Ekki fer á milli mála að hefð­bundinni lestrar­kunn­áttu hefur hrakað al­mennt hér á landi á undan­förnum árum. Það á sér marg­vís­legar skýringar, ekki síst í breyttum þjóð­fé­lags­háttum, og helst í hendur við aukið tölvu­læsi í mörgum til­vikum. Það er hins vegar mis­skilningur sem stundum verður vart að tölvu­læsið – færni í tölvu­notkun – komi í staðinn fyrir læsi á ritað mál. Les­blindir ein­staklingar hafa reyndar ýmsa eigin­leika sem vega upp þá færni sem lesturinn gefur en vert er að hafa í huga að les­blinda er ekki hið sama og ó­læsi. Það er til mikils að vinna að sporna gegn þessari þróun, bæði fyrir ein­stak­linga og sam­fé­lag.

Það ætti að vera mark­mið okkar að 80-90% barna séu full­læs eftir 2. bekk og eftir það fái börnin verk­efni við hæfi sem miðast við getu þeirra og færni og skapa á­huga á bók­lestri, því eins og við vitum er vand­fundið betra app en bókin.

Stór­auka þarf þjálfun sem miðast við að tengja bók­stafina og hljóðin í byrjun lestrar­kennslunnar. Fræði­menn telja að sjálf myndin, formið á bók­stafnum, verki á hægra heila­hvelið en hljóðið sé myndað í vinstra heila­hveli, þannig að tenging bók­stafs og hljóðs styrkir gagn­virk tengsl heila­hvelanna, skapar og þróar net af tauga­frumum. Mark­viss þjálfun þessara tengsla er gríðar­lega mikil­væg fyrir börn sem eru að vaxa. Lestur er sér­lega góð leið til að þroska þetta f læði milli heila­hvela og vel fallin til þess að ef la hæfi­leikann til að hugsa á ab­strakt hátt eins og það er kallað – í hug­tökum, líkingum og tengingum. Hér þarf sér­stak­lega að huga að drengjum, en ó­læsi meðal þeirra hefur vaxið í­skyggi­lega mikið á undan­förnum árum, svo að í ó­efni stefnir.

Sam­hliða þessu þarf að stóref la þjálfun barna og ung­linga í al­mennri með­ferð tungu­málsins; ekki endi­lega með orð­flokka­greiningum og staf­setningar­gildrum til að skilja sauðina frá höfrunum heldur með því að þjálfa þau í að orða hugsanir sínar og festa á blað. Þar má hugsa sér skapandi skrif, sem geta falist í að skrifa litlar svip­myndir úr dag­lega lífinu, per­sónu­lýsingar á fólki kringum sig, fanga hug­hrif í ljóðum eða skrifa litla pistla um á­lita­mál – mögu­leikarnir eru ó­teljandi, en fyrst og fremst þurfa börnin að skynja og upp­lifa þá gleði sem falist getur í því að beita tungu­málinu – sínu eigin tungu­máli - sem tæki til að ná valdi á fyrir­bærunum með því að koma þeim í orð og skilja eigin kring­um­stæður. Ungt fólk á ekki að þurfa að upp­lifa móður­málið sitt sem ó­kleifan múr eða stór­hættu­lega þrauta­braut. Þau þurfa að læra að ís­lenska er ekki út­lenska – heldur málið þeirra.

For­eldrar þurfa að vinna mark­visst með má­lörvun, sem fæst með því að tala eins mikið og maður mögu­lega getur við börnin – þannig nemur barnið orðin og setur í kerfi í sínum frjóa og mót­tæki­lega heila – og síðan lesa fyrir börnin þannig að þau sjái bókina á meðan og fylgist með, horfi á stafina og tenging myndist milli hljóða og orða. Fátt jafnast á við slíkar sam­veru­stundir, og vara­samt er að á­líta að barn með YouTu­be-mynd­bönd á iPad – jafn­vel þótt fylgst sé með þeim myndum – sé jafn vel sett og hitt sem lesið er fyrir.
Það eru réttindi barnanna að fá eins góða lestrar­kennslu og völ er á. Það skilar sér síðan í betra sam­fé­lagi.