Endurnýjuð ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur verður kyrrstöðustjórn, enn sem fyrr, af ástæðum sem rekja má til eðlilegra átaka milli þeirra ólíku stjórnmálaflokka sem mynda hana, en einnig vegna einsleitni þeirra, því það sem sameinar þá er aðdáun á óbreyttu kerfi.

Þess vegna verður ekki hróflað við krónunni á næstu árum, hversu illa sem hún leikur heimili og fyrirtæki landsmanna, en hún er völd að mestu álögum Íslandssögunnar: skattar á einstaklinga árið 2019 námu 190 milljörðum, en krónuskatturinn það sama ár var 180 milljarðar.

Þess vegna verður engu breytt sem truflað getur fokríka kvótakónga. Markaðsleiðin er sem fyrr eitur í beinum stjórnarherranna, enda þótt hún hafi almannahag í huga. Fimm prósenta árleg leiga af auðlindinni, jafngildi 60 milljarða, þykir skattpíning í tilviki auðugustu landsmanna.

Þess vegna verður áfram rekin fátæktarstefna í landbúnaði, sem er auðmýkjandi fyrir sauðfjárbændur um allt land. Og enn síður verður grænmetisbændum rétt hjálparhönd með afslætti á rafmagni, sem áfram verður aðeins í boði fyrir erlenda auðhringi sem reka hér álver.

Þess vegna verða hugmyndir um þjóðgarða á hálendi landsins látnar niður falla, milli þess sem áfram verður beitt afturvirkum reglugerðum til að lauma fiskeldi inn í þrönga firði, af því umhverfið er atvinnulífinu óæðra, sama hvaða stjórnarflokkur stýrir viðkomandi ráðuneyti.

Þess vegna mun ríkisstarfsmönnum fjölga hratt, einmitt því fólki sem leiðir launaþróun og gerir fyrirtækjum á almennum vinnumarkaði erfiðara um vik að ná endum saman. Og áfram verður hlutfall ríkisfyrirtækja í atvinnulífi miklum mun hærra á Íslandi en í löndunum í kring.

Þess vegna verður engu breytt varðandi starfsemi Ríkisútvarpsins, sem veður uppi á íslenskum fjölmiðlamarkaði, með belti sín og axlabönd, og grefur undan starfsemi einkarekinna fjölmiðla, sem fyrr deyja drottni sínum en að stjórnarherrarnir breyti þar nokkrum hlut.

Þess vegna verður stjórnarskrármálið áfram drepið í dróma og sjálfsögðum bótum á æðstu lögum landsins slegið á frest, einmitt af hræðslu við að þjóðin hafi eitthvað um það að segja, en það er stjórnarflokkunum kærkomið að hafa auðlindaákvæðið áfram opið og sveigjanlegt.

En líklega er þetta eðlilegt ástand. Ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki einir hræddir við breytingar, almenningi til hagsældar og aukinna réttinda. Það er nefnilega almenningur sem kýs þessa flokka í ríkari mæli en önnur öfl. Hann vill kyrrstöðu. Og hann fær kyrrstöðu.