Mjög algengt er að eftir alvarlegar farsóttir komi tími efnahagslegs uppgangs og gjarnan einhvers konar félagslegrar upplausnar. Þegar samfélög slíta sig úr dauðahaldi smitsjúkdóms virðist algengt að fólk hafi tekið meðvitaðar ákvarðanir um að lifa lífinu almennilega og leyfa sér að endurmeta hvað það er sem það vill fá út úr lífinu, hvað eru stórmál og hvað eru smámunir.

Mannskæðar farsóttir hafa líka haft þau áhrif að auka jöfnuð í samfélaginu. Mannfræðingar telja til dæmis að eftir svarta dauða í Evrópu (á fjórtándu öld) hafi komið tímabil þar sem venjulegt fólk naut tiltölulega mikils frelsis og efnahagslegrar velsældar. Slík velsæld snerist ekki endilega um hlutabréfakaup eða lífeyrissparnað – heldur miklu frekar að brauðstritið sjálft varð auðveldara og fólk gat eytt tíma sínum í að gera skemmtilegri hluti, eins og að halda keppnir milli bæjarfélaga í fánýtum hlutum, svo sem að baka stærsta brauðið eða smíða stærsta tréhestinn. Fólk fékk vilja og svigrúm til þess að leika sér, og fann þar að auki fyrir ákafri skyldurækni gagnvart lífsgleðinni sjálfri.

Allt breytt eða ýkt

Frá upphafi heimsfaraldursins hafa togast á væntingar um að allt myndi breytast til frambúðar eða allt yrði aftur eins og var. Andláti handabanda og kurteisiskossa var spáð. Margir voru byrjaðir að sætta sig við varanlegan sprittþurrk á höndum og eða vera kafnandi í eigin andfýlu bak við krumpaðar andlitsgrímur.

Núna virðist sem þróunin verði allt önnur. Fyrstu vísbendingar fóru að gera vart við sig snemma árs þegar nokkur ríki í Bandaríkjunum byrjuðu að afnema sóttvarnaráðstafanir. Í Texas mátti sjá áhorfendur á hafnaboltaleikjum sitja prúða í sætum sínum með grímurnar fyrstu mínútur leiksins, en draga þær svo neðar á hökuna og losa sig við þær eftir því sem leið á leikinn og bjórdrykkjan óx. Á úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta um þessar mundir er áberandi partístand á áhorfendum, mikil tíska að rífa af sér klæði og dæmi um að smáhlutum sé hent inn á völlinn eins og tíðkaðist áður en íþróttaheimurinn var gerður að meinleysislegri fjölskylduskemmtun.

Það virðist líka vera mikil þrá ríkjandi til að sleppa fram af sér beislinu hér á landi, eins og hefur sést á stemningunni á íþróttaleikjum. Því miður virðist sem blessuð dómarastéttin í fótbolta hafi fengið að kenna óþyrmilega á allri þessari nýfundnu lífsgleði – en vonandi næst smám saman jafnvægi á þeirri hlið mannlífsins.

Sólskinið ljómar

Nú þegar sumarið virðist loks vera að koma yfir sæinn til Íslands virðist sem betri tíð sé í vændum. Meginþorri Íslendinga er bólusettur og líkur á alvarlegum faraldri eru sagðar þverrandi, jafnvel þótt smit kunni að fara af stað í litlum hópum. Lífið verður ekki laust við áhættu þótt heimsfaraldurinn sé í rénun, en það er ekki lengur ástæða til ofsahræðslu eða yfirgengilegrar varkárni.

Þótt biðraðirnar hafi stundum verið langar í bólusetninguna hefur stemningin verið góð. Jafnvel í rigningu. Hið stórskemmtilega fyrirkomulag að boða í bólusetningu eftir fæðingarári gerði það að verkum að margir hittu gamla kunningja og vini í biðröðinni og áttu skemmtilega og eftirminnilega samverustund. Þannig var það hjá mér. Margir sem hafa fengið bólusetningu lýsa því svo sem frelsandi tilfinningu að standa upp úr stólnum með pínulitla plásturinn á hægri öxlinni. Fólk hefur jafnvel orðið meyrt og tilfinningasamt, þessu þunga fargi létt af okkur, fyrst af einum í einu og svo smám saman okkur öllum á Íslandi, og vonandi heimsbyggðinni allri áður en langt um líður.

Einn fyrir alla

Margt af því besta við íslenskt samfélag hefur komið fram í þessu ástandi. Meðan upphaf bólusetningartímabilsins í Evrópu var markað af margvíslegum spillingar- og klíkumálum þá var stemningin hér á landi að mestu þannig að allir væru fyrir einn og einn fyrir alla. Fréttamyndir af ráðherrum í biðröð og sóttvarnalækni á stuttermabol í Laugardalshöll, yfir sig hissa á að fólk væri að klappa, eru til marks um samfélagsleg verðmæti sem mikilvægt er að standa vörð um á Íslandi.

Meira fjör

Ef við erum ekki óheppin þá ættu tímar kórónaveirunnar smám saman að líða undir lok. Lífið kemst aftur af stað og ef eitthvað er að marka fyrri farsóttir, og fyrstu vísbendingar vorsins á Íslandi, þá verður það skemmtilegra og fjörugra heldur en fyrir faraldurinn. Hver veit nema fólk verði duglegra en nokkru sinni fyrr að mæta á fótboltaleiki, fara á tónleika, hanga á kaffihúsum, ganga út í sumarnóttina, baða sig í náttúrulaugum, hitta vini og ættingja. Eftir innilokun og félagslega einangrun er líklegt að mörg okkar séu eins og kálfar að vori, tilbúin til þess að fara stökkvandi út í sumarið og jafnvel að hrufla sig örlítið á glannalegum rafskútuakstri, bara til þess að finna fyrir því að við séum á lífi.

Það tekur fólk mislangan tíma að jafna sig á þessu mikla raski á lífinu, en á undraskömmum tíma verðum við aftur farin að hafa gaman af hvert öðru – og þora að heilsast með handabandi, faðmast og kurteisiskyssast, þótt hver verði auðvitað að hafa sinn hraða á því. Því verður nefnilega tæpast neitað að margt af því sem er skemmtilegast að gera í lífinu felur í sér umtalsverða smithættu.