Málefni Landspítalans, sérstaklega bráðamóttökunnar, hafa verið í brennidepli umræðunnar undanfarnar vikur. Starfsfólk Landspítalans, bæði læknar og hjúkrunarfræðingar, hefur komið fram í fjölmiðlum og rætt þá erfiðu stöðu sem uppi er. Það sem helst brennur á læknum Landspítalans er að sífellt oftar kemur upp sú staða að þeir eiga erfitt með að veita sjúklingum sínum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og sem læknum ber að veita samkvæmt læknaeiðnum. Vegna álags getur verið mikill þrýstingur á starfsfólk að vinna hratt og útskrifa sjúklinga sem fyrst en það samrýmist ekki alltaf bestu hagsmunum og öryggi sjúklinga. Til að veita góða heilbrigðisþjónustu þarf tíma, nægt starfslið og aðstöðu – og þar með nægt fjármagn.

Það liggur fyrir að vandamál Landspítalans í dag er hægt að rekja mörg ár aftur í tímann. Skortur á uppbyggingu og viðhaldi húsnæðis og bið eftir „nýjum“ Landspítala er sorgarsaga. Sömuleiðis hefur fjármögnun Landspítalans lengi verið ófullnægjandi. Kröfur voru um niðurskurð, jafnvel á árunum fyrir hrun, og stórfelldur niðurskurður eftir hrunið skapaði erfiðleika sem enn er ekki búið að vinna úr. Framlög ríkisins til Landspítalans á hvern íbúa náðu hámarki árið 2005, um 170 þúsund kr./íbúa á verðlagi ársins 2018, en hröpuðu niður í 119 þúsund kr./íbúa árið 2010. Síðustu ár hafa fjárframlög farið hækkandi og voru 166 þúsund kr./íbúa árið 2017. Auknar fjárveitingar til spítalans duga þó ekki til að bæta upp áralangt svelti og mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustu, meðal annars vegna öldrunar þjóðarinnar og stóraukins ferðamannastraums. Því til viðbótar má nefna að þjónusta frá ýmsum öðrum stofnunum, einkum á SV-horni landsins, hefur verið færð til Landspítalans án þess að fullnægjandi fjárveitingar hafi ávallt fylgt slíkum breytingum.

Fjármögnun til heilbrigðismála á Íslandi (8,3% af landsframleiðslu árið 2018) er lægri en á öðrum Norðurlöndum og nær ekki meðal­útgjöldum OECD-ríkja sem eru 8,8% af vergri landsframleiðslu (GDP). Ríkisstjórn landsins hefur því verðugt verkefni að vinna, bæði heilbrigðisráðuneytið, en ekki síður fjármálaráðuneytið sem ákvarðar árleg fjárframlög til heilbrigðismála.

Læknaráð Landspítalans hefur í áranna rás endurtekið sent frá sér ályktanir sem lúta að vandamálum spítalans, nú síðast um vanda bráðamóttökunnar og fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Læknaráðið hefur verið rödd lækna spítalans út á við. Vandi bráðamóttökunnar endurspeglar vandamál spítalans í heild sinni og um leið heilbrigðiskerfisins alls. Mikilvægt er að vandinn sé ræddur opinskátt til þess að hægt sé að leita lausna. Heilbrigðisráðherra hefur fengið samþykkta metnaðarfulla heilbrigðisstefnu og vinnur einnig ötullega að ýmsum mikilvægum verkefnum svo sem uppbyggingu hjúkrunarrýma og heilsugæslu. Metnaður ráðherra til þess að bæta heilbrigðiskerfið fer ekki fram hjá neinum. Læknaráð fagnar því að ráðherra komi á fundi þess og ræði milliliðalaust við lækna spítalans, enda eru læknar leiðtogar í heilbrigðisþjónustu eins og heilbrigðisráðherra benti á. Mikilvægt er að ráðherrar og aðrir ráðamenn leggi við hlustir og taki til sín eindregin varnaðarorð lækna og annarra heilbrigðisstétta, enda eru þau ekki sett fram að tilefnislausu.

Læknaráð hefur ásamt hjúkrunarráði það hlutverk skv. lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um fagleg atriði í rekstri heilbrigðisstofnana. Læknaráð hefur undanfarin ár birt fjölmargar ályktanir sem lúta að þeim vandamálum og áskorunum sem blasa við Landspítalanum. Mikilvægt er að fagfólk hafi vettvang til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og þar af leiðandi hefur læknaráð gert alvarlegar athugasemdir við nýframsett frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu en þar er lagt til að fella út úr heilbrigðislögum ákvæði um að á háskóla- og kennslusjúkrahúsum skulu vera starfandi bæði læknaráð og hjúkrunarráð. Í umsögn læknaráðs um frumvarpið segir: „Mikill meirihluti allrar klínískrar þjónustu er veittur af læknum og hjúkrunarfræðingum. Því telst eðlilegt að þessar tvær langstærstu fagstéttir heilbrigðisstarfsmanna myndi sérstök fagráð sem eru forstjóra stofnunar til ráðuneytis um fagleg klínísk málefni. Ráðgjöf þessara sérfræðinga er lykilatriði í faglegri stjórnun í heilbrigðiskerfinu.“ Læknaráð skorar á velferðarnefnd Alþingis, sem hefur málið til umfjöllunar, að endurskoða umrædda lagabreytingu. Mikilvægt er að rödd læknaráðs Landspítala hljómi áfram landi og lýð til heilla.

Sú mikla umræða sem átt hefur sér stað um stöðu Landspítalans og íslenska heilbrigðiskerfisins undanfarnar vikur mun vonandi skila sér í auknum skilningi ráðamanna – og þar með nægum fjárframlögum til þess að vinna upp fjárskort undanfarinna tveggja áratuga.