkanir sem þessar hefta eðlilega fjölmiðlaumfjöllun. Þetta þarf að færa til betri vegar og viðbragðsáætlanir þurfa að ná til þess að þeim sem segja fréttir sé veittur aðgangur að vettvangi svo hægt sé að varpa ljósi á yfirvofandi eða orðna atburði.