Þrátt fyrir að smit hafi ekki greinst í fangelsum landsins lék fyrsta bylgja COVID-19 faraldursins fanga grátt. Þetta fundum við hjá Afstöðu, félagi fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, á eigin skinni enda fjölgaði kvörtunum og öðrum erindum gríðarlega á fyrsta ársfjórðungi. Nú þegar útlit er fyrir aðra bylgju með tilheyrandi takmörkunum á starfsemi fangelsanna telur Afstaða að Fangelsismálastofnun þurfi að bregðast við ábendingum félagsins, þannig að ekki skapist órói í fangahópnum.

Fangar tóku á sig verulegar byrðar þegar neyðarstigi var lýst yfir í fangelsum landsins í vor og neikvæð áhrif eru enn að koma fram. Heimsóknarbann leiddi til þess að upp úr samböndum flosnaði og vinasambönd rofnuðu, meira bar á þunglyndi og kvíða og almennt hrakaði geðheilbrigði fanga töluvert. Allir vita að mikilvægast hlekkurinn í endurhæfingu er styrking fjölskyldubanda. Þrátt fyrir ívilnandi aðgerðir Fangelsismálastofnunar þá telur Afstaða að ekki hafi verið gengið nægilega langt og þar sem stofnunin lofaði því að bæta fangahópnum með einhverjum hætti upp að hafa afplánað í neyðarástandi væri tilvalið að það yrði gert með því að létta hópnum lífið í næstu bylgju, og þeim sem á eftir koma.

Verði gripið til heimsóknarbanns að nýju þarf Fangelsismálastofnun að heimila nettengdar tölvur í lokuðu fangelsunum. Ein tölva með Skype fyrir allan hópinn er óásættanlegt. Samskipti við fjölskyldu og vini eru afskaplega mikilvæg í faraldri sem þessum og stuðla að jákvæðu geðheilbrigði. Þá verður Fangelsismálastofnun einnig að sætta sig við að nútíminn býr í nettengingum og fangar eiga ekki að vera þar undanskildir. Rafræn stjórnsýsla er veruleiki sem fangar búa við og álagið á fangaverði vegna hennar er til vandræða. Fangaverðir verja heilu stundunum á degi hverjum í að aðstoða við tölvupóst, hringja í stofnanir, sækja um vottorð og eyðublöð fyrir fanga sem eru fullfærir um að gera slíkt sjálfir hafi þeir til þess tækifæri.

Eðlilega ætti Fangelsismálastofnun ekki að taka inn nýja fanga fari smitum fjölgandi í samfélaginu, veita reynslulausnir fyrr, færa fanga á áfangaheimili og sleppa þeim sem eru í áhættuhópi. Skoða eigi að veita þeim frelsi sem hlotið hafa fangelsisdóma fyrir minniháttar brot og þeirra sem ekki teljast hættulegir samfélaginu. Þá ætti að veita föngum endurgjaldslausa símaþjónustu, auka tómstundir og undirbúa fjarnám og námskeið sem hefjast ættu í ágúst. Halda verður starfsemi AA-samtakanna óbreyttri og fulltrúar frá Afstöðu verða áfram að fá að heimsækja fangelsin. Eðlilegt er að þeir sem koma inn í fangelsin verði hitamældir.

Eftir sem áður hvetur Afstaða alla vistmenn til að halda ró sinni, þrífa bæði sig um sínar vistarverur vel. Þar sem handspritt er augljóslega ekki leyft í lokuðum fangelsum þá er mikilvægt að þvo hendurnar mjög reglulega með sápu. Félagið mun tryggja að dagleg samskipti verði við stofnunina um næstu skref og t.a.m. höfum við átt góða tvo fundi í dag.

Afstaða hefur verulegar áhyggjur af þeim áhrifum sem faraldurinn hefur á íslensku fangelsin og vonast til þess að Fangelsismálastofnun taki vel í ábendingarnar og að hið góða samstarf sem verið hefur haldi áfram.

Höfundur er formaður Afstöðu, félags fanga.