Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað um stöðu lánveitinga með ríkisábyrgð. Alþingi samþykkti umgjörð og skilyrði fyrir veitingu slíkra lána nú á vordögum og því ekki óeðlilegt að spurt sé um afdrif þessara lána. Áhrif heimsfaraldursins á starfsemi fyrirtækja hafa verið þó nokkur og enn umlykur óvissa um nánustu framtíð talsverðan fjölda þeirra. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að fyrirtæki grípi til allra mögulegra úrræða og ráðstafana, áður en ákvarðanir um aukna skuldsetningu með frekari lántökum eru teknar. Fyrirtæki og heimili hafa til að mynda í töluverðum mæli nýtt sér úrræði á borð við greiðslufresti lána hjá lánveitendum og hafa þúsundir skilmálabreytinga vegna lána verið gerðar síðan í mars.


Viðbótarlán


Í einum af fyrstu aðgerðapökkum ríkisstjórnarinnar voru kynnt viðbótarlán til fyrirtækja með 70 prósenta ríkisábyrgð. Fljótlega eftir að þau voru kynnt varð ljóst að meira þyrfti að koma til, þar sem upp teiknuðust dekkri sviðsmyndir í viku hverri, með tilheyrandi ferðatakmörkunum og samkomubanni. Því kynntu stjórnvöld fjölda annarra úrræða fyrir fyrirtæki og starfsfólk þeirra. Með framlengingu hlutabótaleiðar, stuðningi við greiðslu launa á uppsagnarfresti, lokunarstyrkjum, stuðningslánum og fleiri úrræðum, dró úr eftirspurn eftir viðbótarlánum með 70 prósenta ríkisábyrgð. Viðbótarlánaúrræðið stendur þó til boða hjá bönkunum og eru fyrstu lánveitingarnar í matsferli.


Stuðningslán


Eftir að útfærsla og skilyrði stuðningslána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja lá fyrir, með samþykkt laga á Alþingi nú í maí, hefur verið unnið hörðum höndum að undirbúningi á afgreiðslu þeirra. Bankar og sparisjóðir eru tilbúnir og hafa stjórnvöld unnið að uppsetningu á umsóknargátt vegna lánveitinganna. Hefur stór hluti undirbúningsins falið í sér uppsetningu á rafrænu staðfestingarferli hjá Skattinum, á að fyrirtæki uppfylli grunnskilyrði til lánveitingar. Nú standa yfir tæknilegar prófanir á umsóknar - og afgreiðsluferlinum og má vænta þess að opnað verði fyrir umsóknir innan skamms. Mikilvægt er að afgreiðsla lánveitinganna geti gengið snurðulaust fyrir sig og má hrósa stjórnvöldum og Ísland.is fyrir þær stórstígu framfarir sem nú eru að verða í veitingu stafrænnar, opinberrar þjónustu.


Met í útlánum til heimila


Mikil eftirspurn hefur verið eftir þjónustu fjármálafyrirtækja á undanförnum mánuðum. Þannig hefur mikil útlánaaukning verið hjá bönkunum, ekki síst til heimila vegna fasteignakaupa og endurfjármögnunar húsnæðislána. Heimilin eru að nýta sér hagstæð kjör sem þeim standa til boða og ná þannig í mörgum tilfellum að lækka greiðslubyrði lána sinna. Stafrænar lausnir hafa jafnframt gert þennan feril einfaldan og aðgengilegan og ljóst að heimilin fylgjast vel með tækifærum til hagræðingar á húsnæðislánamarkaði.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.